Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 14:57:19 (7820)

2004-05-11 14:57:19# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, MÞH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[14:57]

Magnús Þór Hafsteinsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, þá er þessi sögulega stund runnin upp þegar búið er að mæla fyrir þessu makalausa frv. ríkisstjórnarinnar sem sumir hafa gengið svo langt að kenna við fasisma. Ég ætla ekki að ganga svo langt í dag, virðulegi forseti, alls ekki. Mér leikur þó hugur á að vita hjá hv. þm. Bjarna Benediktssyni --- og ég vil fá skýr svör og enga útúrsnúninga: Hvernig stendur á því að svona ofboðslega mikið lá á því að mæla fyrir frv. í dag? Af hverju gátum við ekki beðið til haustsins?

Enn og aftur, hv. þingmaður, ég bið um skýr svör og enga útúrsnúninga. Það kemur t.d. greinilega fram í ágætu nefndaráliti minni hluta allshn. sem var verið að dreifa að það er búið að hrauna yfir allt og alla til að reyna að koma þessu á dagskrá í dag. Enn og aftur bið ég um skýr svör: Af hverju lá svona mikið á?