Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 15:16:50 (7837)

2004-05-11 15:16:50# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, Frsm. minni hluta BH
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[15:16]

Frsm. minni hluta allshn. (Bryndís Hlöðversdóttir):

Virðulegur forseti. Það vekur óneitanlega athygli mína að sá sem mælti fyrir frv. við 1. umr., hæstv. forsrh., er ekki viðstaddur og óska ég eftir því við hæstv. forseta að hann kalli eftir því að hæstv. forsrh. verði viðstaddur umræðuna. Ég tel að hann hefði gott af því að hlýða á þá umræðu sem hér fer fram.

(Forseti (GÁS): Forseti mun þegar beita sér fyrir því að hæstv. forsrh. fái að vita af þeirri ósk að viðveru hans sé óskað.)

Takk fyrir.

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hluta hv. allshn. en að áliti þessu standa auk mín hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson og Sigurjón Þórðarson. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir er áheyrnarfulltrúi í nefndinni og er hún samþykk þessu nefndaráliti.

Minni hlutinn leggur fram þá tillögu að málinu verði vísað frá eins og nánar verður greint frá síðar. Rökstyður minni hluti þá niðurstöðu sína með því að bæði efni og formi þessa frv. sé svo ábótavant að málið sé ótækt til afgreiðslu í þinginu. Það hefur fengið ótrúlega flýtimeðferð og ég vil í upphafi máls míns lýsa yfir vanþóknun minni á þeim vinnubrögðum sem meiri hluti beitti í hv. allshn. Því miður hefur hæstv. forseti Alþingis ekki þann metnað til að bera fyrir hönd hins háa Alþingis að hann sjái ástæðu til þess að stöðva þann yfirgang sem meiri hlutinn hefur sýnt í þessu máli, yfirgang sem bitnar ekki aðeins á þinginu heldur á þjóðinni allri og þeim fjölmörgu aðilum sem eiga hlut að máli, hvort sem við erum þar að fjalla um fjölmiðlafyrirtækin sjálf eða þau mörgu hundruð starfsmanna sem búa við óvissu varðandi framtíð sína og störf sín.

Við meðferð hv. allshn. komu fram athugasemdir sem fela í sér alvarleg álitamál um það hvort frv. standist stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og var þar einkum vísað til mannréttindaákvæða, atvinnufrelsis, tjáningarfrelsis, eignarréttarákvæðisins og jafnræðisreglu. Frv. felur í sér alvarlega íhlutun í fjölmiðlamarkaðinn. Það gengur mun lengra en nauðsynlegt er í lýðræðissamfélagi og brýtur því í bága við meðalhófsreglu íslenskra laga. Frv. gæti reynst samkeppnishamlandi í stað þess að tryggja samkeppni og dregið er úr aðgengi fjölmiðlafyrirtækja að fjármagni og nýrra aðila að markaðnum. Frv. virðist beint gegn einni tiltekinni sjónvarpsstöð þrátt fyrir að orðalag þess sé klætt í almennan búning.

Minni hlutinn gerir auk þeirra efnisatriða sem hér hafa verið nefnd alvarlegar athugasemdir við meðferð málsins en þar hefur ekki verið litið til skuldbindinga Íslands samkvæmt EES-samningnum, einkum reglna um staðfesturétt, þjónustufrelsi, fjármagnsflutninga og reglna um lögfræðilega vissu og bann við afturvirkni. Ekki hefur verið tekið tillit til mannréttindasáttmála Evrópu eða samnings SÞ um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Ekki hefur verið gefið svigrúm fyrir efh.- og viðskn. Alþingis og menntmn. til að ljúka athugun sinni á málinu samkvæmt beiðni allshn. og ekki hefur verið gefinn nægilegur tími fyrir umsagnaraðila til að senda nefndinni umsagnir um málið. Engin heildarskoðun hefur farið fram á heildarumhverfi fjölmiðlunar og dreifingu sjónvarps- og útvarpsefnis eða áhrifum frv. á rekstrarumhverfi starfandi fjölmiðla. Ekkert mat hefur farið fram á því hvort og þá hvernig frv. getur náð uppgefnu markmiði sínu, þ.e. að auka fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði. Sterk rök hafa komið fram um hið öndverða, þ.e. verði það að lögum muni draga úr fjármagni til innlendrar dagskrárgerðar sem getur haft neikvæð áhrif á íslenska menningu og fjölbreytni í fjölmiðlum.

