Þinghaldið og afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps úr nefnd

Mánudaginn 10. maí 2004, kl. 22:49:35 (7771)

2004-05-10 22:49:35# 130. lþ. 111.91 fundur 541#B þinghaldið og afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps úr nefnd# (aths. um störf þingsins), SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 130. lþ.

[22:49]

Sigurjón Þórðarson:

Herra forseti. Það hefur verið með ólíkindum að fylgjast með störfum meiri hluta allshn. síðustu vikuna. Greinilegt er að það hefur verið ákveðið að keyra málið hratt í gegn og forðast alla umræðu um það. Aldrei nokkurn tíma hefur því verið svarað, enginn þingmaður stjórnarflokksins hefur svarað því af nokkru viti af hverju í ósköpunum lá svona á. Eina svarið sem ég hef heyrt er frá hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur í útvarpsviðtali, að það væri gert af einskærri tillitssemi við fyrirtækið Norðurljós og starfsfólk þess. Ég veit eiginlega ekki hvort það er brandari en ef svo er er hann mjög lélegur því að hér er um alvörumál að ræða gagnvart starfsfólkinu. Ég spyr hv. þingmann: Var þetta brandari? Ég vonast til að hv. þm. komi upp og skýri ástæðuna fyrir því hvers vegna í ósköpunum lá svona á.

Allir vita að frv. er afrakstur þess að hæstv. forsrh. hefur lengi haft horn í síðu ákveðinna manna í viðskiptalífinu. Í byrjun báru hinir ungu þingmenn Sjálfstfl. höfuðið hátt og töldu að vísu að að öllum líkindum væri hér um slæmt mál að ræða en eflaust mætti troða því hratt og örugglega í gegnum þingið og forðast alla umræðu og svo var öll von sett á að það mundi gleymast. En eftir því sem leið á vikuna sem frv. var til umfjöllunar og í meðförum allshn. fóru að renna tvær grímur á lögfræðingagerið í nefndinni því hver gesturinn og umsagnaraðilinn á fætur öðrum og hver umsögnin á fætur annarri báru með sér að hér væri um einstaklega slæmt frv. að ræða og líklega stjórnarskrárbrot og brot á Evrópureglum.

Lögfræðingagerið, hv. þm. Birgir Ármannsson, sérfræðingur í meðalhófsreglu, og hv. þingmenn frelsisins Sigurður Kári Kristjánsson og Bjarni Benediktsson, sá að hér var ekki um neitt frelsisfrv. að ræða og sömu sögu má segja (Forseti hringir.) um hv. þm. Jónínu Bjartmarz sem gaf í skyn að hér væri (Forseti hringir.) um slæmt mál að ræða.