Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 16:19:30 (7850)

2004-05-11 16:19:30# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÖS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[16:19]

Össur Skarphéðinsson (um fundarstjórn):

Frú forseti. Til að hjálpa hæstv. forseta til að komast að niðurstöðu í málinu, vegna þess að ég veit að hún vill gera það sem hún getur til þess að sanngirni og réttlæti varðandi aðbúnað og möguleika þingmanna til að rannsaka málið nái fram að ganga, verð ég að rifja það upp að þegar málið kom fram spunnust heiftarlegar umræður um málsmeðferð. Hæstv. forsrh. hjó á þann hnút sem þá var bundinn á málið af hv. þingmönnum stjórnarliðsins með því að lofa að málið fengi þann tíma sem þyrfti og hann lofaði sérstaklega að hv. menntmn. fengi tóm til að rannsaka það.

Á að svíkja þetta loforð? Mér þykir það skipta ákaflega miklu máli að stjórnarliðið efni það sem það sagði við hið háa Alþingi um möguleikana til þess að ræða málið til þrautar.

Af því er kom síðan fram í máli hv. þm. Arnbjargar Sveinsdóttur um málsmeðferðina milli allshn. og efh.- og viðskn. verður það að koma fram að allshn. óskaði eftir umsögn efh.- og viðskn. með bréfi. Það er kannski til marks um vinnubrögðin hjá stjórnarliðum í allshn. að það tók bréfið þrjá daga að komast frá allshn. til efh.- og viðskn. Við fengum bréfið þremur dögum eftir að það var dagsett. Efh.- og viðskn. fékk þess vegna þremur dögum skemur til umfjöllunar en ætlað var, sökum mistaka, væntanlega hjá allshn. sem formaður allshn., hv. þm. Bjarni Benediktsson, er þá ábyrgur fyrir.

Mér finnst að við eigum, sé fyllstu sanngirni gætt, inni þrjá daga hjá allshn. til að ljúka þessu.

Ég ætla þó ekki, frú forseti, að gera kröfu um að málsmeðferðinni verði frestað um þrjá daga. Ég held hins vegar að það sé ekki órýmileg eða ósanngjörn krafa af minni hálfu sem þingmanns stjórnarandstöðu í efh.- og viðskn. að fara fram á það að við fáum a.m.k. tóm til þess að ljúka umfjöllun um málið. Það eru veigamiklar gloppur í ýmsum hugmyndum varðandi tæknilega útfærslu af hálfu stjórnarliðsins að okkar mati. Er til of mikils mælst að óska eftir því að við fáum ráðrúm til að ljúka umfjölluninni og tala við þá fulltrúa sem búið var að boða til fundarins? Mér finnst það ekki og óska þess vegna eftir að frú forseti geri hlé á þessum fundi og ræði við formenn þingflokka til þess að komast að niðurstöðu um það hvort við eigum að fá þennan rétt okkar uppfylltan.