Ekki hefur komið fram nægilegur rökstuðningur um nauðsyn þess að breyta lögum í þá veru sem frv. gerir ráð fyrir þrátt fyrir að ljóst sé að það muni hafa í för með sér verulega íþyngjandi áhrif á fyrirtæki og einstaklinga. Ekki hefur gefist tóm til að ræða efni og áhrif brtt. sem meiri hlutinn lagði fram eða verið gefinn kostur á að leita umsagna um þær. Örskammur umsagnarfrestur og óhófleg áhersla meiri hlutans á flýtimeðferð málsins í nefndinni hefur falið í sér óvirðingu gagnvart þingi og þjóð og komið í veg fyrir lýðræðislega umræðu í þjóðfélaginu.

Breytingartillögur sem lagðar hafa verið fram af hálfu meiri hluta allshn. eyða ekki þeirri óvissu sem ríkir um fram komin álitamál.

Hæstv. forseti. Ég vil víkja nokkrum orðum að málsmeðferðinni. Hinn 19. desember sl. skipaði hæstv. menntamálaráðherra nefnd til að kanna hvort tilefni væri til að setja sérstaka löggjöf um eignarhald á fjölmiðlum. Nefndin skyldi skila ráðherra skýrslu 1. mars 2004 en skýrslugerðin dróst fram í apríl enda kom í ljós að málið var gríðarlega umfangsmikið. Skýrslu nefndarinnar var beðið með nokkurri eftirvæntingu en þegar hún var tilbúin í byrjun apríl var hún ekki gerð opinber --- ég vek athygli á því að við erum að fjalla um umhverfi fjölmiðla, sjálft tjáningarfrelsið --- og henni var haldið leyndri fyrir Alþingi í tvær vikur. Skýrslan var fyrst gerð opinber samhliða því að forsætisráðherra lagði fram frumvarp til laga um breytingu á útvarpslögum og samkeppnislögum þann 28. apríl sl.

Strax á þessu stigi málsins gera meiri hlutinn og ríkisstjórnin alvarleg mistök í málsmeðferðinni. Í stað þess að gefa kost á því að skýrsla fjölmiðlanefndarinnar og þær fjölmörgu tillögur sem þar eru reifaðar fengju ítarlega umfjöllun í samfélaginu kaus ríkisstjórnin að leggja fram tilbúið frv. samhliða skýrslunni. Öll athygli hefur síðan beinst að því óvandaða frv. sem ríkisstjórnin hafði með fljótaskrift samið í stað þess að skoða aðra kosti sem fjölmiðlanefndin leggur til og ríkisstjórnin til að mynda kýs að gera ekki að umtalsefni í frv. Ég vek athygli á því, virðulegi forseti, af því að hv. formaður allshn., hv. þm. Bjarni Benediktsson, vísar ætíð í skýrslu fjölmiðlanefndarinnar til rökstuðnings frv. að ekki er hægt að rökstyðja efni frv. að öllu leyti með þeirri skýrslu, einfaldlega vegna þess að ríkisstjórnin kýs að taka einn tiltekinn punkt út úr skýrslu fjölmiðlanefndarinnar og fara með hann eins og henni sýnist. Það er óhæfa, virðulegur forseti, af ríkisstjórninni að nota síðan rökstuðning fjölmiðlanefndarinnar, sem leggur fram fjölmargar og breytilegar tillögur á sitt borð, fyrir þeim óskapnaði sem þetta frv. er.

Ég ítreka líka það sem kom fram í máli höfunda fjölmiðlanefndarinnar sjálfrar þegar þeir komu fyrir nefndina. Þeir lýstu því yfir að þeir hefðu talið eðlilegt að skýrslan hefði fengið meiri umfjöllun áður en frv. var birt og byggt á henni. Þeir lýstu því líka yfir sem hafði verið haldið fram í umræðunni að frv. gengi lengra en skýrslan í ýmsum efnum. Ég ítreka það, virðulegur forseti, að ríkisstjórnin verður að gjöra svo vel að rökstyðja þetta frv. með sínum orðum í greinargerð. Það hefur henni ekki tekist og hafa komið fram alvarlegar athugasemdir um þann þátt, m.a. hjá prófessorum í stjórnskipunarrétti.

Fyrsta umræða um málið fór fram í þinginu þann 3. maí og var málinu vísað til allshn. daginn eftir. Samkvæmt venju var málið sent til umsagnar fjölmargra aðila en frestur var nánast enginn. Svo mikið lá á, virðulegur forseti, og enn hafa ekki komið fram svör við því af hverju þessi ósköp hafi legið á. Hvað er það annað en mannorð ríkisstjórnarinnar sem kallar á að þetta frv. fái ekki meira pláss í umræðunni í þjóðfélaginu í dag? Það er ekkert annað, virðulegi forseti. Ríkisstjórnin gerir sér fulla grein fyrir því að frv. þolir ekki dagsljós umræðunnar deginum lengur. Það skal klárast hér og afgreitt á sem allra mestum hraða.

