Skipan hæstaréttardómara

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 14:02:51 (7806)

2004-05-11 14:02:51# 130. lþ. 112.96 fundur 550#B skipan hæstaréttardómara# (umræður utan dagskrár), Flm. ÖS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[14:02]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Hæstv. dómsmrh. hefur vakið miklar deilur með skipan í Hæstarétt sem að öllum líkindum stenst ekki lög. Þessi skipan ber hins vegar öll merki valdhrokans sem er orðið aðalsmerki Sjálfstfl. á þessum síðustu og verstu tímum. Jafnréttisráð hefur þegar sagt að skipan þessi brjóti alvarlega gegn jafnréttislögum. Það hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir konur í Sjálfstfl., fyrir aðrar íslenskar konur og fyrir íslenska jafnréttissinna að sjá af hvílíku virðingarleysi hæstv. dómsmrh. umgengst jafnréttislögin.

Tilefni þessarar umræðu er hins vegar ekki síst þær alvarlegu athugasemdir sem umboðsmaður Alþingis hefur gert við skipan hæstv. ráðherra í Hæstarétt. Álitið er einn samfelldur áfellisdómur yfir embættisfærslu ráðherrans. Umboðsmaður gerir ýmsar alvarlegar athugasemdir við það hvernig hæstv. ráðherra fer á skjön við lög um dómstóla. Hin alvarlegasta varðar þá skýringu að ráðherra hafi upp á sitt einsdæmi, án þess að fá mat Hæstaréttar, ákveðið að nota þekkingu umsækjenda á tilteknu sérfræðisviði, Evrópurétti, til að gera upp á milli þeirra. En hvenær ákvað ráðherrann það? Ráðherrann segir blygðunarlaust í skýringum sínum til umboðsmanns, með leyfi forseta:

,,Ég ákvað vitaskuld ekki áður en embættið var auglýst laust til umsóknar ... að ég myndi hafa þekkingu í Evrópurétti að leiðarljósi við gerð tillögu minnar ...``

Hæstv. ráðherra ákvað sem sagt reglurnar eftir á. Umboðsmaður átelur þetta harðlega. Hann rekur aðstæður eins og þær sem hæstv. ráðherra býr til með því að skilgreina forsendur valdsins eftir á og segir blákalt, með leyfi forseta:

,,Víst er að þá heggur nærri að valið hafi verið að byggja á sjónarmiði sem beinlínis leiðir til þess að hæfni annarra umsækjenda kemur ekki til mats.``

Með þessu er umboðsmaður í reynd að segja að fyrst hafi hæstv. ráðherra valið kandídatinn en síðan hafi hann búið til rökin til að réttlæta valið. Þetta heitir á lagamáli ómálefnalegar forsendur en á kjarnyrtri íslensku heitir það valdníðsla. Ómálefnaleg, vegna þess að hæstv. ráðherra býr til leikreglur eftir á. Valdníðsla, vegna þess hvernig ákvörðun hans mismunar mönnum. Hún kemur í veg fyrir að þeir njóti jafnræðis.

Umboðsmaður Alþingis rekur ýmis önnur dæmi varðandi skipanina sem ekki samrýmast lögum um dómstóla. En ráðherrann sem sér aldrei kusk á eigin hvítflibba bítur höfuðið af skömminni með því að ásaka umboðsmann um að hafa búið til nýjar reglur. Þetta er ótrúlega hrokafullur málflutningur en hann er alveg í stíl við valdhroka Sjálfstfl. Vér einir vitum.

Umboðsmaður kemst þar að auki að þeirri niðurstöðu að ráðherrann hafi líka brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýslulaga. Þetta er sá ráðherra sem á að sjá um að við borgararnir fylgjum lögunum en hann brýtur þau ítrekað sjálfur.

Herra forseti. Fyrir hæstv. dómsmrh. er álit umboðsmanns ein samfelld rassskelling frá upphafi til enda. Mér finnst að í þessum verknaði birtist ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. nakin. Sjálfstfl. er orðinn svo gegnsýrður af valdhroka að hann knýr fram hverjar þær ákvarðanir sem hann vill og Framsfl. lafir með, löngu búinn að missa sína pólitísku sannfæringu, löngu búinn að tapa hugsjónum og stefnu, reiðubúinn til þess að styðja allt sem Sjálfstfl. vill, bara til að hanga á völdum og draumnum um forsætisráðherrastól.

Hvað gerir svo ábyrgur embættismaður eins og umboðsmaður Alþingis sem stendur frammi fyrir því að ráðherra misnotar vald sitt með þessum hætti? Hann getur ekki tekið fram fyrir hendurnar á honum. Til þess hefur hann ekki vald. Hann getur ekki ógilt skipunina. Hann grípur því í niðurlagi álitsins til þess eina ráðs sem hann hefur, að beina því til stofnunarinnar sem kýs hann beint, til Alþingis, að taka völdin af ráðherrunum. Umboðsmaður óskar eftir því að Alþingi taki afstöðu til þess hvort skipan hæstaréttardómara eigi að njóta staðfestingar ríkisstjórnarinnar í heild eða þjóðþingsins. Hann setur fram hugmyndir að þremur hugsanlegum breytingum sem allar hafa þann tilgang einan að verja Hæstarétt fyrir ráðherrum eins og hæstv. dómsmrh.

Tillögur Samf. í þessum efnum liggja fyrir. Við viljum að Alþingi komi að því að staðfesta endanlegt val á dómara í Hæstarétti. Ég spyr hæstv. ráðherra með hvaða hætti hann ætlar að bregðast við tilmælum umboðsmanns að þessu leyti. Er hann reiðubúinn til samstarfs við þingið allt, ekki aðeins meiri hlutann heldur þingið allt, til að nota sumarið til að komast að sameiginlegi niðurstöðu um skipan Hæstaréttar í framtíðinni.

Frú forseti. Í flestum löndum hefði ráðherra sem orðið hefði svo alvarlega á í messunni fyrir löngu sagt af sér. Ég spyr því að lokum: Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að axla ábyrgð sína? Ætlar hann að sitja eins og ekkert hafi í skorist?