Afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 10:35:32 (7795)

2004-05-11 10:35:32# 130. lþ. 112.91 fundur 545#B afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[10:35]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir með hæstv. forseta. Það er sannarlega ánægjuefni að hafa þennan góða gest á meðal okkar í dag. Tilefni þess að ég kem hingað upp og kveð mér hljóðs eru þó þau vinnubrögð sem viðhöfð eru á hinu háa Alþingi í dag.

Ég rifja það upp, af því að hæstv. forsrh. er hér staddur, að hann lofaði okkur þingmönnum á hinu háa Alþingi að nægur tími yrði gefinn til að fara yfir það erfiða mál sem við höfum hér til umfjöllunar. Ég spyr hæstv. forsrh.: Ætlar hann að brjóta þetta loforð? Hér kom fram í gær að fyrirhugað væri að taka til afgreiðslu í dag útvarpslögin og hið umdeilda fjölmiðlafrumvarp. Þó blasir við að meiri hlutinn hafði forskot, hafði þá þegar undirbúið meirihlutaálit sitt og málið var með valdi og ofbeldi tekið úr nefndinni. Ég spyr herra forseta sem er skjól okkar þingmanna hér: Hver er réttur okkar til þess að fá tíma og tækifæri til að vinna með þokkalegum hætti það nefndarálit sem á að vera grundvöllur vinnu okkar í þinginu? Við hljótum að hafa sama rétt og þingmenn stjórnarliðsins til að geta lagt fram ítarlegt og vel rökstutt nefndarálit. Þó að okkar fólk hafi verið að vinna mestan part nætur hefur það ekki tekist. Ég vil því spyrja hæstv. forsrh. hvort ekki komi til mála að hann fresti fundi þegar þessari umræðu nú í upphafi dags lýkur, kalli saman fund þingflokksformanna þar sem rætt verður hvort ekki séu tök á því, með vísan til loforða hæstv. forsrh. í upphafi þessa máls alls, að fresta þinginu til kl. tvö í dag til að okkur gefist tóm til að ljúka þessu máli og sömuleiðis til að efh.- og viðskn. gefist tóm til þess að ljúka umfjöllun sinni. Sú nefnd hefur ekki lokið henni og ekki hefur komið fram tillaga af hálfu stjórnarliða í þeirri nefnd að henni ljúki. Þar er málið enn í umfjöllun og enn á eftir að fá gesti sem lofað var.