Dagskrá næsta þingfundar

Mánudaginn 10. maí 2004, kl. 23:15:07 (7785)

2004-05-10 23:15:07# 130. lþ. 111.94 fundur 544#B dagskrá næsta þingfundar# (um fundarstjórn), BH
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 130. lþ.

[23:15]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil gera enn eina tilraun til að styðja þá einföldu kröfu sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og fleiri þingmenn hafa lagt fram núna þegar nálgast miðnætti á þessum, ég vil ekki segja ágæta, degi, hæstv. forseti. Því miður get ég ekki sagt það, mér er ekki þannig innan brjósts núna. Við gerum þá sjálfsögðu kröfu til forseta hins háa Alþingis að hann svari okkur því hvort mál sem var tekið úr allshn. klukkan tíu í kvöld verði á dagskrá fundarins á morgun. Eða er það svo, virðulegi forseti, að hæstv. forseti geti ekki svarað því hér og nú hvað verði á dagskrá fundarins á morgun? Ég trúi ekki, hæstv. forseti, að ekki verði hægt að fá svar við þessu fyrir miðnætti.

Virðulegi forseti. Ég hef lagt á það áherslu fyrr í kvöld að það skiptir máli upp á það hvort minni hlutinn á hinu háa Alþingi þurfi að sitja yfir nefndaráliti í alla nótt eða hvort það nægi að sitja eitthvað fram eftir nóttu. Mér finnst þetta skipta máli, virðulegi forseti, og það hlýtur að vera eðlileg og sjálfsögð krafa okkar að hæstv. forseti svari þessu. Verður þetta frv. á dagskrá þingsins á morgun eða ekki, hæstv. forseti?

Hér hafa fjölmargir hv. þm. komið upp og mótmælt þeirri flýtimeðferð sem frv. á að fá og ég vek athygli á að ekki einn einasti þingmaður hefur lagt fram ósk eða kröfu um það við forseta að málið verði á dagskrá fundarins á morgun. Því hlýtur hæstv. forseti að þurfa að gera það upp við sjálfan sig hvað virkilega hasti, eða er það svo sem ég held og kannski einhverjir fleiri hér inni að ríkisstjórnin meti það svo að þetta frv. þoli ekki umræðu einum degi lengur? Er það mat hennar að frv. þoli ekki að vera í dagsljósinu og þurfi þess vegna flýtimeðferð og hér þurfi að vinna í skjóli nætur dag eftir dag til að klára það sem allra fyrst?

Hæstv. ríkisstjórn telur væntanlega að best sé að meðhöndla íslensku þjóðina þannig að láta hana kokgleypa stóru vondu bitana á sem allra skemmstum tíma, síðan er hún svo fljót að gleyma, virðulegur forseti. Er það kannski þannig sem hæstv. ríkisstjórn lítur á málið og þá um leið hæstv. forseti?