Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 16:03:56 (7844)

2004-05-11 16:03:56# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SKK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[16:03]

Sigurður Kári Kristjánsson (andsvar):

Frú forseti. Það var sem mig grunaði, þessi málflutningur allur byggir á upphaflega frv. Hv. þm. skautar hins vegar léttilega fram hjá þeim brtt. sem gerðar hafa verið við frv. Þeirri spurningu er enn þá ósvarað hvernig í ósköpunum sé hægt að halda því fram að tjáningarfrelsið sé skert þegar hverjum einasta einstaklingi og hverjum einasta lögaðila í landinu verður á grundvelli þessa frv. heimilað að reka og eiga dagblað og að eiga hlut í ljósvakamiðli, hversu stór sem hann nú er. Það liggur fyrir að þessir aðilar, hver einn og einasti, geta átt og rekið fjölmiðil og komið sjónarmiðum sínum þar á framfæri.

Það var líka annað athyglisvert í ræðu hv. þingmanns. Hv. þm. kaus að skauta algjörlega fram hjá þeim brtt. sem meiri hluti allshn. leggur til. (MÁ: ... gamla ...) Það væri gaman að fá að vita hvaða afstöðu hv. þm. og formælandi minni hlutans í allshn. tekur efnislega til þeirra. Er hv. þm. t.d. á móti því að markaðsráðandi fyrirtæki fái að fjárfesta í ljósvakamiðlum? Er hv. þm. á móti því að útvarpsleyfi Bylgjunnar, sem annars að óbreyttu hefði runnið út um næstu áramót, verði framlengt um eitt og hálft ár? Er hv. þm. yfir höfuð á móti öllum þeim brtt. sem meiri hluti allshn. leggur til við frv.?

Það væri gott að fá svar við þessum spurningum, frú forseti, vegna þess að það var algjörlega skautað fram hjá þeim í ræðu hv. þingmanns þegar hún gerði grein fyrir áliti minni hluta allshn. (MÁ: Þær skipta engu máli.)