Skipan hæstaréttardómara

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 14:26:03 (7814)

2004-05-11 14:26:03# 130. lþ. 112.96 fundur 550#B skipan hæstaréttardómara# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[14:26]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Mér finnst málið versna jafnt og þétt eftir því sem fleiri reyna að hjálpast að í vörninni fyrir hæstv. dómsmrh. Ég bíð bara eftir því að sjálfur yfirvarnarstjóri, ,,fullback`` Einar K. Guðfinnsson, háttvirtur þingmaður komi í vörnina eins og oft vill bregða við þegar enginn annar fæst til þess. Þegar ríkisstjórnin er ber að fólskuverkum er oft enginn annar maður eftir í salnum sem leggst í vörnina en sá hv. þm. og hann á út af fyrir sig heiður skilinn fyrir þann kjark.

Mér finnst með ólíkindum hvernig reynt er að hreyta ónotum á víxl í umboðsmann Alþingis og jafnvel í Hæstarétt. Það er jafnvel látið að því liggja að Hæstiréttur viti ekkert hvað hann er að gera þegar hann fjallar um hæfi umsækjenda. Það gleymdist hins vegar að hreyta í úrskurðarnefnd kærunefnd jafnréttismála. Ég bendi mönnum á að láta það ekki henda sig að gleyma því að hreyta ónotum í hana líka. Auðvitað eru allir ómögulegir sem gagnrýna embættisfærslu hæstv. dómsmrh. Björns Bjarnasonar og hans nánustu aðstandenda í ríkisstjórninni.

Annars hefði, virðulegi forseti, verið fróðlegt að nota tímann til að ræða hvaða grundvallarbreytingar á að gera á þessu fyrirkomulagi. Það er bersýnilega ómögulegt að hafa þetta svona. Ég tel að tvennt þurfi að gera umfram allt annað til að koma þessum málum í skikkanlegt horf. Setja þarf á laggirnar óháða matsnefnd og reglurnar um hana yrðu þannig að það væri algerlega skýrt á hvaða forsendum beri að úrskurða um hæfi og bera saman umsækjendur. Það þarf að liggja fyrir fyrir fram og auðvitað á það að koma fram í auglýsingu þannig að allir viti að hverju þeir ganga þegar þeir sækja um. Sé ákveðið að styrkja réttinn á tilteknu sviði eða jafna hlut kynjanna ætti það að liggja fyrir.

Síðan á tillaga ráðherra um dómara að hljóta staðfestingu Alþingis. Það verður að gera þá breytingu á til þess að því linni að Hæstiréttur liggi stanslaust undir þessum ófriði sem framganga stjórnvalda hefur búið honum á undanförnum missirum. Það gengur ekki að það sé logandi ófriður um málefni Hæstaréttar eða að menn séu að blanda honum inn í hluti eins og öryrkjamálið forðum og annað í þeim dúr.