Skattgreiðslur vegna virkjunarframkvæmda

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 20:01:26 (7753)

2004-05-05 20:01:26# 130. lþ. 110.24 fundur 863. mál: #A skattgreiðslur vegna virkjunarframkvæmda# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[20:01]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Frú forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram fyrirspurn til hæstv. fjmrh. um tiltekna hluta skattgreiðslna vegna erlendra starfsmanna sem starfa við Kárahnjúkavirkjun. Það má segja að hér sé að hluta til um endurtekið efni að ræða því að ég lagði fram ásamt með hv. þm. Jóni Bjarnasyni fyrirspurn þar sem beiðst var skriflegs svars um ýmis atriði og álitamál sem kynnu að tengjast skattalegri meðferð mála í tengslum við byggingu Kárahnjúkavirkjunar.

Fimmta spurningin í þeirri fyrirspurn var á þá leið að spurt var hvort hæstv. fjmrh. teldi einhver álitamál eða vandamál vera uppi eða kunna að koma upp í sambandi við skattalega meðferð mála í framangreindum tilvikum sem áður hafði verið spurt um og voru tengd umsvifum vegna byggingar Kárahnjúkavirkjunar í heild sinni eða almennt. Svar hæstv. ráðherra var á þá leið að að mati ráðuneytisins væru engin sérstök álitamál eða vandamál sem upp kynnu að koma í sambandi við skattalega meðferð mála vegna Kárahnjúkavirkjunar umfram það sem upp kann að koma vegna annarra framkvæmda af þessari stærðargráðu.

Ég varð til þess að mótmæla þessu svari harkalega og ég benti á að útsvarstekjur hefðu ekki skilað sér til sveitarfélaga og að mikil óánægja væri með ýmsa fleiri þætti þessara mála. Síðan hefur nánast ekki linnt fjölmiðlaumfjöllun eða upplýsingum um að þessi mál voru auðvitað ekki, og eru ekki, í neinu lagi. Þetta svar hæstv. ráðherra var rangt, hann hefði átt að sjá sóma sinn í að draga það til baka og endurnýja það eða betrumbæta.

Ég hef því að nýju lagt spurningar fyrir hæstv. ráðherra. Þær lúta að því hvort hæstv. fjmrh. telji að útsvars- og tekjuskattsgreiðslur erlendra starfsmanna við Kárahnjúkavirkjun hafi verið eðlilegar og skili sér, og hafi skilað sér, að fullu til réttra aðila. Ég vil fá heiðarlegt svar.

Í öðru lagi: Er ráðherra enn þeirrar skoðunar að engin sérstök vandamál séu uppi, né líkleg til að koma upp, hvað varðar skattskyldu, tilhögun skattgreiðslna og skattskil vegna virkjunarframkvæmdanna við Kárahnjúka? Enn standa mál þannig, samkvæmt upplýsingum sem ég hef frá sveitarfélögum, að aðeins um 160--180 erlendir starfsmenn eru á skrá hjá sveitarfélaginu sem fyrst og fremst á í hlut, þ.e. Norður-Héraði, af um það bil 700 erlendum starfsmönnum sem talið er að séu á svæðinu. Allt að 1.000 kennitölur hafa þegar verið gefnar út vegna erlendra starfsmanna sem þarna hafa komið við sögu. Svo virðist sem starfsmenn frá þriðju þjóðum svokölluðum, þ.e. löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins, séu teknir að skila sér í einhverjum mæli inn á skrá hjá sveitarfélögunum en ekki starfsmenn sem búa á Evrópska efnahagssvæðinu. Hvort þeir eru enn þá á svonefndri utangarðsskrá, biðskrá, veit enginn, borga þá skatta, hvert? --- veit enginn og auðvitað er það stórfurðulegt ástand, herra forseti, að heimilismálum, skráningu og heimilisfesti þessara manna skuli ekki hafa verið komið í horf. Hæstv. fjmrh. verður að útskýra fyrir okkur hvernig gengur þá að taka af mönnum skatta við slíkar aðstæður.