Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 15:11:16 (7834)

2004-05-11 15:11:16# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÁÓÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[15:11]

Ágúst Ólafur Ágústsson (andsvar):

Herra forseti. Undantekningarlítið sögðu þeir lögfræðisérfræðingar sem komu fyrir allshn. að þetta frv. færi hugsanlega í bága bæði við stjórnarskrá og EES-samninginn. Meira að segja formaður fjölmiðlanefndarinnar, Davíð Þór Björgvinsson sagði fyrir framan nefndina að þetta frv. gengi lengra en skýrslan sem hann stóð fyrir. Svona endurskoðun tók fjögur á í Noregi, fjögur ár. Hér tökum við í þetta, hvað --- fjórtán daga?

Mig langar að nýta tækifærið í seinni hluta andsvars míns til að spyrja hv. þm. Bjarna Benediktsson: Að hvaða leyti er þetta frv. viðbrögð við fréttaflutningi? Hvernig er hægt að skilja orð hæstv. félmrh.? Hann kemur upp í pontu, veifar blöðum og segir að þetta þurfi að stöðva. Hæstv. forsrh. kemur líka og talar um stríðsfyrirsagnir og bendir á að það nægi að líta á blöðin til að fá sannanir fyrir því að svona frv. þurfi. Að hvaða leyti tengist þetta tilgangi þessa frv.? Spyr sá sem ekki veit.