Skattgreiðslur vegna virkjunarframkvæmda

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 20:13:35 (7757)

2004-05-05 20:13:35# 130. lþ. 110.24 fundur 863. mál: #A skattgreiðslur vegna virkjunarframkvæmda# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[20:13]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Virðulegi forseti. Þetta er alveg ótrúlegur málflutningur. Það er verið að gefa það í skyn að sá ráðherra sem hér stendur fyrir hönd ríkisstjórnarinnar hafi einhverja annarlega hagsmuni af því að þetta fyrirtæki borgi ekki þá skatta sem ég er að halda fram að það eigi að borga. Ég veit hins vegar, og geri ráð fyrir því að hv. þm. Jón Bjarnason hafi vitað það þó að hann segi að ég hafi viðurkennt það núna fyrst, að það var ágreiningur. Vissi hann ekki að það kom fram opinberlega að fyrirtækið gerir verulegan ágreining um greiðslu tryggingagjalds og hefur íslenska lögmenn í sinni þjónustu til að hjálpa sér í slíkum málum? (SJS: Vanir menn.) Það er auðvitað ekki óeðlilegt. (Gripið fram í.) Það er eðlilegt að fyrirtæki leiti sér lögfræðilegrar aðstoðar innan lands til að greiða úr ágreiningsmálum. Mér finnst þetta annarlegur málflutningur og ég veit að það er ekki einn einasti maður hér á Alþingi, í það minnsta ekki í stjórnarmeirihlutanum, sem ætlast ekki til þess að þau fyrirtæki sem þarna eiga hlut að máli standi eðlilega skil á öllum gjöldum og greiðslum sem réttilega á að inna af hendi.

Hvert renna þessir peningar? Aðalfyrirtækið sem um er að tefla hér er með lögheimili í Reykjavík. Það er þess vegna skattstofan í Reykjavík sem gengst fyrir þeirri álagningu sem þarna er um að tefla og peningarnir liggja þá væntanlega hér þangað til búið er að fá botn í það hvar hver og einn hefur lögheimili. Það hefur verið tafsamt. Það hefur valdið einhverjum vandamálum sem þingmaðurinn hefur verið að tala um. Ég reiddi fram upplýsingar sem benda til þess að úr þessu sé að greiðast, og vonandi er það. Samt má gera ráð fyrir því að einhver svona ágreiningur fari á æðri stig innan skattkerfisins til úrskurðar, og jafnvel dómstóla eins og hv. þm. Jón Bjarnason sagði þó að maður geti ekki um það fullyrt.

Svo spurði hann mig: Hvað var mikið áætlað á þessa aðila? Hvernig dettur þingmanninum í hug að ég geti svarað slíkri spurningu hér um einhvern einn skattgreiðanda? Það er algjörlega út í hött. Hafi hann einhvern tíma lent í áætlun, mundi hann kæra sig um eða telja eðlilegt að einhver annar þingmaður mundi spyrja mig: Hvað var mikið áætlað á hv. þm. Jón Bjarnason? Þetta er algjörlega út í bláinn. (Gripið fram í.)