Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 16:40:29 (7859)

2004-05-11 16:40:29# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, KolH
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[16:40]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Frú forseti. Við ræðum hér nefndarálit sem liggja fyrir um frv. til laga um breytingu á útvarpslögum, nr. 53/2000, og á samkeppnislögum, nr. 8/1993.

Hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir var frsm. minnihlutaálits allshn. og gerði skilmerkilega grein fyrir þeim meginsjónarmiðum sem í því áliti felast. Ég sem áheyrnarfulltrúi í allshn. er samþykk því nál. sem hv. þm. talaði fyrir.

Það er ljóst hvert sjónarmið minni hluta allshn. í þessu máli er. Það kemur fram í niðurstöðu og niðurlagi álitsins á þskj. 1629. Þar kemur fram tillaga að rökstuddri dagskrá þar sem óskað er eftir því að málinu verði vísað frá og tekið fyrir næsta mál á dagskrá. Þessi niðurstaða minni hluta allshn. kemur í kjölfarið á þeirri athugun sem fram hefur farið síðustu daga í allshn. við afar óviðunandi aðstæður, verður að segja. Hér er á ferðinni, eins og margoft hefur komið fram, viðamikið, viðkvæmt og umfangsmikið mál en síðast og ekki síst afar spennandi mál. Um er að ræða mál sem gengur út á það hvort setja eigi einhvers konar reglur um störf fjölmiðla á Íslandi. Það er bara ekkert minna sem liggur undir.

Hver er aðdragandi málsins? Ef við reifum aðeins það sem gerst hefur í vetur má rifja það upp að um miðjan nóvember í vetur svaraði hæstv. forsrh. í fyrirspurnatíma spurningum frá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur. Hann fór þá allt í einu mikinn um stöðuna á fjölmiðlamarkaði á Íslandi og hafði þá þau sjónarmið uppi að vissulega bæri að skoða þá stöðu með tilliti til ýmissa þátta og lýsti sig reiðubúinn til þess að gera það.

Í kjölfar umræðu sem spannst síðan í fjölmiðlum og í samfélaginu af þessu svari hæstv. forsrh. í nóvember mátti strax sjá að mikill áhugi var hjá fólki um að umræða um stöðuna hjá fjölmiðlafyrirtækjum færi fram. Nokkrir þingmenn tóku sig saman og fluttu þingmál, á þskj. 485. Það er till. til þál. um könnun á starfsumgjörð fjölmiðla. Þá tillögu fluttu þingmenn úr flestum stjórnmálaflokkunum. Það voru hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, Drífa Hjartardóttir, Guðjón Arnar Kristjánsson, Hjálmar Árnason og Steingrímur J. Sigfússon. Sú tillaga gerði ráð fyrir því að Alþingi kysi nefnd sem yrði skipuð fulltrúum allra þingflokka. Sú nefnd átti að fá það verkefni að kanna starfsskilyrði fjölmiðla, skoða hræringar á fjölmiðlamarkaði, skoða hvert stefndi og huga m.a. að því hvort þörf væri á lagasetningu eða aðgerðum til að treysta stöðu sjálfstæðs og fjölbreytts fjölmiðlareksturs hér á landi. Tillagan var ítarlega rökstudd. Hún var í nokkuð mörgum liðum og sett fram í þeirri trú að ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn á Alþingi hefði í alvöru áhuga á að fagleg umræða og vinna færi af stað á þessu sviði.

En hver varð svo raunin? Skömmu eftir að þessi þáltill. kom fram var tilkynnt um það í fjölmiðlum að menntmrh. hefði einhliða ákveðið að skipa nefnd sem ætti að fara ofan í þessi mál, kanna stöðuna á fjölmiðlamarkaði og þá sérstaklega með tilliti til eignarhalds á fjölmiðlum og það hvort samþjöppunin væri orðin svo mikil að ekki mætti við una.

[16:45]

Í þeirri ákvörðun hæstv. menntmrh. var auðvitað fólgin ákveðin lítilsvirðing í garð þeirra þingmanna sem staðið höfðu að þeirri þáltill. sem ég nefndi í upphafi máls míns. Hvers vegna? Jú, vegna þess að vilji þingsins er ekki alltaf sá sami og vilji framkvæmdarvaldsins. Þetta tel ég hafa verið freklegt frammígrip framkvæmdarvaldsins við fram komna tillögu sem er samin og flutt af breiðum hópi þingmanna úr flestum stjórnmálaflokkum þannig að strax bara á því sást að gerræðislegir tilburðir ríkisstjórnarinnar yrðu hafðir uppi í þessu máli.

Eitt af því sem ríkisstjórnin eða öllu heldur hæstv. menntmrh. horfði fram hjá var sá eðlilegi vilji þeirra þingmanna sem flutt höfðu þáltill. til að hafa samráð, vítt samráð, við þessa skoðun. Að sjálfsögðu fór hæstv. ráðherra ekki út í það að kjósa nefnd sem yrði skipuð fulltrúum þingflokkanna, nei, og ekki heldur fulltrúum Blaðamannafélagsins eða fulltrúum samtaka fjölmiðlanna. Nei, nei. Nefndin var einhliða skipuð af hæstv. menntmrh. að eigin geðþótta og einstaklingar valdir í hana án nokkurs rökstuðnings eða án þess að séð væri hvaða faglegu sjónarmið lægju þar til grundvallar. Hæstv. menntmrh. fór því ekki, því miður, í þá hugmyndafræði sem lá að baki tillögu þingmannanna.

Síðan var skýrslan gerð og unnið var að henni undir mikilli tímapressu. Nú verð ég að taka það fram, virðulegi forseti, að ég kasta ekki rýrð á það fólk sem vann að gerð þeirrar skýrslu sem nú liggur fyrir, nefndina sem menntmrh. skipaði, þó svo að ég gagnrýni að ekki hafi verið valinn til hennar breiðari hópur og að ekki hafi verið ákveðið í upphafi málsins að nefndin hefði samráð við það fólk sem starfar á markaði, við fagfélag eins og Blaðamannafélagið og þá mögulega fulltrúa þingflokkanna til þess að sem breiðust sjónarmið gætu komið að gerð skýrslunnar. Greinargerð nefndarinnar um eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi var sem sagt birt, eða henni skilað, 2. apríl 2004 og hún vakti strax talsverða athygli. Það hafði frést í fjölmiðlum einhverjum dögum áður, jafnvel einhverjum vikum áður, að nú væri nefndin að leggja lokahönd á vinnu sína. Eftirvæntingar gætti meðal fólks sem áhuga hafði á málinu að fá að heyra eða sjá það sem nefndin legði til, afrakstur vinnunnar sem farið var í.

Jú, viti menn. Í apríl fregnast það að greinargerðin sé komin til ríkisstjórnarinnar. Öllum verður mjög mál að fá að sjá hana en ekkert gerist. Greinargerðinni er haldið leyndri fyrir fjölmiðlum, þingmönnum, almenningi og þjóðinni. Henni er haldið leyndri, henni er ekki hleypt út í umræðuna. Hvers vegna í ósköpunum?

Jú, það kom í ljós nokkrum dögum síðar. Hæstv. forsrh. hafði ákveðið að skýrslan færi ekki í umræðu fyrr en hann væri tilbúinn með frv. sem hann gæti sagt að væri byggt á niðurstöðum nefndarinnar, byggði á eða tengdist þeim að einhverju leyti. Á endanum, fyrst tæpum þremur vikum eftir að skýrslan kom fram, er hún gerð opinber með viðhengi sem á ættir sínar að rekja til forsrn. Í viðhenginu var frv. hæstv. forsrh. sem við nú erum búin að vera að vinna með undanfarna daga í allshn.

