Skipan hæstaréttardómara

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 14:30:58 (7816)

2004-05-11 14:30:58# 130. lþ. 112.96 fundur 550#B skipan hæstaréttardómara# (umræður utan dagskrár), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[14:30]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég veit ekki til hvers hv. þm. vísaði, með að ég væri að fara til útlanda. Ég er ekki að fara þangað en ég skal lesa álitið. Ég hef lesið það, kynnt mér það og sagt álit mitt á því. Ég tel hins vegar að ég muni gera það betur. Ég hef fullan hug á því að upplýsa þingheim og aðra um skoðun mína á þessu áliti og gera það á þann veg að það sé líka skiljanlegt fyrir aðra en lögfræðinga. Margt af því sem hér hefur verið sagt finnst mér bera keim af því að menn hafi ekki þá þekkingu sem þarf að hafa til að bera til að skilja hvað í álitinu felst.

Varðandi það sjónarmið sem fram kom hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, um nauðsyn þess að það kæmi fram í auglýsingu eftir hvaða sérþekkingu menn væru að leita þegar auglýst væri eftir hæstaréttardómara, þá tel ég að það sé algert stílbrot þegar litið er til þess hvernig menn hafa auglýst slíkar stöður. Ég tel að auglýsa eigi á þann veg að sem flestir sæki um og ekki eigi að þrengja umsækjendahópinn svo með ströngum kröfum að aðeins fámennur hópur sæki um heldur eigi þetta að vera almenn auglýsing og síðan eigi menn að sjálfsögðu eftir á, á grundvelli stjórnsýslureglna að ráða menn úr hópnum og rökstyðja það málefnalega, eins og ég hef gert í þessu efni.

Hitt er náttúrlega alveg fráleitt að ætla það, eins og ég vék að í máli mínu, að Hæstiréttur muni í svari til dómsmrh. viðurkenna að réttinn skorti sérþekkingu á einhverju sviði lögfræðinnar. Menn gera því skóna að skynsamlegt væri að leggja það á réttinn, fyrir utan það að leggja það á ráðherra eða hvern þann sem um ætti að spyrja, að spyrja réttinn: Er það svo með Hæstarétt að þekkingu skorti á þessu sviði lögfræðinnar innan Hæstaréttar? Hvernig búast menn við því að rétturinn geti brugðist við því á annan hátt en að segja að rétturinn ráði við öll svið lögfræðinnar og þurfi þess vegna ekki að spyrja hann slíkra spurninga. Ég held að rétturinn mundi taka það sem móðgun við sig ef leitað yrði til hans á þeim forsendum og gefið til kynna að ákveðna þekkingu skorti í réttinn.

Hitt er annað mál, að þegar menn taka ákvarðanir um að veita embætti þá þurfa þeir að hafa málefnalegar forsendur fyrir ákvörðunum sínum og það hafði ég í þessu máli.