Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 16:26:42 (7853)

2004-05-11 16:26:42# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, JÁ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[16:26]

Jóhann Ársælsson (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ef óskað er eftir því að fundi sé frestað, eins og hér er búið að koma fram, á það auðvitað við undir liðnum um fundarstjórn forseta. Hvernig menn rökstyðja það þegar þeir fara fram á slíkt er undir hverjum og einum komið. Það er tilgangslítið fyrir aðra þingmenn að vera með einhverjar vangaveltur yfir því hvort sá rökstuðningur eigi nákvæmlega við sem til þess er notaður.

Mér finnst hins vegar sá rökstuðningur sem hér hefur verið settur fram eiga fullkomlega við. Það er búið að koma fram í þessari umræðu í dag og umræðum um fundarstjórn forseta hvers konar undirbúningur hefur verið fyrir þetta mál sem hér liggur fyrir og hvað það vantar mikið upp á að hér hafi verið sinnt almennilega því sem þingið á að gera. Nefndir hafa ekki lokið störfum. Verkefnum sem nefndum hafa verið fólgin hefur ekki verið lokið og kannski ætti þessi umræða að standa um það hvort ætti ekki bara að hætta umræðum um þetta mál, hreinlega, og hefja að nýju vinnu í nefndum.

Það kom t.d. til umræðu í samgn. þingsins hvers vegna hún hefði ekki fengið það verkefni að fara yfir þetta mál sem svo sannarlega heyrir undir hennar verksvið líka. Hér var samgrh. einn af aðalræðumönnum við 1. umr. málsins, einmitt vegna þess.

Þetta er eitt af því sem hægt er að benda á og segir sitt um það hvernig menn hafa unnið að þessu máli. Hér hefði auðvitað þurft að taka það til langrar umræðu og leyfa því að liggja á milli þinga til þess að menn gætu áttað sig á því hvað væri skynsamlegt að gera í þessum hlutum.

Menn hafa sagt frá því að í fjögur ár hefur staðið yfir umræða í Noregi um að breyta reglum sem þar eru. Fréttir komu af því í dag að ekki yrði af þeim breytingum þetta árið. Tíminn hefur ekki dugað þeim til þess að klára málið með þeim hætti sem þeir telja að þurfi að gera.

Hér ætla menn hins vegar að renna sér í gegnum málið og koma með einhverjar lítils háttar brtt., sem menn hafa ekki einu sinni lagst almennilega yfir og vita því ekki hvernig virka, og síðan standa hér yfir umræður um það hvort nefndir, sem hafa fengið það verkefni að gefa álit á þessu, fái að klára að skila áliti. Önnur nefndin a.m.k. fékk ekki einu sinni til þess þann tíma sem til þess var ætlaður vegna þess að bréf sem átti að fara til hennar um að taka þetta verkefni upp misfórst.

Ég segi, hæstv. forseti, það er fullkomlega ástæða til þess að menn fresti fundi og gefi mönnum tækifæri til að vinna betur að verkefninu.