Hvað þýðir þetta, frú forseti? Þetta þýddi að hæstv. forsrh. setti af ásetningi lok og girðingar á alla umræðu. Hann hefti umræðuna um málið, á Alþingi jafnt sem úti í samfélaginu. Eru þetta vinnubrögð til fyrirmyndar? Ég svara því neitandi. Þetta eru forkastanleg vinnubrögð og til skammar af hæstv. forsrh. að koma svona fram.

Hver var ásetningur hans í þessu máli? Hvers vegna vildi hæstv. forsrh. ekki heimila frjálsa og opna umræðu um skýrsluna sem mögulega hefði getað leitt til þess að á endanum, í fyllingu tímans, hefði kristallast út úr umræðunni frv. eða hugmynd að frv. eða reglum sem hefði verið hægt að segja að væru lýðræðislegar, lýðræðislega orðnar til, hefðu átt sér eðlilegan aðdraganda, eðlilega fæðingu þar sem allir hefðu getað komist að með sjónarmið sín. Nei, hæstv. forsrh. kýs að fara ekki þá leið. Hann hafnar lýðræðinu nákvæmlega eins og hv. allshn. gerði í umfjöllun sinni og hann setur greinargerð nefndarinnar fram með þessu viðhengi sínu til þess beinlínis að hefta umræðuna, einskorða hana við það sem hann vildi að yrði rætt.

Ég lýsi hér vanþóknun minni á þessu háttalagi hæstv. forsrh. sem hefur síðan litað öll störf nefndarinnar, illu heilli.

Hvers vegna er málið, eins og ég sagði í upphafi máls míns, yfirgripsmikið, flókið, viðkvæmt og spennandi? Jú, það er t.d. vegna þess að fjölmiðlar eru, eins og alþjóð veit, ein meginstoð opins samfélags og lýðræðislegrar stjórnskipunar. Það er bara ekkert öðruvísi. Fjölmiðlar hafa gífurlega mikilvægu hlutverki að gegna í samfélagi okkar til þess að tryggja m.a. málfrelsi og skoðanafrelsi sem við eigum að búa við samkvæmt stjórnarskrá okkar. Það er á þeirra ábyrgð meira eða minna að skoðanafrelsið sé til staðar og að lýðræðisleg umræða um menn og málefni fari fram í samfélaginu.

Það hefur verið mál manna í gegnum tíðina, sérstaklega á seinni árum, að huga þurfi að ákveðnum þáttum á fjölmiðlamarkaði okkar. Frá 1986, þegar einkareknar ljósvakastöðvar fóru af stað, hefur fólk haft áhuga á því sem er að gerast á fjölmiðlamarkaði og þar hefur gjarnan kveðið við sú krafa að gæta þurfi fjölbreytni, ekki bara fjölbreytni í tónlistarstöðvum, ekki bara það að við höfum eina rokkstöð sem heitir Skonrokk og eina barnastöð sem heitir Latibær og eina klassíska stöð sem heitir Klassík, heldur miklu frekar að það gæti fjölbreytni í umræðu um þjóðmálin. Að hluta til er þessi krafa fólks í landinu komin til vegna þess að það var farið að gæta ákveðinnar einsleitni. Á seinni árum hefur farið að gæta ákveðinnar einsleitni á fjölmiðlamarkaði, t.d. eftir að flokksblöðin, dagblöðin sem flokkarnir ráku í sínu nafni og í sínu umboði, voru lögð af. Ákveðin samþjöppunareinkenni tóku að gera vart við sig á þessum markaði mjög fljótlega, við skulum segja að í upphafi tíunda áratugarins hafi þessi krafa verið orðin nokkuð almenn og fólk farið að hafa ýmis viðvörunarmerki á lofti hvað þetta varðar.

Slík umræða átti sér ekki bara stað hér á Íslandi heldur átti hún sér líka sannarlega stað í nágrannalöndum okkar og það er þekkt úr þessari umræðu að Evrópuráðið hefur samþykkt tilmæli til aðildarþjóða sinna um það að þjóðir leiti leiða til þess að fjölbreytni sé gætt í fjölmiðlum. Í þeim tilmælum og í þeirri umræðu sem átt hefur sér stað í þjóðfélagi okkar um þessi mál erum við ekki að einskorða kröfuna um fjölbreytni við eignarhald, sannarlega ekki. Þar þurfum við líka að ræða hluti eins og hvort fjölbreytni sé gætt í dagskrárframboði og í skoðunum, þ.e. að stjórnmálaskoðanir af öllu tagi fái aðgang að ljósvakanum og dagblöðunum, aðgang að fjölmiðlunum. Það þarf að ræða í þessu tilliti nýja tækni, nýja miðla. Við þurfum að ræða um veraldarvefinn sem er orðinn einn alstærsti og öflugasti fjölmiðillinn. Við þurfum að ræða um gervihnattasjónvarpið, kapalsjónvarpið, ljósleiðarann og möguleika hans, samtengingu lokaðra kerfa, um opin kerfi og lokuð og allt sem lýtur að þeirri nýju tækni og þeim möguleikum tækninnar sem eru til staðar á fjölmiðlamarkaði.

Síðan þurfum við að skoða aðferðir og aðgerðir sem geta tryggt sjálfstæði ritstjórna á fjölmiðlum. Það er afar mikilvægt atriði í þessari umræðu um fjölbreytnina. Það verður auðvitað að tryggja að þótt stöðvar séu orðnar meira eða minna einkareknar og kannski dagblöð einkarekin verður að vera einhver trygging fyrir því að ritstjórar og ritstjórnir njóti sjálfstæðis og geti verið trúverðugar gagnvart almenningi, að það sé ekki liðið að eigendur beiti beinlínis eigendavaldi sínu til þess að stýra ritstjórnunum sínum. Þetta eru atriði sem þarf að ræða í þessu sambandi.

Sömuleiðis þarf að ræða fjölmiðlarannsóknir. Það er afar spennandi viðfangsefni sem lítið hefur komið upp í umræðunni á síðustu dögum enda fljótaskriftin slík að ekki hefur gefist ráðrúm til að fara út í það viðamikla verkefni að ræða fjölmiðlarannsóknir, en þær eru lykillinn að því að við vitum hvar við stöndum í þessum efnum.

Eitt af því sem ég mundi vilja nefna varðandi vísindarannsóknirnar er að það liggja afar bágbornar upplýsingar fyrir um fjölmiðlamarkað okkar, fáar og einsleitar rannsóknir hafa farið fram á honum. Við höfum einhverja statistík sem er mjög gott að hafa og við getum byggt ákveðinn þátt umræðunnar á en vissulega væri gott að hafa í þessari umræðu dýpri vísindarannsóknir til að styðjast við.

Þegar fjölbreytnin er annars vegar er rekstur opinbers fjölmiðils líka eitt af því sem þarf að ræða. Við búum við það á Íslandi, ég vil segja til allrar hamingju, að hafa öflugt Ríkisútvarp en við þurfum að skoða á hvaða hátt það getur haft áhrif á aðrar stöðvar á markaði, bæði hvernig samspil milli Ríkisútvarps og annarra stöðva og samspil Ríkisútvarps og t.d. dagblaðanna á að vera eða getur verið og hvernig það kemur inn á fjölbreytnina. Svo getum við líka nefnt almennt í þessu sambandi opinberan stuðning við fjölmiðla.