Umsagnaraðilum voru gefnir tæpir tveir sólarhringar til að gefa umsögn, virðulegur forseti. Þetta er dónaskapur við fólk sem er beðið um að koma og tjá sig um jafnviðamikið frv. Þótt það feli ekki í sér mörg ákvæði er það viðamikið og hefur mikil áhrif. Þetta er dónaskapur,virðulegur forseti.

Nefndinni bárust um 30 umsagnir og erindi um málið en fram kom í mörgum þeirra að umsagnaraðilar töldu sig ekki geta tekið efnislega afstöðu til þess með svo skömmum fyrirvara, og láir þeim enginn, málið er flókið og skýrsla fjölmiðlanefndarinnar sem fylgdi frv. er ein og sér 100 síður sem sífellt er verið að vísa í í umræðunni.

Nefndin kallaði fyrir sig fjölmarga sérfræðinga og hagsmunaaðila til að ræða efni frv. Vöruðu þeir nánast allir við því, virðulegur forseti --- ég ítreka þetta og það er nokkuð sem hv. þm. og formaður allshn., Bjarni Benediktsson, verður að horfast í augu við og er skjalfest í gögnum nefndarinnar --- sérfræðingarnir á sviði lögfræði, að Alþingi lögfesti frv. Flestir umsagnaraðilar töldu verulegar líkur á að þetta bryti í bága við stjórnarskrá lýðveldisins, grundvallarreglur EES-samningsins og þjóðréttarskuldbindingar Íslands, m.a. ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu um tjáningarfrelsi.

Virðulegur forseti. Það var einmitt af þessum sökum, af þessu gefna tilefni, sem minni hlutinn í nefndinni fór fram á það, formlega, að aflað yrði lögfræðilegra álitsgerða frá Lagastofnun Háskóla Íslands og Evrópuréttarstofnun Háskólans í Reykjavík til að hægt yrði að fá hlutlægt mat á þær alvarlegu athugasemdir sem fram voru komnar. Hæstv. forseti. Hver og einn einasti nefndarmaður í meiri hlutanum, allir með tölu, hv. þm. meiri hlutans í allshn., hafnaði því að ástæða væri til að leita álits þessara óvilhöllu aðila. Síðan var málið keyrt áfram með hraði þrátt fyrir þau varnaðarorð sem fjölmargir sérfræðingar í stjórnskipunarrétti og Evrópurétti höfðu uppi.

Virðulegur forseti. Með fullri virðingu fyrir lögfræðikunnáttu þeirra hv. þm. meiri hlutans sem sitja í allshn. þingsins er það algjör vanvirða við stjórnarskrá lýðveldisins og við þann eiðstaf sem þingmenn hafa unnið gagnvart stjórnarskránni að svona alvarlegar athugasemdir skuli koma fram frá nánast öllum þeim sérfróðu á sviði stjórnskipunarréttar sem komu fyrir nefndina og meiri hlutinn ákveði í einhvers konar hálfkæringi að hann einn viti best, hann skuli bara leggja mat á þetta sjálfur. Þetta gengur ekki, virðulegur forseti, og ég minnist þess ekki áður að hafa fylgst með meðferð frv. í þinginu sem hefur fengið jafnmargar athugasemdir og alvarlegar athugasemdir um að það brjóti hugsanlega gegn stjórnarskrá og ekki einu sinni sé leitað eftir áliti óvilhallra aðila þar um. Ég fordæmi þessi vinnubrögð, virðulegur forseti.

Nefndin fékk síðan eina viku, eða vart eina viku, til að fara yfir málið og ég kalla enn og aftur eftir ástæðunni fyrir þessum mikla flýti. Þau einu rök sem ég hef heyrt hv. stjórnarliða hafa í frammi eru þau að með þessu sé verið að sýna starfsmönnum Norðurljósa og fyrirtækinu sjálfu tillitssemi, best sé að þetta gangi í gegn sem fyrst þannig að menn viti rétt sinn.

Ég vil vekja athygli á því, virðulegur forseti, að nú hefur verið gert ráð fyrir því að gildistaka frv. sé ekki fyrr en eftir tvö ár og ég hlýt að spyrja enn: Hver eru rökin fyrir því að keyra þetta mál áfram? Starfsmenn Norðurljósa hafa ekki kallað eftir þessu frv. Þeir hafa ekki kallað eftir þeirri flýtimeðferð sem hér er höfð á málinu og ekki heldur forsvarsmenn fyrirtækisins. Það er fyrirsláttur af hálfu ríkisstjórnarinnar að nefna þetta til sögunnar.

