Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 15:05:40 (7829)

2004-05-11 15:05:40# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, Frsm. meiri hluta BjarnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[15:05]

Frsm. meiri hluta allshn. (Bjarni Benediktsson) (andsvar):

Herra forseti. Staðan á íslenska fjölmiðlamarkaðnum er ítrekuð í greinargerð þeirri sem liggur frv. til grundvallar. Þar er m.a. komist að eftirfarandi niðurstöðu, með leyfi forseta:

,,Það er því skoðun nefndarinnar að af framangreindum viðhorfum Evrópuráðsins og almennum viðhorfum um vernd pólitískrar og menningarlegrar fjölbreytni leiði, að það hljóti að teljast afar æskilegt að löggjafinn bregðist við þessu með lagasetningu, einkum þannig að settar verði reglur sem miði að því að hamla gegn óæskilegum áhrifum samþjöppunar...``

Hvað telur þingmaðurinn að hefði verið eðlilegt að bíða í mörg ár eftir því að bregðast við þessum tilmælum nefndarinnar?

Ég tel og ítreka það sem ég sagði áðan að til grundvallar þessu frv. liggur bæði ítarleg greinargerð og vönduð vinna í nefndinni. Það hefur verið kallað eftir öllum þeim sjónarmiðum sem við eiga um þetta mál, þeim hefur verið mætt með brtt. og það er búið að gera grein fyrir þeim í nefndarálitinu. Á málinu þarf að taka og menn þurfa að gera það af alvöru og festu en ekki með því að klóra sér í hausnum og hugsa sig um í mörg ár.