Kaup á hlutafé í eignarhaldsfélögum

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 20:21:58 (7760)

2004-05-05 20:21:58# 130. lþ. 110.25 fundur 957. mál: #A kaup á hlutafé í eignarhaldsfélögum# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., SJS
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[20:21]

Steingrímur J. Sigfússon:

Frú forseti. Ég held út af fyrir sig að Suðurnesjamenn séu ekki of sælir af atvinnuástandi þar um slóðir um þessar mundir og ég tel ekki eftir þó að þeir fái stuðning í formi hlutafjárkaupa eða framlags af þessu tagi. Auðvitað vekur það samt athygli í því samhengi að ástandið er mjög víða þannig að það kæmi sér vel, í öðrum landshlutum, að fá sambærilega fjármuni.

Það sem ég vil sérstaklega leggja áherslu á við þessa umræðu er að nú liggja fyrir upplýsingar og við erum með þær í höndunum, t.d. í iðnn., þar sem við höfum verið með málefni Nýsköpunarsjóðs til skoðunar, að það er algjör þurrð á fjármagni til nýsköpunar og fjárfestinga af því tagi í landinu. Nýsköpunarsjóður er tómur og ekki hefur verið veitt meira fé til fjárfestingarfélaga af því tagi sem við erum hér að ræða um. Ástandið er hörmulegt hvað þetta snertir. Þar er bent á þetta litla sem farið hefur í gegnum Byggðastofnun en það er líka búið. Þess vegna er fullgilt að spyrja: Stendur til að önnur brýn nýsköpunarverkefni annars staðar í landinu fái einhverja sambærilega fyrirgreiðslu?