Það er líka einsdæmi að mínu mati í sögu þessa þings, virðulegur forseti, að fagnefnd vísi máli til annarrar nefndar til umsagnar en liggi svo mikið á að klára málið frá nefndinni að ekki reynist hægt að bíða eftir áliti þessara nefnda. Enn er staðan sú að tvær nefndir þingsins eru formlega með málið á dagskrá sinni, efh.- og viðskn. og menntmn. Ég verð að segja, virðulegur forseti, að ég held að slík vinnubrögð hljóti að vera einsdæmi í sögu Alþingis og ef eitthvað hefði mátt vera, virðulegi forseti, hefði kannski verið eðlilegt að t.d. samgn. þingsins, sem á að sjá um fjarskiptamál á Alþingi, hefði líka fengið málið til umsagnar. Fram komu fjölmörg álitaefni sem varða fjarskiptamarkaðinn sem ekki er tekið tillit til í frv.

[15:30]

Virðulegi forseti. Eitt af því sem minni hlutinn nefnir til sögunnar og telur neikvætt í þessu frv. er hversu sértækt gildissvið þess er. Íslenskur markaður er mjög lítill sem hefur í för með sér ákveðnar takmarkanir fyrir rekstrarumhverfi fyrirtækjanna í landinu. Rekstrarafkoma fyrirtækja í fjölmiðlum hefur með örfáum undantekningum verið óviðunandi, hvort sem litið er til ljósvakamiðla eða prentmiðla. Til að unnt sé að framleiða innlent dagskrárefni og halda uppi öflugum fréttaflutningi er fjölmiðlum nauðsynlegt að hafa trausta fjárhagslega bakhjarla. Hingað til hafa þeir ekki verið á hverju strái. Verði frv. að lögum er hætta á að aðgangur fjölmiðlafyrirtækja að fjármagni verði takmarkaður verulega.

Hæstv. forseti. Ég óska eftir því, enda tel ég það algert lágmark fyrir þessa umræðu, að hv. formaður allshn. sé til svara og til að hlusta á þær umræður sem hér fara fram. Ég vek athygli á því að enn hefur hæstv. forsrh. ekki birst í salnum og reyndar virðist enginn hæstv. ráðherra sjá ástæðu til að sitja hér og hlýða á þessar umræður. Er það til vitnis um það á hvern hátt meiri hlutinn lítur á umræðuna og málið sem hér er verið að ræða?

(Forseti (GÁS): Forseti vill upplýsa að þegar hefur verið komið boðum til hæstv. forsrh. hvað varðar beiðni hv. þm. Einnig vill hann geta þess að tveir hæstv. ráðherrar eru í húsinu þ.e. hæstv. menntmrh. og hæstv. viðskrh. Er óskað eftir viðveru þeirra á fundinum?)

Virðulegi forseti. Ég óska eftir, eins og ég hef áður gert, að hæstv. forsrh. sé hér og fylgist með þessari umræðu. Ég þakka fyrir að forseti hafi kallað eftir nærveru hans en ég óska líka eftir því, virðulegi forseti, að formaður hv. allshn. sitji hér og hlýði á umræðurnar, annars er mjög erfitt að eiga við hann rökræðu um málið. Ég sé að hann er kominn í salinn. Ég tel það grundvöll þess að við getum tekist málefnalega á um þetta mál.

Í tengslum við vinnslu frv. hefur ríkisstjórnin ekki látið fara fram skoðun á samkeppnisumhverfi íslenskra fjölmiðlafyrirtækja. Ekkert hefur verið fjallað um stóra hluta sjónvarpsmarkaðarins, svo sem útsendingar um breiðband, gegnum tölvur, ljósleiðara, gervihnetti og fleira. Þessi tækni er í mjög örri þróun og mun hafa veruleg áhrif á dreifingu sjónvarpsefnis í framtíðinni. Eins og staðan er í dag er ekki skortur á leiðum til að dreifa sjónvarpsefni á Íslandi. Hins vegar er takmörkuð framleiðsla á slíku efni í landinu. Ég hlýt að spyrja hv. formann allshn. hvers vegna ekki hafi verið litið til þess þáttar frv. og hvort meiri hlutinn hafi virkilega engar áhyggjur af þeirri þróun. Er það virkilega eðlilegt að taka fyrir lítinn hluta, sem er ljósvakamarkaðurinn, en horfa fram hjá þeirri tækniþróun sem á sér stað á þessu sviði og taka á engan hátt tillit til þess í frv.? Þetta er verulega stór ágalli á frv., reyndar einn af fjölmörgum, hæstv. forseti.