Allir þeir þættir sem ég nú hef nefnt eiga að koma til álita þegar fjölbreytni í fjölmiðlun er annars vegar. Fæstir af þeim þáttum sem ég hef nefnt hafa komið upp á yfirborðið svo nokkru nemi í umræðum sem farið hafa fram á borði allshn. síðustu daga. Þar hafa menn verið í blóðspreng við að afgreiða mál með þvílíku hraði að varla hefur gefist tóm til að hugsa. Matur hefur verið borinn í nefndina þannig að ekki hefur hún þjáðst af vannæringu eða næringarskorti en það hefur verið sáralítið rúm til þess að nefndin viðraði sig, viðraði sjónarmið sín, fengi að takast á um þau ólíku sjónarmið sem upp hafa komið. Satt að segja saknaði ég þess gífurlega að málið fengi nokkru sinni byr í vængina í umfjöllun nefndarinnar. Það gerði það svo sannarlega ekki.

Tilfinning mín var sú að það væri kannski ekki af illum hug formanns allshn., hv. þm. Bjarna Benediktssonar, heldur væri það miklu frekar helgað af þeirri staðreynd að hann stjórnaði ekki för. Honum var stjórnað að ofan. Maður hafði það oft á tilfinningunni að hann væri barinn áfram af vilja framkvæmdarvaldsins og að vilji hæstv. forsrh. stýrði gjörðum hv. þm., formanns nefndarinnar, meðan hann var að reyna að komast í gegnum þetta viðamikla verkefni. Enda fórst honum þetta mál ekki vel úr hendi, það verður að segjast eins og er.

Í þeim ræðum sem hér hafa verið haldnar hefur komið fram nú þegar að tæplega 80 aðilar voru beðnir um að senda allshn. umsögn um málið. Það er athyglisvert þegar þetta er skoðað í því ljósi sem hefur verið varpað á málið í gær og í dag að menn höfðu aðeins kannski tæpa tvo sólarhringa til þess að gefa umsögn. Sumum barst ekki beiðnin um umsögnina fyrr en daginn sem umsagnarfresturinn rann út. Það er athyglisvert í þessu sambandi að einungis milli 20 og 30 af þessum 80 sem beðnir voru um umsögn sendu á endanum inn umsögn.

[17:00]

Ég held að ég geti fullyrt að allir þeir sem sendu nefndinni umsögn hafi borið sig illa undan þessum skamma fresti. Þeir tóku það meira og minna allir fram í umsögnum sínum að þeir vildu gjarnan gefa faglega og vandaða umsögn um málið en væri gert það ókleift af allshn. sjálfri, sem gæfi þeim ekki ráðrúm til þess að setja sjónarmið sín á blað með þeim hætti sem fólk gæti sætt sig við.

Til hvers ætlaðist hv. allshn. þegar hún gaf umsagnaraðilum einungis 36 tíma frest til þess að skila inn umsögnum í svona viðamiklu máli? Ætlaðist nefndin til þess að menn köstuðu frá sér öllum þeim verkefnum sem þeir voru staddir í, sama hvort um háskólaprófessora var að ræða, forstjóra fjölmiðlafyrirtækja, útvarpsstjóra, lögfræðinga, hæstaréttarlögmenn og fleiri mætti nefna? Ætlaðist nefndin til að öllu yrði kastað til hliðar fyrir þá umfjöllun sem menn voru í blóðspreng við að afgreiða? Ætlaðist hún í alvöru til þess að fá vandaðar umsagnir á svo skömmum tíma?

Í mínum huga, frú forseti, getur það varla verið. Það sér hver heilvita maður að það er óframkvæmanlegt verk. Umsagnaraðilum var gert fullkomlega ókleift að vanda til verka í þeim umsögnum sem óskað var eftir. Það eitt og sér er til vansa og beinlínis niðurlægjandi fyrir hv. alþingismenn, sem reyna að vinna störf sín af kostgæfni eða þykjast a.m.k. yfirleitt gera það. Hv. stjórnarþingmenn hafa haft um það fögur orð að hér hafi verið faglega að verki staðið. Ég hef mótmælt því. Ég verð að segja að þeir setja umsagnaraðila úti í bæ í vonlausa stöðu. Það er ábyrgðarhluti af þingnefnd að gera slíkt. Þessa virðast menn ekki iðrast. Enginn þeirra skammast sín fyrir að hafa komið fólki um allan bæ í þá ómögulegu stöðu sem við í allshn. komum umsagnaraðilum í.

Það er þyngra en tárum taki, frú forseti, þegar gestir koma á fundi þingnefnda og hafa ekki fengið möguleika á að verða við þeirri ósk sem borin er fram. Þeir hafa verið settir í slíka spennitreyju að það er gjörsamlega ómögulegt fyrir fólk að verða við þeirri ósk sem borin var fram. Halda hv. þm. í þessum sal að fólk láti sér þetta í léttu rúmi liggja? Auðvitað ekki. Fólki líður illa yfir því að vera sett í slíka stöðu. Margir af þeim umsagnaraðilum sem settu þó eitthvað niður á blað gerðu það af veikum mætti en sögðu ævinlega, annaðhvort í upphafi umsagnar eða niðurlagi, að þeir hefðu gjarnan viljað standa faglegar að málum en þeim var gert kleift af nefndinni.

Það mætti kannski vitna til nokkurra umsagna. Ég greip af handahófi, frú forseti, umsagnir úr möppu allshn. sem er nokkuð þung og viðamikil. Hún er mikil að vöxtum. Ég hefði gaman af því að bera niður í umsögn sem okkur barst frá Rafiðnaðarsambandi Íslands, undirritaðri af formanni þess, Guðmundi Gunnarssyni. Þar kemur fram að formaðurinn hafi fengið bréf frá allshn. með beiðni um umsögn um málið og það eigi að skila umsögninni eigi síðar en 7. maí, þ.e. degi eftir að hann fær þetta bréf frá nefndinni. Hann situr þarna með beiðni um umsögn og hann fær einn dag til að gefa þá umsögn. Um hvað erum við að biðja um að umsögn verði gefin? Um bók upp á 116 blaðsíður, heila bók, sem þetta frv. er ásamt greinargerðinni, 116 blaðsíður. Formaður Rafiðnaðarsambandsins segir í bréfi sínu að um sé að ræða athyglisvert mál sem skoða þurfi vel og taka á því af yfirvegun. Hann rökstyður það með þeim orðum að við búum í fámennu málsamfélagi, séum lítil þjóð og tryggja þurfi málfrelsi og tjáningarfrelsi. Hann fjallar um að rökin sem stjórnvöld hafi helst sett fram virðast beinast að því að óþægilegar greinar og málflutningur hafi birst í þeim fjölmiðlum sem frv. virðist beint gegn. Hann hafnar því að vera dreginn í lið með eða á móti forsrh. eða með eða á móti Baugi. Hann segir í athugasemd sinni, frú forseti, að þessi skoðun þurfi að fara fram að vel athuguðu máli og það gildi ekki síst um endurskoðun á pólitísku valdi á Ríkisútvarpinu. Margir umsagnaraðilar nefndu það einmitt. Hann segir síðan, með leyfi forseta:

,,Rafiðnaðarsambandið getur ekki liðið að offors stjórnvalda setji atvinnu og heimili fjölda félagsmanna okkar í upplausnarstöðu.``

