Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 15:08:55 (7832)

2004-05-11 15:08:55# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÁÓÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[15:08]

Ágúst Ólafur Ágústsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að stjórnarmeirihlutinn ætti að fara varlega í að stæra sig af vönduðum vinnubrögðum. Hv. þm. Bjarni Benediktsson er ábyrgur fyrir þeim vinnubrögðum sem voru viðhöfð í allshn. og við erum að gagnrýna þau. Ég get ekki skilið hvernig hv. þm. Bjarni Benediktsson getur séð það sem góð vinnubrögð að gefa umsagnaraðilum tvo daga, afgreiða málið sama dag og sérfræðingar í stjórnskipunarrétti mæta fyrir nefndina o.s.frv. Niðurstaðan verður slæmt mál.

Ég skil það ekki og mig langar að beina spurningu til hv. þm. Bjarna Benediktssonar: Af hverju hafnaði meiri hlutinn, bæði Framsfl. og Sjálfstfl., þeirri ósk stjórnarandstöðunnar að leitað yrði lögfræðiálits hjá óvilhöllum einstaklingum og stofnunum úti í bæ? Af hverju var því hafnað? Hvernig gat það bætt málið að keyra það í gegnum nefndina á einni viku? Núverandi ríkisstjórn hefur fengið dóm eftir dóm í hausinn vegna stjórnarskrárbrota. Það fer að verða svolítið þreytt að vísa í hvert skipti í einkunn Davíðs Oddssonar í lögfræðinni. Það hefur sýnt sig að það er vitagagnslaust. Ég vil fá skýr svör við því hvernig þessar ákvarðanir sem hv. þm., formaður allshn., reynir að réttlæta gátu bætt málið.