Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 16:05:55 (7845)

2004-05-11 16:05:55# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, Frsm. minni hluta BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[16:05]

Frsm. minni hluta allshn. (Bryndís Hlöðversdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. verður að hlusta á þær ræður sem hann er að fara í andsvar við. (SKK: Hann gerir það.) Ég gerði grein fyrir því í máli mínu að þær brtt. sem hér hafa verið lagðar fram breyttu í engu eða mundu ekki draga úr þeim álitaefnum sem væru uppi varðandi mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar og EES-reglur sem hafa komið fram við meðferð málsins. Ég rökstuddi það líka áðan í andsvari við hv. þingmann þar sem ég gerði að umtalsefni sérstaklega brtt. um 5% sem mér finnst vera hreint út sagt hlægileg. Ég tel hana ekki breyta neinu um það að hér er gengið mun lengra en ástæða er til til þess að setja hömlur á tjáningarfrelsið.

Virðulegur forseti. Það er ekki rétt að ég hafi ekki tekið hér afstöðu til þessara brtt., ég hef lýst henni og ég hef sérstaklega vakið á því athygli að þær brtt. sem hér er verið að leggja fram eru ekkert betur rökstuddar en frv. sem lá upprunalega fyrir, frv. sem er ekki hægt að kalla neitt annað en hrákasmíð með fullri virðingu fyrir virðulegum forseta. Hið sama má segja um þessar tilögur.

Hvaðan, virðulegur forseti, fær meiri hlutinn þá hugmynd að miða við 5%? Þeir hafa sennilega fallist á að 0% væri óhóflegt og stæðist ekki tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar, eða hvað? Af hverju er farið upp í 5%? Hvaðan fá hv. þm. meiri hlutans fordæmi fyrir slíkri reglu? Hvaða rök eru fyrir henni? Af hverju ekki 7%, af hverju ekki 3%? Þessu hefur hv. meiri hlutinn ekki svarað og það er hann sem á að rökstyðja frv. og brtt. sem hér liggja fyrir. Það er ekki hlutverk okkar í minni hlutanum að rökstyðja það bull og þá vitleysu sem hefur komið frá meiri hlutanum í tengslum við þetta mál.