Ástæðan fyrir því að ég vitna í umsögn Rafiðnaðarsambandsins er að ég vil sýna hvernig fólki líður þegar það fær svo skamman frest að það getur ekki með nokkru móti orðið við því að veita umsögn. Guðmundur Gunnarsson segir síðan orðrétt, með leyfi forseta, í þessari umsögn:

,,Það er á grundvelli þessarar ályktunar og sjónarmiða sambandstjórnar RSÍ, að ég mun ekki taka þátt í því að skella saman einhverri umsögn, sem svo gæti hæglega ekki verið nægilega vel ígrunduð. Rafiðnaðarmenn vilja eins og áður hefur komið fram, yfirvegaða umræðu um þetta mál og við erum tilbúnir til þess að taka þátt í þeirri umræðu. Þó ég sé formaður Rafiðnaðarsambandsins, þá hef ég t.d. enga möguleika að setja fram umsögn um þessa 116 síðna bók í nafni RSÍ, til þess þarf ég að kalla saman miðstjórn sambandsins. Sú ályktun sem send var frá sambandinu um þetta mál var afgreidd af 40 manna sambandstjórnarfundi. Sama gildir um aðrar ályktanir eða umsagnir sem við sendum frá okkur, þær fá félagslega afgreiðslu.``

Hverju er verið að lýsa, frú forseti? Það er verið að lýsa lýðræðislegri málsmeðferð í félagasamtökum eins og Rafiðnaðarsamband Íslands er. Lýðræðislegri málsmeðferð. Það er eðlilegt að formaður Rafiðnaðarsambandsins útlisti fyrir okkur að formaður þeirra stóru samtaka geti ekki bara á borðshorninu sínu hripað niður nokkur orð um 116 síðna bók til allshn. og kallað umsögn Rafiðnaðarsambandsins. Auðvitað getur hann það ekki. Rafiðnaðarsambandið viðhefur lýðræðisleg vinnubrögð en það virðist framkvæmdarvaldinu, hæstv. ríkisstjórn Íslands, fyrirmunað að skilja, enda langt í frá að hún stundi slík vinnubrögð. Það væri nær að hæstv. ríkisstjórn færi í læri til Rafiðnaðarsambandsins og annarra félagasamtaka sem hafa brugðist við óskum okkar um umsögn á svipaðan hátt.

Eins og ég sagði, frú forseti, get ég vitnað í fjölda umsagna sem eins er farið með, þ.e. þar sem fólk fyrirverður sig nánast fyrir að þurfa að segjast ekki hafa svigrúm, það sé leitt yfir því að hafa ekki svigrúm til þess að gera það sem kunnátta þess, þekking og hæfileikar standa til. Allshn. vængstýfði umsagnaraðila sína fyrirfram. Það er verulega miður.

Af því við erum farin að tala um lýðræðislega umfjöllun, frú forseti, þá er við hæfi á þessum tímapunkti í ræðu minni að vekja athygli á því að stjórnarliða úr þingliðinu er nú sárt saknað í þingsal, verð ég að segja. Hér situr að vísu hv. þm. Bjarni Benediktsson, formaður allshn., kannski af skyldurækni frekar en öðru. Fjarvera hæstvirtra ráðherra er hrópandi, hæstv. forseti. Flutningsmaður frv., hæstv. forsrh., er ekki hér til staðar. Ekki heldur hæstv. menntmrh. sem hefur þó með útvarpsmálin að gera í ríkisstjórninni. Ég sá þó ekki betur en hún væri til staðar einhvers staðar áðan.

Hæstv. samgrh. mætti vera hér einnig til að ræða við okkur um tæknimálin sem ég nefndi áðan, nýja miðla og möguleika tækninnar. Eitt af því sem við höfum fengið inn á borð okkar í allshn. er ástandið varðandi rásarmálin, þ.e. hvað er eftir af rásum til úthlutunar, hvaða tækni er möguleg til sjónvarpsútsendinga og fleira athyglisvert hefur komið fram í þeim dúr, sem hæstv. samgrh. mætti alveg skipta sér af eða vera til umræðu um. Sömuleiðis verð ég að segja að hæstv. iðn.- og viðskrh. mætti alveg láta sjá sig. Ég sá hæstv. ráðherra á göngunum áðan. Er enginn af hæstv. ráðherrum í húsi, frú forseti?

(Forseti (JóhS): Nei, enginn af ráðherrunum er í húsinu sem stendur. Ef hv. þm. óskar sérstaklega eftir viðveru tiltekins ráðherra þá get ég orðið við því að athuga hvort þeir séu tiltækir og geti komið og verið við umræðuna, sé óskað eftir ákveðnum ráðherrum.)

Ég hef nefnt, frú forseti, þessa fjóra ráðherra: hæstv. forsrh., menntmrh., samgrh. og iðn.- og viðskrh. Ég ætla ekki að gera neina sérstaka kröfu um að þeir verði sóttir með valdi en ég vil vekja athygli þings og þjóðar á því að þeir eru fjarverandi við umræðuna. Það segir ansi mikið um áhuga eða áhugaleysi þeirra á þessu máli. Það segir sitt fyrir samfélagið hvernig við, sem höfum barist með kjafti og klóm fyrir því að málið fái lýðræðislega umfjöllun og breiða umræðu, verðum ævinlega að lúta í lægra haldi fyrir áhugaleysi ríkisstjórnarinnar. Mér fyndist eðlilegt, frú forseti, að þessum ráðherrum yrði tilkynnt að þeirra sé saknað, án þess að ég geri um það ríka kröfu að þeir verði dregnir inn í húsið. En ég mundi fagna því ef þeir sæju sóma sinn í að vera viðstaddir.

Svo má vekja athygli á því, fyrst ég er farin að hafa þetta á hornum mér, frú forseti, að hér skuli vanta ráðherra, að fjarvera Framsfl. við þessa umræðu er algerlega himinhrópandi. Mér fyndist að hv. þingmenn Framsfl. ættu að láta sig hafa það, þótt ekki væri nema til að sýna kjósendum sínum örlitla virðingu, að sitja í salnum og hlusta á það sem við höfum fram að færa. Á bara að hafa þetta þannig að stjórnarandstöðuþingmenn megi dingla hér í pontu, segja það sem þeim sýnist og halda maraþonræður, án þess að það fari inn fyrir skelina á þeim þingmönnum sem síðar í umræðunni verða notaðir sem atkvæðamaskínur fyrir framkvæmdarvaldið? Hér er nákvæmlega það að gerast. Stjórnarliðar á þingi þurfa ekki að vera við þessa umræðu en þeir þurfa að vera við atkvæðagreiðsluna. Við getum verið viss um að þeir verða dregnir hingað inn, hver og einn. Það verður séð til þess að allir skili sér og ef einn vantar þá verður kallaður inn varamaður til að puttarnir á já-takkanum verði örugglega nógu margir til að tryggja frumvarpinu brautargengi gegnum þingið. Þetta eru vinnubrögð sem eru til háborinnar skammar, frú forseti. Áhugaleysið sem fram kemur í því sem ég hef rakið, þessum skorti á viðveru bæði framkvæmdarvaldsins og stjórnarliða í þingsalnum, segir miklu meira en mörg orð um afstöðu þessara þingmanna og flokka til málsins, til lýðræðislegrar umræðu og til þjóðarinnar.

