Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 16:11:07 (7847)

2004-05-11 16:11:07# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, BjörgvS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[16:11]

Björgvin G. Sigurðsson (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tek undir kröfu hv. þm. Marðar Árnasonar. Það er algjörlega ómögulegt að halda áfram nokkurri vitrænni eða boðlegri umræðu um frv. forsrh. um eignarhald á fjölmiðlum án þess að hv. menntmn. hafi komið saman og farið ítarlega og af vandvirkni mikilli yfir málið. Hún verður að fá að gaumgæfa það eins og hennar er von og vísa og nokkur kostur er á og skila svo inn því áliti sem hv. allshn. Alþingis óskaði eftir að kæmi frá menntmn. þingsins um þetta umrædda frv. forsrh. um eignarhald á fjölmiðlum.

Virðulegi forseti. Það er algjörlega útilokað að hv. þingheimur geti sætt sig við það að fram haldi 2. umr. um þetta mál sem lýtur að grundvallarstoðum lýðræðisríkisins lýðveldisins Íslands án þess að menntmn. þingsins hafi komið saman, rætt ítarlega um málið, kallað þá gesti á sinn fund sem hv. nefndin telur að þurfi að koma á hennar fund til að hún geti skilað því vandvirknislega áliti sem metnaður hennar stendur til að skila inn um málið. Því hlýt ég að gera þá kröfu, virðulegi forseti, að þingfundi verði frestað þegar í stað og nefndinni gefinn kostur á að vinna að áliti sínu. Án þess að það álit liggi fyrir getur 2. umr. um þetta frv. hæstv. forsrh. um eignarhald á fjölmiðlum ekki haldið áfram.

Það blasir við öllum þenkjandi mönnum, öllum upplýstum mönnum sem vilja gera vel og skila því frv. út í einhverri boðlegri mynd að það er ekki hægt að Alþingi haldi áfram umræðu um málið í dag án þess að menntmn. Alþingis hafi komið saman, unnið sína vinnu, skilað áliti sínu og komið með þá mikilvægu nálgun í þessa umræðu sem lýtur að áhrifum frv. á menningarlega þætti, á íslenska menningu og miðlun, á alla þá þætti fjölmiðlunar á Íslandi sem lúta að menningunni, sem eru stórbrotnir. Ef svo fer fram sem horfir að ... (Gripið fram í.)

Hæstv. forseti. Ég fer fram á að þingfundi verði frestað þar til menntmn. hefur komið saman þannig að hún geti gert grein fyrir því hvaða áhrif þetta sértæka frv., þetta áhlaup á Norðurljós, hafi á íslenska fjölmiðla og íslenska menningu nái það fram að ganga. Því ítreka ég þá ósk okkar hv. þm. Marðar Árnasonar, virðulegi forseti, að hlé verði gert á þingfundi nú þegar og þinghald haldi ekki áfram hér í fundarsal hv. Alþingis án þess að menntmn. hafi unnið sína vinnu og skilað nefndaráliti sínu. Þetta er grundvallarkrafa, hæstv. forseti, og ég krefst þess að við henni verði orðið.