Afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 10:38:03 (7797)

2004-05-11 10:38:03# 130. lþ. 112.91 fundur 545#B afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[10:38]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Var það hæstv. forsrh. sem hér talaði eða hæstv. forseti þingsins? Það er hæstv. forseti þingsins sem tekur ákvörðun um þinghaldið í samráði við aðra forseta þingsins (ÖS: Hann á að gera það.) og á að gera það. Hins vegar er reyndin sú að ríkisstjórnin beitir fullkomnu agavaldi í þinginu og er það áhyggjuefni hvernig komið er.

Ég tek undir með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að það mál sem er á dagskrá hér í dag er fullkomlega vanreifað. Allshn. sem fékk málið til umfjöllunar frá þinginu skaut því m.a. til efh.- og viðskn. til umfjöllunar. Sú nefnd hefur ekki lokið henni. Okkur hafa borist nokkrar umsagnir aðila sem allir kvarta þó undan of skömmum fresti til að vinna málið. Í umfjöllun Samkeppnisstofnunar kemur m.a. fram að hún hafi ekki haft tök á því að rannsaka ítarlega samkeppnislegar afleiðingar frv. Í umsögn Verslunarráðsins eru reifuð ýmis álitaefni, lagst gegn frv. Sama um Samtök atvinnulífsins, reifuð ýmis álitaefni. Sama gildir um umsögn Alþýðusambands Íslands, reifuð ýmis álitaefni. Sama gildir um Samtök banka og verðbréfafyrirtækja, reifuð ýmis álitaefni.

Á okkur ekki að gefast tóm til að setjast yfir þetta mál og skoða það á málefnalegan og vandaðan hátt? Við krefjumst þess að þingið viðhafi önnur og vandaðri vinnubrögð í þessu máli.