Frú forseti. Ég vil að það komi skýrt fram að ég hef ævinlega í umræðu um málefni fjölmiðlanna, reyndar alveg síðan á níunda áratugnum, talið eðlilegt að um fjölmiðla giltu ákveðnar reglur. Ég tala því ekki hér sem fulltrúi þess sem engar reglur vill setja. Ég tel að við þurfum að hafa, og hef ævinlega talið, að við þyrftum að setja ákveðnar reglur um hvernig fjölmiðlaumhverfi við viljum sjá. Af hverju er ég hlynnt því að reglur gildi um fjölmiðla? Ég tel að framtíðarsýn okkar þurfi að mótast af ákveðnum reglusetningum. Þannig er það í lýðræðissamfélögum. Við höfum komið okkur upp þeirri leið, að setja okkur reglur til að búa til þá framtíðarsýn sem við teljum eftirsóknarverða.

Á sínum tíma, árið 1986, þegar hið svokallaða frelsi á ljósvakanum hóf innreið sína þótti ýmsum nóg um. Menn sögðu sem svo: Hva, á ekki að reisa neinar skorður? Eiga bara allir að geta fengið útvarpsleyfi? Sumir sögðu: Enn flott. En aðrir sögðu: Obbobbobb. Ég var í þeim hópi sem sagði: Obbobbobb, er þetta skynsamlegt? Á ekki t.d. að tryggja að stöðvarnar noti íslenskt mál í dagskrá sinni? Á ekki að setja reglur um það hverjir fá og hverjir fá ekki útvarpsleyfi? Er þetta ótakmörkuð auðlind? Svo kom auðvitað á daginn að útvarpsrásirnar eru ekki ótakmarkaðar. Þær eru takmörkuð auðlind. Það kom líka á daginn að ríkisvaldið og alþingismenn sáu að setja þyrfti einhverjar reglur.

[17:15]

Síðast þegar útvarpslögin voru endurskoðuð var reynt að reisa einhverjar, ég segi ekki skorður en alla vega setja einhvers konar reglur um dagskrárframboð og um að lýðræðislegar grundvallarreglur yrðu hafðar í heiðri þegar leyfum væri úthlutað til útvarps. Í núgildandi útvarpslögum fjallar 6. gr. um leyfi til útvarps. Þar eru útvarpsréttarnefnd settar ákveðnar skyldur á herðar, t.d. varðandi það að fylgjast með því að reglunum um útvarpsleyfin sé fylgt og hefur ákveðna eftirlitsskyldu samkvæmt orðanna hljóðan í þessum lögum.

Sömuleiðis er getið um það í 9. gr. útvarpslaga að útvarpsstöðvar skuli í öllu starfi sínu halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur. Þar kemur fram að þeim ber að virða tjáningarfrelsi og stuðla að því að fram komi í dagskrá rök fyrir mismunandi skoðunum í umdeildum málum, þó skuli útvarpsstöð sem fengið hefur útvarpsleyfi í þeim yfirlýsta tilgangi að beita sér fyrir tilteknum málstað vera óskylt að flytja dagskrárefni sem gengur í berhögg við stefnu stöðvarinnar.

Í 7. gr. er fjallað um dagskrárframboð þar sem löggjafinn hefur innrammað þá skoðun sína að útvarpsstöðvar skuli stuðla að almennri menningarþróun og efla íslenska tungu, þó skal heimilt, ef sérstaklega stendur á að vísu, að veita leyfi til útvarps á öðrum tungumálum en íslensku. Varðandi sjónvarpsstöðvarnar segir löggjafinn að þær skuli kosta kapps um að meiri hluta útsendingartíma sé varið í íslenskt dagskrárefni og annað dagskrárefni frá Evrópu.

Varðandi skyldur útvarpsstöðvanna, sem er að finna í útvarpslögunum, verður maður að segja að þær eru í algjöru lágmarki. Þeim hefur ekki verið fylgt eftir af ákafa hjá útvarpsréttarnefnd. Það hefur komið fram í umfjöllun um málið í allshn. að útvarpsréttarnefnd hefur lítið sem ekkert gert í að fylgjast með því að þessum þáttum í útvarpslögunum sé framfylgt. Það var mikið gert úr því að útvarpsréttarnefnd virtist afar vinsæl nefnd enda lítið sem ekkert undan henni kvartað. Formaður nefndarinnar taldi a.m.k. að hún hefði rækt hlutverk sitt nokkuð vel og ekki mikið út á það að setja hvernig hún hefði framfylgt því.

Þetta kann allt að vera gott og blessað en ég vil samt meina að umræða um reglur á ljósvakanum og í fjölmiðlum almennt hefði þurft að vera viðameiri, öflugri og málefnalegri, en okkur hefði tekist að hafa hana á þeim örskamma tíma sem gefinn var fyrir umræðuna í hv. allshn.

Það er alveg ljóst, t.d. af því sem hér hefur verið sagt varðandi tilmæli Evrópuráðsins, tilmæli nr. 1 frá 1999, sem gerð hefur verið grein fyrir í ræðu hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur, að reglurnar eða stefnumótunin sem Evrópuráðið hefur lagt fyrir aðildarþjóðir sínar er þess eðlis að það verður að taka til alvarlegrar skoðunar og málefnalegrar hvort og á hvern hátt Íslendingar ættu að fara að þeim tilmælum. Það hefur sannarlega ekki verið gert í þessari umræðu og er það verulega miður.

Hér hefur verið vitnað til athyglisverðrar greinar sem birtist í Morgunblaðinu 2. maí sem skrifuð er af Páli Þórhallssyni. Hann er lögfræðingur í fjölmiðladeild Evrópuráðsins. Hann skrifaði í Morgunblaðið þessa efnismiklu grein sem fjallar að mestu leyti um tilmæli Evrópuráðsins. Hann segir að varðandi þessa stefnumótun verði að hafa eitt og annað í huga. Mig langar að vitna beint í þessa grein, með leyfi forseta, þar sem Páll segir:

,,Enn fremur verður að hafa í huga að stefnumótun Evrópuráðsins á þessu sviði undanfarna áratugi hefur verið margþætt og er fjölbreytni fjölmiðla einungis eitt af mörgum umfjöllunarefnum. Önnur eru til dæmis frelsi blaðamanna, höfundarréttur, aðgerðir gegn kynþáttahatri í fjölmiðlum og valdmörk ríkisins gagnvart fjölmiðlum bæði í sambandi við sjálfstætt almenningsútvarp og úthlutun útvarpsleyfa.``

Ummæli Páls gefa okkur til kynna á hve breiðum grunni við þurfum að skoða mögulega reglusetningu og segja okkur jafnframt hversu illa við höfum staðið okkur í að líta til þessara ólíku þátta sem eðlilegt er að séu skoðaðir og eru beinlínis fólgnir í tilmælum Evrópuráðsins nr. 1 frá 1999.

Páll rekur í grein sinni á afar fróðlegan hátt söguna síðustu 20 árin varðandi það hvernig málin hafa þróast á fjölmiðlamarkaði í Evrópu. Ég verð að segja að mér finnst athyglisvert hvernig Evrópuþjóðum virðist hafa tekist að efla hjá sér gagnrýna umræðu og hafa beinlíns þroskað hæfileika almennings til að vega og meta upplýsingar. Það er eitt af því sem fjölmiðlar þurfa auðvitað að gera. Þeir þurfa að þroska alla umræðu sem á sér stað í samfélaginu og eiga að efla gagnrýna hugsun borgaranna. Það skiptir verulegu máli í því sambandi að t.d. sé alveg á hreinu hver stendur að baki miðlinum. Það skiptir verulegu máli í mínum huga að fólk viti hverjir eru eigendur fjölmiðlanna, alveg eins og við krefjumst þess að ríkisfjölmiðlarnir séu hlutlausir, sem sannarlega er misbrestur á. Við krefjumst þess líka að fá að vita hverjir eru málpípurnar eða hverra hagsmuna fjölmiðlar gæta ef um það er að ræða að fjölmiðillinn gæti ákveðinna hagsmuna umfram aðra. Páll segir í grein sinni að það skipti verulegu máli að gagnsæi sé á þessum markaði, það sé mikilsvert skilyrði til að tryggja fjölbreytni.

