Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 15:00:32 (7823)

2004-05-11 15:00:32# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, Frsm. meiri hluta BjarnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[15:00]

Frsm. meiri hluta allshn. (Bjarni Benediktsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég harma það að eftir framsögu mína þar sem ég fór ítarlega yfir þau sjónarmið sem liggja brtt. nefndarinnar til grundvallar komist þingmaðurinn að þeirri niðurstöðu að hér sé um handvömm að ræða. Ég tel einmitt að í nefndarálitinu sé farið ítarlega og nákvæmlega yfir öll þau atriði sem haft hefur verið á orði að þurfi að koma til skoðunar í tilefni af þessu frumvarpi, hvert og eitt einasta þeirra. Ég hins vegar sakna þess þegar hann kemur hér upp í tilefni af þessu stóra máli að hann skuli ekki með nokkrum hætti tjá sig um eitt einasta efnisatriði málsins. Ég ætla að vona að hann bæti úr því síðar í umræðunni í dag. (Gripið fram í: ... umræður.)