Áður hefur verið nefnt að þetta frv. virðist klæðskerasaumað utan um eitt fyrirtæki á markaðnum. Þrátt fyrir að frv. sé almennt orðað er ljóst að efnisákvæðum þess er eingöngu beint að einum aðila, Norðurljósum hf. Þetta hlýtur að orka tvímælis, ekki síst í ljósi þess að í umræðum um málið hefur ítrekað komið fram að markmið ríkisstjórnarinnar með lagasetningunni er ekki að setja almennar reglur um takmarkanir á eignarhaldi á fjölmiðlum heldur að koma böndum á eignarhald tiltekinna aðila á ljósvakamarkaðinum og stöðva umræðu í fjölmiðlum sem m.a. fól í sér gagnrýni á ríkisstjórnina. Þetta mátti hvað gleggst sjá við umræðu um skýrslu fjölmiðlanefndarinnar þegar hæstv. félmrh. veifaði tilteknu blaði og lýsti yfir andúð sinni á fréttaflutningi þess. Ekki var hægt að skilja orð hans öðruvísi en svo að það væri krafa hans að svona fréttaflutning ætti að stöðva.

Sama má segja um ósmekkleg ummæli hæstv. dómsmrh. sem kallar þá fjölmiðla, sem þetta frv. einhverra hluta vegna nær einnig til, aldrei annað en Baugstíðindi. Það felur í sér ótrúlega vanþóknun á þeim hundruðum starfsmanna sem hjá þessum fjölmiðlum starfa, virðulegur forseti. Eru þá ónefnd fjölmörg ummæli hæstv. forsrh. um fréttaflutning sömu miðla.

Virðulegur forseti. Hver sem hæstv. ríkisstjórn segir að séu markmiðin í þessu frv. og hvað sem hv. formaður allshn. segir um þau markmið, sem að hans mati eru göfug, þá vill svo til að í skugga áðurnefndra ummæla er þetta frv. lagt fram, í skugga ummæla ráðherra og aðdraganda málsins. Hjá því verður ekki vikist við meðferð þessa máls að skoða þennan aðdraganda, virðulegur forseti. Svona markmið felur einfaldlega í sér kröfur um ritskoðun af hálfu stjórnvalda sem samrýmist engan veginn lýðræðislegum stjórnarháttum á seinni tímum, virðulegi forseti.

Það hefur mikið verið fjallað um tilmæli Evrópuráðsins í þessari umræðu. Það vekur athygli í greinargerð með frv., í skýrslu fjölmiðlanefndarinnar og áliti meiri hluta allshn., að ofuráhersla er skyndilega lögð á tilmæli Evrópuráðsins. Í þessu tiltekna tilviki tilmæli ráðsins frá 1999, um fjölbreytni í fjölmiðlun. Tilmæli ráðherranefndar Evrópuráðsins eru ágætur grunnur til upplýstrar umræðu um framtíðarskipulag fjölmiðlamarkaðarins á Íslandi en þau eru ekki skuldbindandi að þjóðarrétti sem slík þótt stjórnvöldum sé falið að taka tilhlýðilegt tillit til þeirra.

Í samþykktum Evrópuráðsins felast leiðbeiningar til aðildarríkja ráðsins um það hvernig tryggja megi fjölbreytni í fjölmiðlun. Það er hins vegar misskilningur sem fram hefur komið, hvað eftir annað í máli fjölmargra stjórnarliða, að með tilmælum Evrópuráðsins takist íslenska ríkið á hendur þjóðréttarlegar skuldbindingar. Tilmæli Evrópuráðsins um fjölmiðla eru hluti af heildstæðu ferli sem hefur staðið yfir hjá Evrópuráðinu í meira en áratug og m.a. leitt af sér fjölmargar ábendingar um það á hvern hátt megi tryggja gagnsæi, fjölbreytni og sjálfstæði í fjölmiðlun. Þessa þróun hafa íslensk stjórnvöld látið sig engu varða hingað til. Það hljómar því óneitanlega hjákátlega, hæstv. forseti, að heyra ráðherra skyndilega tjá sig um þjóðréttarlegar skyldur í þessu sambandi.

Í grein sem Páll Þórhallsson, lögfræðingur í fjölmiðladeild Evrópuráðsins, skrifaði í Morgunblaðið 2. maí síðastliðnum kemur fram gagnrýni á túlkun ríkisstjórnarinnar á tilmælum Evrópuráðsins. Þar vekur hann athygli á vissum annmörkum á íslenskum fjölmiðlamarkaði sem lúta einkum að því að Ríkisútvarpið sé enn ekki nógu sjálfstætt og stýring og eftirlit með handhöfum útvarpsleyfa sé í lágmarki. Af þessu hefur hæstv. ríkisstjórn, hvorki Framsfl., að því er virðist, né Sjálfstfl., ekki nokkrar einustu áhyggjur þrátt fyrir tilmæli Evrópuráðsins.