Það er verulega miður að ekki skuli hafa verið fjallað um það í allshn. af neinni alvöru að setja það inn í frv. forsrh., sé yfir höfuð um það að ræða að eitthvað sé hægt að plástra, bæta eða gera eitthvað við. Það er verulega miður að okkur hafi ekki gefist tóm til þess að ræða möguleikana á því að sett yrðu inn ákvæði sem lytu að gagnsæi gagnvart eigendum fjölmiðlanna. Það finnst mér algjört skilyrði, að við, þjóðin, vitum ævinlega hverjir standa að baki fjölmiðlunum, alveg niður í smæstu einingu. Það á þjóðin skilið að vita. Því ber auðvitað að tryggja með reglum að eignarhald á fjölmiðlum sé gagnsætt. Ég held að það muni á endanum skila okkur ansi miklu, þ.e. að fólk veit nákvæmlega hvort það eru félagasamtök eða stóreignamenn sem eiga viðkomandi miðil og geta þá hlustað á hann eða lesið hann með þeim gleraugum sem fólk sjálft kýs, alveg eins og við lásum flokksblöðin á sínum tíma. Menn lásu þau með þeim gleraugum sem menn töldu sig þurfa. Þegar við lásum Þjóðviljann þá vissum við hvaða flokkur stóð að baki honum á sama hátt og við vissum hvaða flokkur stóð að baki Morgunblaðinu.

Nú hefur þetta landslag breyst og Morgunblaðið lætur í veðri vaka að það sé hlutlaus miðill. Ég ætla ekki að kasta rýrð á Morgunblaðið sem slíkt. Ég les það helst með morgunkaffinu og þar er mjög oft gætt að því að hafa breiða umfjöllun og hlutleysi, en alls ekki alltaf. Alltaf lúrir á bak við, kannski sérstaklega í umfjöllun um utanríkismálin, stefna Sjálfstfl. Þetta verða menn að vita. Menn verða að vita tengslin við Sjálfstfl. til að geta lesið með réttum gleraugum, t.d. fréttir Morgunblaðsins af sjónarmiðum stjórnarherra í Bandaríkjunum, svo eitthvað sé nefnt af handahófi. Gagnsæi í eignarhaldi er því afar mikilvægt og miður að ekki gafst ráðrúm til að ræða það af hreinu viti í hinni hraðsoðnu umfjöllun allshn.

Á sama hátt, frú forseti, er varhugavert að of fáir aðilar verði ráðandi um þátt fjölmiðla í skoðanamyndun samfélagsins. Ég tel, eins og ég hef sagt fyrr í máli mínu, að ákveðin hættumerki séu í þeirri samþjöppun sem átt hefur sér stað á fjölmiðlamarkaði. Ég hefði viljað ræða það í alvöru hvers konar reglur væru bestar í þeim efnum en ekki líma mig, eins og stjórnarþingmenn hafa gert við þessa umfjöllun, á hugmyndir sem forsrh. dregur úr rassvasanum og heimila ekki umræður um aðrar.

Ég sé ekki betur, frú forseti, en ótal atriði bendi til þess að þetta frv., verði það að lögum, eigi eftir að snúast upp í andhverfu sína. Í athugasemdum með frv. segir í fyrstu málsgrein, með leyfi forseta:

,,Meginmarkmið frumvarps þessa er að sporna við því að eignarhald á fjölmiðlafyrirtækjum og samþjöppun á fjölmiðlamarkaði hamli gegn æskilegri fjölbreytni í fjölmiðlun á Íslandi.``

Þessi setning hefur verið hrakin af ýmsum umsagnaraðilum. Fjöldamargir aðilar hafa bent á að ekkert í þessum reglum tryggi þetta markmið frumvarpsins. Það er verulega miður að svo mikill vafi skuli leika á að meginmarkmið frv. nái fram að ganga, verði það að lögum. Það verður að telja ekki bara bagalegt heldur allsendis óviðunandi, frú forseti. Það er auðvitað líka kaldhæðni örlaganna þegar maður les aðra setninguna í athugasemdum með frv. sem er eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Frumvarpið er reist á almennt viðurkenndum viðhorfum um mikilvægi fjölmiðla fyrir skoðana- og tjáningarfrelsi í nútímalýðræðisþjóðfélagi.``

Í þessu nútímalýðræðisþjóðfélagi er ekki pláss fyrir lýðræðislega umræðu um nákvæmlega það sem við ræðum um hér. Bara gerræðislega einræðistilburðina. Ekki lýðræðislega umræðu. Alls ekki. Eins og fram hefur komið var þingmönnum í gær, dauðþreyttum eftir erfiða vinnu undanfarna daga, ekki einu sinni sagt hvort eða hvenær þetta mál yrði á dagskrá. Þessi framkoma er náttúrlega algjörlega forkastanleg.

Ég held að það hafi verið um sexleytið í gærkveldi sem ég spurði hv. formann nefndarinnar hvort við mættum búast við því að nál. yrði lagt fram síðar á þeim fundi, sem átti að standa til klukkan tíu um kvöldið. Klukkan sex um kvöldið spurði ég hvort við mættum búast við því að nál. yrði lagt fram og breytingartillögur síðar á þeim fundi. Þá svaraði hv. formaður okkur því að hann útilokaði ekki að það gæti orðið. Þar með varð okkur ljóst að það átti að rífa málið úr nefndinni fyrir klukkan tíu það kvöld. Þegar það síðan birtist rétt um kvöldmatarleytið, upp úr kvöldmat, sex síðna nefndarálit, þá spurði maður sig: Bíddu, hvaða skrípaleikur er þetta? Hvenær hafa félagar mínir í allshn. setið og skrifað þetta nefndarálit? Þau höfðu verið að gera nákvæmlega það sama og ég undanfarna viku, undanfarna fimm daga, hlustað á gesti nefndarinnar, tekið á móti gestum og hlustað á ýmsar ávirðingar. Meiri hlutinn hefur kannski reynt að stauta sig í gegnum þykka möppu af athugasemdum sem barst, greinum, lesefni, greinargerðum og álitsgerðum sem við fengum inn í möppurnar okkar, m.a. eldri greinar um lýðræði og lýðræðislega umfjöllun. Ég man ekki hvað allt þetta heitir enda hef ég ekki komist í að lesa það nándar nærri allt. En kollegar mínir í allshn., hv. þm. stjórnarmeirihlutans, höfðu ekki skrifað þetta nefndarálit sjálfir í sínum örstuttu en góðu frístundum. Það var ekkert sem benti til þess.

