Skipan hæstaréttardómara

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 14:15:14 (7809)

2004-05-11 14:15:14# 130. lþ. 112.96 fundur 550#B skipan hæstaréttardómara# (umræður utan dagskrár), GAK
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[14:15]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Í lögum um umboðsmann Alþingis segir um hlutverk hans:

,,Hlutverk umboðsmanns er að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum þessum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Skal hann gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti.``

Um þetta sagði hæstv. ráðherra að það væri síðan þeirra mat --- ,,okkar mat`` eins og hann sagði --- að meta hvort umboðsmaður Alþingis hefði forsendur fyrir niðurstöðu sinni.

Hæstv. forseti. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar meta málin og framkvæma vilja sinn. Lög má sniðganga og láta óátalið með aðgerðaleysi að lögum sé ekki framfylgt. Lögum er líka framfylgt gagnvart sumum en öðrum ekki, eins og dæmin sanna. Hæstv. dómsmrh. viðurkennir í engu mistök sín og hikar ekki við að verja vafasamar embættisveitingar þótt ríkið geti orðið skaðabótaskylt vegna starfa hans.

Ráðherra er ekki hafinn yfir lög og þar breytir engu hvort hann telur að menn hafi menntun í Evrópurétti og haldi að þeir hafi menntað sig í samkeppnisrétti. Valdhroki ráðherra er mikill, hann virðir ekki þjóð og þing.

Semjum reglur sem falla að vilja mínum. Þannig vill dómsmrh. stjórna og gerir það. Það voru mikil mistök hjá þjóð vorri að kjósa þessa hæstv. ríkisstjórn, sem nú situr við völd, á síðastliðnu vori.