Sjálfstfl. finnst allt í lagi, væntanlega þá Framsfl. líka sem er yfirleitt sammála Sjálfstfl., að hjá þeim fjölmiðli sem þeim hefur verið treyst fyrir, Ríkisútvarpinu, standi í brúnni tómir sjálfstæðismenn. Það er allt í lagi að útvarpsstjóri sé sjálfstæðismaður, virkur í pólitík til margra ára. Það er allt í lagi að formaður útvarpsráðs sé sjálfstæðismaður. Það er allt í lagi að formaður útvarpsréttarnefndar sé jafnframt framkvæmdastjóri Sjálfstfl. Ég hlýt að spyrja ríkisstjórnina og hv. formann allshn., úr því að hæstv. forsrh. sér sér ekki fært að vera viðstaddur þessa umræðu: Hefur Sjálfstfl. og ríkisstjórnin engar áhyggjur af sjálfstæði starfsmanna hjá Ríkisútvarpinu fyrst málum er þannig háttað þar á bæ?

Virðulegur forseti. Hvar eru okkar þjóðréttarlegu skuldbindingar gagnvart Evrópuráðinu þegar kemur að sjálfstæðu Ríkisútvarpi, þar sem pólitískt útvarpsráð fjallar enn um umsóknir fréttamanna um tilteknar stöður. Það þykir ekki góð latína hjá Evrópuráðinu, a.m.k. ekki að mati Páls Þórhallssonar. Ég hlýt að spyrja, virðulegur forseti: Hvar eru áhyggjur sjálfstæðismanna af þessum þætti málsins? Ég ítreka að í skýrslu fjölmiðlanefndarinnar, sem er orðin biblía ríkisstjórnarinnar í þessum málum, er lögð á það áhersla númer eitt, tvö og þrjú, að efla Ríkisútvarpið og gera m.a. sjálfstætt frá stjórnvöldum, eins og Evrópuráðið hefur lagt til í tilmælum sínum.

Ég sný mér þá aftur að grein Páls Þórhallssonar. Hann segir í grein sinni, virðulegur forseti --- hér talar sérfræðingur á sviði tilmæla Evrópuráðsins um fjölmiðla --- að samþjöppun eignarhalds veki athygli en mæti samt skilningi enda þurfi verulega fjármuni til að reka alhliða sjónvarpsstöð. Tekið er undir það sjónarmið, í grein Páls Þórhallssonar, að þegar ríkið herðir mjög skilyrði fyrir útgáfu útvarpsleyfa verði að rökstyðja hvers vegna aðrar og vægari leiðir hafa ekki verið færar til að ná sömu markmiðum. Það hefur ríkisstjórninni ekki tekist að rökstyðja, virðulegi forseti.

Sem dæmi um vægari úrræði sem grípa mætti til má nefna að beita má ákvæðum gildandi samkeppnislaga eins og Samkeppnisstofnun og fleiri hafa bent á hjá hv. allshn. Eins kemur til álita að gera breytingar á þeim lögum til að gera þau að virkara tæki í þessu skyni ef þau duga ekki eins og þau líta út í dag. Þetta er ekki skoðað, virðulegur forseti, en væri þó óneitanlega mildara úrræði sem að einhverju leyti mundi ná því markmiði að auka fjölbreytni í eignarhaldi í fjölmiðlun og koma í veg fyrir fákeppni og samþjöppun á þeim markaði.

Ástæða er til að vekja athygli á því að frv. tekur á engan hátt á því að tryggja gagnsæi í eignarhaldi eða stuðla að ritstjórnarlegu sjálfstæði. Það er þó brýnt úrlausnarefni sem Evrópuráðið hefur haft til umfjöllunar miklu lengur en þær tillögur sem hæstv. ríkisstjórn byggir á. Þær eru reyndar líka nefndar til sögunnar sem mikilvæg forsenda fyrir fjölbreytni í fjölmiðlun í tilmælum Evrópuráðsins frá árinu 1999.

Virðulegur forseti. Það hefur mikið verið vikið að stjórnarskrá lýðveldisins Íslands í tengslum við umræðu um þetta mál í hv. allshn. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að ég undrast hve mikill kuldi er í meiri hlutanum gagnvart því að afgreiða málið með þessum hætti, án þess að fá álit óvilhallra aðila, sérstaklega í ljósi þess að þeir ágætu nefndarmenn sem í allshn. sitja eru í miklum meiri hluta lögfræðilega menntaðir. Þeir ættu því fremur að gera sér grein fyrir því hversu mikið getur verið í húfi og hve alvarlegt mál getur verið á ferðinni ef þær athugasemdir eru réttar sem hafa komið fram á fundum nefndarinnar.