Þegar breytingartillögurnar lágu fyrir gafst ekkert ráðrúm til að yfirfara þær eða skoða á hvern hátt þær mundu mögulega breyta því landslagi sem við og umsagnaraðilar höfðum reynt að teikna upp út frá frumvarpinu eins og það lá fyrir í upphaflegri gerð. Ekkert ráðrúm var gefið til að skoða breyttar aðstæður eða breytt landslag. Það mátti ekki kalla inn sérfræðingana sem við höfðum verið með fyrr um daginn til að spyrja: Hverju mundi þetta breyta? Við áttum að sjá þetta í kollinum á okkur en vorum sennilega ekki nógu skýr, a.m.k. ekki jafnskýr og hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans sem gerðu sér grein fyrir þessu eins og hendi væri veifað. Þeir sáu þetta allt í hendi sér að því er virtist. Ég vil láta í ljós þá skoðun mína, frú forseti, að staðan hafi ekki verið eins skýr í kollinum á þeim eins og þeir vildu vera láta. Hvernig má það vera?

Fólk var búið að sitja tímum saman yfir erfiðum umsögnum. Oftar en ekki voru umsagnirnar þykkar og miklar. Umsögn Norðurljósa var heil bók. Hún var ekki minni að vöxtum en skýrsla nefndarinnar sem menntmrh. skipaði. Þessa skýrslu, umsögn Norðurljósa, fengum við í hendur um leið og gestirnir frá Norðurljósum gengu í salinn. Með öðrum orðum þýðir það að enginn nefndarmanna hafði fengið ráðrúm eða tækifæri til að kynna sér sjónarmið gestanna áður en við þurftum að spyrja þá út úr. Svo var sagt: Geta gestirnir gert okkur grein fyrir hvað stendur hér?

[17:30]

Heldur hæstv. forseti að gestirnir hafi fengið ráðrúm til að lesa yfir okkur þessar 40 bls. til að við fengjum nú hvert orð í æð? Nei, aldeilis ekki. Þeir fengu að gera örstutta grein fyrir meginniðurstöðum þessarar umsagnar. Svo áttu þingmenn í nefndinni að spyrja fólk út úr þessu 40 síðna plaggi.

Það sér hver maður að það hefur ekki verið heil brú í aðstöðunni sem þingmenn hafa fengið til að vinna að máli þessu. Ekki heil brú.

(Forseti (JóhS): Vegna óska hv. þm. um viðveru fjögurra ráðherra áðan vill forseti upplýsa að hæstv. forsrh. og hæstv. menntmrh. eru í húsinu. Þeim hefur verið gert viðvart um óskir hv. þm. Hæstv. samgrh. er upptekinn og getur ekki verið á fundinum. Ekki hefur náðst til hæstv. viðskrh.)

Frú forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir að kanna þetta, þau verkefni sem hæstv. ráðherrar sinna í dag. Ég fagna því að hæstv. forsrh. og hæstv. menntmrh. skuli komnir í salinn. Mér finnst ekki eðlilegt, eins og ég sagði áðan, að þessi umræða fari fram án þess að þeir hlýði a.m.k. á hluta hennar. Ég hafði orð á því í ræðu fyrir ekki margt löngu að það væri líkast því að hér sæti að völdum valdstjórn. Það rifjaðist þá upp fyrir mér að hugtakið valdstjórn er að finna í hegningarlögum, almennum hegningarlögum okkar. Ég held að ákveðinn kafli heiti beinlínis Brot gegn valdstjórninni. Það hefur aftur og aftur komið upp í huga minn síðustu daga að hér sitjum við, stjórnarandstöðuþingmenn, undir hælnum á valdstjórninni. Við fáum að halda málfrelsi okkar og fáum aðgang í ræðustól. En við fáum sárasjaldan skoðanaskipti við hæstv. ráðherra. Valdstjórnin verður að fá að hafa sinn gang og við megum móast við, stjórnarandstæðingarnir, þakka fyrir málfrelsið og ræðustól Alþingis.

Frú forseti. Það er ekki margt eftir af því sem mig langaði að segja hér. Ég vil þó víkja nokkrum orðum að umsögn sérfræðinga í Evrópurétti. Það var satt að segja mjög athyglisvert sem við fengum að heyra frá sérfræðingum í Evrópurétti sem til okkar komu. Þar á ég sérstaklega við Einar Pál Tamimi, sem er forstöðumaður Evrópuréttarstofnunar Háskólans í Reykjavík og Stefán Geir Þórisson hæstaréttarlögmann. Þessir virðulegu gestir sátu hjá okkur lengi dags og fóru yfir það á hvern hátt t.d. EES-reglurnar, ESB- og EES-reglurnar, ættu við um þetta frv. Ég verð að segja að það var afar dýrmæt kennslustund fyrir mig í þessum efnum. Ég tel að hið sama gildi um aðra nefndarmenn. Í umsögn Einars Páls Tamimi, ég hef fyrir framan mig þessa umsögn þar sem kvartað er, eins og hjá öllum öðrum, yfir því að tíma\-ramminn hafi verið knappur og á umræddum tíma hafi ekki verið hægt að gera viðeigandi efnisréttarlegum álitaefnum Evrópu- og EES-réttarins forsvaranleg skil. Þar kemur enn einu sinni fram að menn vilji gefa forsvaranlega umsögn svo sem hæfni þeirra og hæfileikar standa til. Það er sannarlega slæmt að það geti ekki gengið vegna þröngs tímaramma.

Evrópustofnunin nálgaðist málið með þeim hætti að skoða hvaða reglur Evrópu- og EES-réttarins gætu helst átt við í þessu samhengi. Þær reglur sem sérfræðingar þessir sögðu helst koma til álita voru í fyrsta lagi reglur ESB og EES um staðfesturétt, reglur um þjónustufrelsi og reglur ESB og EES-réttarins um frjálsa fjármagnsflutninga. Sömuleiðis fjallaði Einar Páll Tamimi um það í umsögn sinni að samnefnari, svokallaður samnefnari mannréttinda samkvæmt ESB og EES-rétti, ætti hér við en þá er um að ræða reglur um tjáningarfrelsi, reglur um eignarrétt, reglur um lögfræðilega vissu og afturvirkni. Loks tjáði hann okkur að afleidd löggjöf ESB, sem væri hluti EES-réttar, kæmi hér líka við sögu. Þar nefndi hann tvær tilskipanir sem ég verð að segja að hefði verið afar athyglisvert fyrir nefndina að fá að kynna sér. Þessar tilskipanir varða í fyrsta lagi útvarpsleyfi og hafa verið teknar upp af sameiginlegu EES-nefndinni í EES-samninginn. Hinar varða samræmingu útsendingarstarfsemi sjónvarps, á ensku ,,Television without Frontiers``.

Það hefði verið afar fróðlegt fyrir nefndina að fá að kynna sér þessar reglur, sem búið er að taka upp í EES-samninginn. Hvað væri eðlilegra en að við þingmenn fengjum að sannreyna hvort frumvarpið, eins og það lá fyrir, eða frumvarpið með breytingartillögunum sem nú liggja fyrir, stenst þær tilskipanir sem hér er getið? Það væri eðlilegasti hlutur í heimi að þingnefnd óskaði eftir slíku. En var ráðrúm til þess? Nei, það var ekki ráðrúm til þess. Tilskipanirnar voru ekki einu sinni settar í möppur nefndarmanna. Þó kann að vera að ég fari með fleipur, frú forseti, þar sem ég hef ekki komist yfir að kynna mér síðustu gögnin sem sett voru í nefndarmöppurnar undir kvöld í gær.

