Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 15:54:17 (7839)

2004-05-11 15:54:17# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, Frsm. minni hluta BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[15:54]

Frsm. minni hluta allshn. (Bryndís Hlöðversdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég spurði hv. þm. að því hvaða sérfræðingar hefðu treyst sér til að fullyrða að frv. stæðist stjórnarskrá. Það var ekki einn slíkur sérfræðingur sem kom fyrir nefndina sem treysti sér til að fullyrða það.

Ég sagði hins vegar áðan að þeir voru ansi margir, virðulegi forseti, og það veit hv. þm. Bjarni Benediktsson, sem treystu sér til þess og bentu á að mjög veruleg og alvarleg álitamál væru uppi í frv. um ýmis atriði er snúa að stjórnarskránni. Auk þess töldu fjölmargir mjög mörg álitaefni uppi og að öllum líkindum bryti frv. í bága við EES-reglur. Hvað í tillögum meiri hluta nefndarinnar kemur til móts við gagnrýnina á að frv. feli í sér brot á EES-reglum og ummæli fjölmargra sérfræðinga sem tjáðu sig um það?

Virðulegi forseti. Ég kalla það lítilsvirðingu við gesti sem koma fyrir nefndina þegar þeir eru kallaðir til, sérfræðingar úr háskólum okkar, sérfræðingar á sviði stjórnskipunarréttar, til þess að fjalla um frv. meðan meiri hlutinn er með brtt. tilbúnar í vasanum, þrátt fyrir að þær hafi tekið einhverjum breytingum, vegna þess að þær voru settar fram fyrir okkur beint í kjölfarið á fundi með þessum ágætu prófessorum. (BjarnB: Eftir hlé.)

Virðulegi forseti. Eigi að síður hefði, að mínu mati, verið meiri kurteisi að spyrja þá ágætu prófessora og sérfræðinga hvort það mundi skipta einhverju máli að tilteknar breytingar væru gerðar. Nei, það skyldi komið í veg fyrir lýðræðislega umræðu um þessar brtt. enda þola þær ekki dagsljósið frekar en frv. að öðru leyti.