Fjölmargir sérfræðingar í stjórnskipunarrétti komu fyrir nefndina og bentu á að efni frv. væri sértækt, íþyngjandi og afturvirkt. Þeir töldu að það mundi væntanlega brjóta fjölmörg ákvæði mannréttindakafla stjórnarskrárinnar ef það yrði að lögum. Í umsögnum kom fram að efni frv. væri andstætt meðalhófsreglu, þ.e. að ekki skuli gengið lengra í að skerða stjórnarskrárvarin réttindi með lagasetningu en nauðsynlegt er til að ná lögmætu markmiði. Minni hlutinn bendir á að markmið frv. sé þar að auki mjög óljóst og ekki verði ráðið af greinargerð með frv. hvað fyrir löggjafanum vakir með lagasetningunni. Þetta er atriði, virðulegur forseti, sem prófessor í stjórnskipunarrétti við Háskóla Íslands, Björg Thorarensen, vakti athygli á hjá hv. allshn. Það var reyndar á sama tíma og meiri hlutinn sat með breytingartillögur og nefndarálit í vösum sínum, nánast tilbúin til dreifingar.

Björg Thorarensen og fleiri sérfræðingar í stjórnskipunarrétti voru fengin til að leggja mat á frv. án þess að fyrir þeim væru kynntar þær breytingartillögur sem meiri hlutinn hafði í vasanum. Þetta eru ólíðandi vinnubrögð og ekki boðlegt við þá gesti sem koma fyrir nefndina og eru, virðulegur forseti, að eyða í það dýrmætum tíma sínum til að gefa sérfræðileg álit um jafnviðamikið efni og stjórnarskrá Íslands er gagnvart löggjöf. Björg Thorarensen sagði á þessum tíma að það væri ekki nægilega skýrt í rökstuðningi í greinargerð með frv., í fyrsta lagi hvað fyrir löggjafanum hefði vakað með þessari lagasetningu og í öðru lagi hvers vegna sú leið hafi verið farin sem lögð er til í frv. Þetta taldi hún ekki nægilega rökstutt og þetta sagði hún að mundi koma til skoðunar hjá Hæstarétti ef málið færi þangað, yrði því stefnt þangað fyrir brot á stjórnarskrá eða ríkisstjórninni öllu heldur.

Virðulegur forseti. Það er sama hvað hv. þm. og formaður allshn., Bjarni Benediktsson, segir um álit þeirra fjölmörgu sérfræðinga sem tjáðu sig um þetta frv. fyrir nefndinni. Enginn þeirra treysti sér til að fullyrða að frv. stæðist stjórnarskrá, virðulegur forseti. Ég bið hv. þm. Bjarna Benediktsson um að leiðrétta það og nefna mér einn sem treystir sér til að fullyrða að frv. standist stjórnarskrá. Ég fullyrði að ekki einn einasti sérfræðingur á sviði stjórnskipunarréttar hefur gert það. Davíð Þór Björgvinsson, formaður fjölmiðlanefndarinnar, gekk líklega hvað lengst í því þar sem hann sagði að hann teldi að þetta mundi standast. Aðspurður treysti hann sér ekki til að fullyrða það.

Þetta er, virðulegur forseti, frekar slappur undirbúningur að máli þegar ríkisstjórnin og hv. meiri hluti nefndarinnar treystir sér ekki til að fá álit óvilhallra aðila á borð við Lagastofnun Háskóla Íslands og Evrópuréttarstofnun Háskólans í Reykjavík til þess að skera úr um jafnalvarlegar athugasemdir og komið hafa fram um brot á stjórnarskrá og EES-rétti. Álitaefnin sem snúa að stjórnarskránni varða jafnræðisreglu, vernd eignarréttar, atvinnufrelsi, tjáningarfrelsi, afturvirkni og einnig meðalhófsreglu.

[15:45]

Ég ítreka enn og aftur að minni hlutinn margfór fram á að um þetta væri leitað álits óvilhallra aðila en því var hafnað. Mér finnst slík málsmeðferð fela í sér fullkomið skeytingarleysi gagnvart grundvallarlögum íslenska ríkisins, með fullri virðingu fyrir lögfræðikunnáttu þeirra hv. þingmanna sem sitja í allshn. af hálfu meiri hlutans. Um svona mál á að leita óháðra lögfræðilegra álita. Það er vítavert kæruleysi, virðulegi forseti, af meiri hlutanum í allshn. að afgreiða málið án þess að slíks álits sé leitað. Það er vítavert kæruleysi og algerlega óviðunandi sem undirbúningur slíkrar löggjafar.

Þá er það EES-rétturinn, virðulegi forseti. Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið var lögfestur hér á landi með lögum nr. 2/1993. Af skýrslu fjölmiðlanefndar er ljóst að ekki var rannsakað hvort tillögur sem lagðar eru til í skýrslunni samrýmast ákvæðum EES-samningsins. Formaður nefndarinnar hefur opinberlega lýst því yfir að nefndinni hafi ekki unnist tími til að kanna EES-réttinn.