Segja má að niðurstaða könnunar Evrópuréttarstofnunar Háskólans í Reykjavík, á þeim réttarreglum sem tilgreindar voru og ég hef tilgreint og eru teknar úr umsögn stofnunarinnar, sé sú að ekki sé hægt að slá því föstu að frumvarpið sem fyrir liggur samrýmist að öllu leyti ofangreindum reglum. Forstöðumaðurinn segir reyndar að áreiðanleikastig niðurstöðunnar verði að vega í samræmi við þann stutta fyrirvara sem stofnunin hefur til að skoða málið. Við fengum í hendurnar upplýsingar um EES-réttinn og Evrópuréttinn sem eðlilegt hefði verið að nefndin færi vel í saumana á. Auðvitað er forkastanlegt að ekki skyldi veitast svigrúm til þess því að þetta eru auðvitað tilskipanir sem við eigum innan skamms eftir að þurfa að innleiða í löggjöf okkar. Það þarf ekki að segja þeim sem hér sitja hvernig slík mál ganga fyrir sig.

Sömuleiðis má segja að meðalhófsregla ESB hafi komið til umræðu hjá okkur. Meðalhófsreglan gerir ráð fyrir því að markmiðið með lagasetningunni eða reglunni sé lögmætt. Leiðin sem farin er, eða lagt er til að farin sé, sé almennt nothæf og viðurkennd til að ná fram þeim markmiðum sem á að ná og nauðsynlegt sé að gera þá breytingu sem verið er að framkvæma. Maður spyr aftur: Er nauðsynlegt að fara þá leið sem lögð er til í þessu frumvarpi? Það er satt að segja sorglegt, en rökstuðningurinn fyrir því hjá stjórnarliðum hefur verið lítill sem enginn. Er nauðsynlegt að fara þessa leið? Ég hef ekki fengið sannfærandi rök stjórnarmeirihlutans fyrir því að það sé nauðsynlegt.

Í annan stað spyr maður enn og aftur: Hefði ekki verið hægt að ná fram þeim markmiðum sem frv. ætlar sér að ná fram með reglum sem hefðu minni frelsisskerðingu í för með sér en yrði í þessu tilfelli?

Í Morgunblaðsgrein sem Páll Þórhallsson skrifaði, og ég vitnaði til í ræðu minni áðan og hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir einnig, er sagt að eðlilegt sé að skoðaðar verði vægari leiðir, þ.e. leiðir sem fari hægar í sakirnar. Spurningin er hvort slíkar leiðir gætu ekki skilað sama markmiði og jafnvel verið árangursríkari.

Frú forseti. Eins og ég sagði áðan greip ég með mér, af handahófi, nokkrar umsagnir sem mig langar til að ljúka máli mínu á að vitna til. Þar verður fyrst fyrir mér umsögn dr. Ólafs Þ. Harðarsonar, prófessors í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Ólafur er jafnframt forseti félagsvísindadeildar. Hann segir í umsögn sinni, með leyfi forseta:

,,Sú leið sem farin er í frumvarpinu gengur mjög langt. Nauðsynlegt er að greina vandlega hvaða háski kann að fylgja henni og jafnframt að skoða kosti annarra leiða, t.d. þeirra sem nota einhvers konar hlutdeild af fjölmiðlamarkaði, t.d. áhorf eða útbreiðslu, sem viðmiðun.

Ég hvet til þess að málið fái vandlega skoðun. Mér sýnast álitamálin svo mörg að það sé óhjákvæmilegt að taka til þess nægan tíma.``

Frú forseti. Nauðsynlegt er talið að greina hvaða háski kunni að fylgja þessari leið. Greindum við þann háska í allshn.? Nei. Sannarlega ekki. Stjórnarmeirihlutinn mátti ekki heyra minnst á að hér gæti einhver háski verið yfirvofandi. Hin efnislega umfjöllun fór auðvitað aldrei fram í nefndinni. Þegar nefndarálitið og breytingartillögurnar voru lagðar fram var ljóst að þar mundu leiðir skilja. Þar með var lokið umfjöllun nefndarinnar og engin málefnaleg umfjöllun fór fram eða skoðanaskipti milli nefndarmanna.

Önnur umsögn sem verður fyrir mér er frá laganefnd Lögmannafélags Íslands. Þannig telur laganefndin til að mynda nauðsynlegt að taka til ítarlegrar skoðunar nokkur ákvæði stjórnarskrárinnar við samningu umsagnar um frumvarpið, svo og ákvæði alþjóðlegra samninga og sáttmála sem Ísland er bundið af og ákvæði í settum lögum. Í umsögn laganefndarinnar segir jafnframt, með leyfi forseta:

,,Ákvæði þessi varða sum hver grundvallarmannréttindi borgaranna, svo sem réttinn til tjáningarfrelsis og friðhelgi eignarréttarins, en við þessar aðstæður er að mati laganefndarinnar sérstaklega brýnt að vanda til undirbúnings lagasetningarinnar.

Laganefndin fær ekki séð að það sé yfir höfuð mögulegt með vísan til framanritaðs að skila vandaðri umsögn um málið á þeim tveimur sólarhringum sem nefndinni eru ætlaðir til verksins. Af þeim sökum getur laganefnd LMFÍ ekki orðið við beiðni um að veita umsögn um frumvarp þetta.``

Enn ein dæmigerð umsögnin. Ég hef einnig umsögn um frumvarpið frá Blaðamannafélagi Íslands. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Aðalfundur Blaðamannafélags Íslands fordæmir jafnframt að félagið var sniðgengið við skipan nefndar, sem skilaði skýrslu um eignarhald á fjölmiðlum sem nú liggur til grundvallar frumvarpinu, og að þátttöku fulltrúa félagsins og stéttarinnar í starfi nefndarinnar var hafnað.``

Í umsögn, með leyfi forseta, frá Starfsmannasamtökum Ríkisútvarpsins, er fjallað um lagastoð. Þar segir:

,,Stjórn Starfsmannasamtaka Ríkisútvarpsins bendir á að skera verði úr um hvort frumvarpið stenst stjórnarskrá íslenska lýðveldisins, Evrópurétt og alþjóðlegan mannréttindasáttmála, sem virtir fræðimenn hafa dregið í efa.``

Auðvitað var ekki gengið úr skugga um þetta í vinnu nefndarinnar. Að lokum, sem er síðasta umsögn sem ég vil vitna til, frú forseti, í þessari ræðu minni, hef ég umsögn frá Þorbirni Broddasyni, sérfræðingi í fjölmiðlum og prófessor við Háskóla Íslands. Hann spyr okkur nokkurra spurninga, þ.e. setur fram nokkra þankapunkta í lok umsagnar sinnar. Ég vil gera þessi orð Þorbjörns Broddasonar að mínum, en hann segir, með leyfi forseta:

,,Hvað ber að gera?

Flýtum okkur hægt.

Göngum úr skugga um að leiðirnar séu í samræmi við markmiðin.

Víkkum sjónarhornið; lítum á stöðu blaðanna, Ríkisútvarpsins og nýrra miðla.

Tryggjum með löggjöf algert gegnsæi eignarhalds á öllum fjölmiðlum.

Tryggjum með löggjöf að útvarpsleyfi falli sjálfkrafa niður við eigendaskipti, hvað sem öðru líður.

Eflum þekkingu á fjölmiðlum.``

Frú forseti. Ég geri þessi lokaorð Þorbjörns Broddasonar að niðurlagsorðum ræðu minnar. Það er ljóst að stjórnarmeirihlutinn fer offari og það sér ekki fyrir endann á afleiðingum þess offors.