Brunatryggingar

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 19:46:31 (7747)

2004-05-05 19:46:31# 130. lþ. 110.22 fundur 953. mál: #A brunatryggingar# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[19:46]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Því er til að svara að í 2. gr. laga um brunatryggingar kemur fram að vátryggingarfjárhæð húseigna skuli nema fullu verði eignarinnar eftir virðingu. Fasteignamat ríkisins annast virðingu húseigna og er heiti þeirrar matsgerðar brunabótamat.

Brunabótamati er ætlað að taka til þeirra efnislegu verðmæta húseignar sem eyðilagst geta í eldi og miðast við byggingarkostnað hennar að frádregnum afskriftum vegna aldurs, slits, viðhalds og ástands eignarinnar að öðru leyti. Við ákvörðun afskrifta er tekið mið af áætluðum líftíma byggingarhluta en afskriftir taka þó almennt ekki til vinnu manna og vélavinnu.

Í lögum um brunatryggingar er að litlu leyti fjallað um hvernig um uppgjör bóta fari verði brunatjón. Lög um vátryggingarsamninga koma þar fyrst og fremst til skoðunar en þau mæla fyrir um hvernig vátryggingarverðmæti húseignar skuli ákveðið eftir að tjón er orðið en með því hugtaki er átt við það verðmæti sem liggur til grundvallar ákvörðun fjárhæðar vátryggingarkvóta.

Í 37. gr. laganna kemur fram að bætur vegna húseigna skuli miðast við enduröflunarverð að teknu tilliti til mismunar milli gamals og nýs. Árið 1999 var lögum um brunatryggingar breytt. Laut breytingin m.a. að því að gert var ráð fyrir afskriftum í brunabótamati. Var tilgangurinn að tryggja samræmi milli vátryggingarfjárhæðar, þ.e. brunabótamatsins og vátryggingarverðmætis, þ.e. bótafjárhæðar við tjón. Enn fremur var markmiðið að betra samræmi yrði milli iðgjalda og þeirrar verndar sem húseigendur greiða fyrir, enda reiknast iðgjöld af vátryggingarfjárhæð. Rétt er að hafa í huga að samkvæmt löggjöf um brunatryggingar hvílir skylda á húseigendum að óska eftir nýju brunabótamati á húseign hafi miklar endurbætur verið gerðar á húseign eða hún endurbyggð og ætla má að verðmæti hennar hafi aukist. Einnig er að finna heimild til lækkunar brunabótamats á húseignum sem eru í lélegu ástandi og hafa lítt eða ekki verið í notkun, enda liggi fyrir beiðni húseigenda og staðfesting sveitarstjórnar á ástandi eignarinnar. Þannig er það í höndum húseigenda sjálfra að tryggja að vátryggingarfjárhæð húseigna endurspegli raunverulegt verðmæti þeirra.

Nýlega voru samþykkt á Alþingi ný lög um vátryggingarsamninga sem taka gildi 1. janúar 2006. Nýju lögin innihalda ekki sambærilegt ákvæði um vátryggingarverðmæti og gildandi lög. Er í nýju lögunum gert ráð fyrir að vátryggingafélag og vátryggingartaki semji um það sérstaklega í vátryggingarsamningi hvernig vátryggingarverðmæti verði ákveðið komi til tjóns. Ekki er þó gert ráð fyrir að breyting þessi hafi efnislega breytingu í för með sér varðandi uppgjör vátryggingarbóta við bruna.