Þinghaldið og afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps úr nefnd

Mánudaginn 10. maí 2004, kl. 22:52:01 (7772)

2004-05-10 22:52:01# 130. lþ. 111.91 fundur 541#B þinghaldið og afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps úr nefnd# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 130. lþ.

[22:52]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil spyrja hæstv. forseta í byrjun: Hvað á að vera á dagskrá fundar á morgun? Það er ekki seinna vænna að við þingmenn fáum að vita það. Er ætlunin að ræða fjölmiðlafrv. strax í fyrramálið? Á að halda áfram vinnubrögðunum í sama stílnum og stilla mönnum upp frammi fyrir 2. umr. um málið strax í fyrramálið eftir þá endemisafgreiðslu á málinu nú úr allshn. sem greinilega hefur verið ákveðin mörgum klukkutímum áður en nefndin sjálf afgreiðir málið formlega, samanber það að útbýtingarfundur er boðaður fyrir klukkan sex en nefndin afgreiðir málið frá sér um tíuleytið? Hvers konar uppáskriftaniðurlæging er það, herra forseti, sem menn hafa fundið hér? Hvers konar sjálfseyðingarhvöt er það að standa fyrir slíkum vinnubrögðum frammi fyrir alþjóð?

Herra forseti. Það er náttúrlega lítil huggun að ofríki ríkisstjórnarinnar ráði hér ferðinni því auðvitað eru færibandið og stimpillinn þau tvö tól sem manni koma fyrst í hug þegar maður stendur frammi fyrir vinnubrögðum af þessu tagi. Það er eins og hæstv. ríkisstjórn vilji stríðið, vilji ófriðinn, vilji hafa þetta sem allra ömurlegast á allra handa máta. Og til að bíta höfuðið af skömminni er gildistökuákvæði frv. fært aftur til 1. júní 2006 samkvæmt breytingartillögunum sem í sjálfu sér er ekki umtalsverð efnisbreyting en undirstrikar fáránleika þess að hraða málinu svona í gegn því menn hafa rúm tvö ár til stefnu til að gera gott úr löggjöfinni áður en hún á að taka gildi.

Herra forseti. Ég endurtek spurninguna: Hvað á að verða á dagskrá þingfundarins í fyrramálið? Ætlar hæstv. forseti virkilega að bjóða upp á það að umsagnir frá nefndum, sem hæstv. forsrh. m.a. lofaði að fengju að skoða málið eins og menntmn., liggi (Forseti hringir.) ekki fyrir þegar allshn. afgreiðir málið frá sér? Það eru m.a. svik á því loforði (Forseti hringir.) sem forsrh. gaf mér úr þessum ræðustóli fyrir nokkrum dögum.