Virðulegur forseti. Ég tel að þarna sé mjög alvarlegt mál á ferðinni. Það eru nánast afglöp af hálfu nefndarinnar að skoða ekki þennan þátt til þrautar. Í ljósi þess að nefndin hefur væntanlega litið svo á að hér væri einungis um að ræða grundvöll að umræðu um málið, sem skýrslan átti að vera, verður að segjast að afglöpin hljóta að teljast á ábyrgð ríkisstjórnarinnar sem treystir sér til að leggja frv. fram í þessum búningi án þess að fá óháð álit á þeim rökstuddu fullyrðingum sem hafa komið fram hjá sérfræðingum á sviði Evrópuréttar um að frv. feli í sér brot á reglum EES um staðfesturétt, þjónustufrelsi, frjálsa fjármagnsflutninga, lögfræðilega vissu og afturvirkni. Enn og aftur hafnaði meiri hlutinn því að fá álit Evrópuréttarstofnunar Háskólans í Reykjavík og Lagastofnunar Háskóla Íslands um þetta álitaefni.

Í þessu sambandi vísa ég, virðulegur forseti, til þess að við fengum stutta greinargerð frá forstöðumanni Evrópuréttarstofnunar Háskólans í Reykjavík sem kom jafnframt fyrir nefndina og lýsti því yfir að verulegar líkur væru á því að frv. bryti gegn þessum reglum. Sama hefur Stefán Geir Þórisson lögmaður, sérfræðingur á sviði Evrópuréttar, sagt í umfjöllun sinni um málið.

Vér einir vitum, virðulegur forseti. Meiri hlutinn telur sig þess umkominn að geta lagt mat á þetta án þess að fá til þess frekara sérfræðiálit. Þeir kunna þetta allt saman eins og við vitum.

Komið hafa fram fjölmargar athugasemdir varðandi samkeppnislögin. Að mati Samkeppnisstofnunar, sem lagði fram umsögn um þetta mál sem liggur frammi sem fylgiskjal ásamt fleiri umsögnum með nefndaráliti minni hlutans, felst í frv. að verulegar hömlur séu settar á eignahaldi og viðskiptafrelsi á fjölmiðlamarkaði. Stofnunin telur að einstök ákvæði frumvarpsins séu samkeppnishamlandi og fari í bága við markmið samkeppnislaga. Stofnunin telur að ekki verði annað séð en frumvarpið takmarki mjög aðgang nýrra keppinauta að markaðnum. Einnig megi færa fyrir því rök að í því felist óhæfilegar hindranir og takmarkanir á frelsi í atvinnurekstri.

Stofnunin bendir jafnframt á að frumvarpið vinni gegn markmiði samkeppnislaga þar sem það hindri að nýir aðilar hefji útvarps- og sjónvarpsrekstur og dragi úr fjölbreytni í fjölmiðlum hér á landi.

Samkeppnisstofnun telur að markmiðinu megi ná með vægari úrræðum svo sem með því að beita gildandi samkeppnislögum eða gera á þeim nauðsynlegar úrbætur til að vinna gegn óhæfilegri samþjöppun eða misnotkun á markaðsráðandi stöðu.

Virðulegur forseti. Meiri hlutinn sá enga ástæðu til að skoða betur þær alvarlegu athugasemdir sem fram komu af hálfu Samkeppnisstofnunar en þar á bæ ættu að vera saman komnir okkar helstu sérfræðingar á sviði samkeppnisréttar. Þetta veit meiri hlutinn að sjálfsögðu betur og þarf ekki að leggja undir mat sömu stofnunar þær brtt. sem hann kýs að leggja fram á þessu frv. Til þess gafst ekki tími, virðulegur forseti, því það lá svo óskaplega mikið á.

Virðulegur forseti. Minni hlutinn tekur undir þær áhyggjur sem koma fram í umsögn Samkeppnisstofnunar og telur að ekki hafi verið tekin af öll tvímæli um það í vinnu nefndarinnar að frumvarpið vinni gegn markmiðinu um fjölbreytni og muni í raun leiða til aukinnar fábreytni.

Virðulegur forseti. Í ljósi alls framangreinds leggur minni hlutinn til að frumvarpinu verði vísað frá með svofelldri rökstuddri dagskrá:

,,Með vísan til framangreinds samþykkir Alþingi að vísa málinu frá og taka fyrir næsta mál á dagskrá.``

Undir álit þetta rita auk mín, hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson og Sigurjón Þórðarson.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir er áheyrnarfulltrúi í nefndinni og er hún samþykk áliti þessu.