Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 17:44:27 (7860)

2004-05-11 17:44:27# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[17:44]

Sigurjón Þórðarson:

Frú forseti. Ég vil lýsa því yfir í upphafi máls míns að við í Frjálsl. erum algjörlega andsnúin fjölmiðlafrumvarpinu. Verði það samþykkt á hinu háa Alþingi munum við vinna að því að afnema það, komumst við í aðstöðu til þess, rétt eins og við munum afnema kvótakerfið.

Kvótakerfið er ranglátt og það sem er líkt með þessu máli og kvótakerfinu er að stjórnarflokkarnir, réttara sagt kvótaflokkarnir, hafa notað falskar forsendur sem yfirvarp til að ná fram markmiðum sínum, sem ganga þvert gegn yfirlýstum markmiðum laganna.

[17:45]

Við að réttlæta gagnslaust og óréttlátt kvótakerfi hafa menn yfirvarp af fiskverndinni til þess að skerða atvinnuréttindi sjávarþorpanna hringinn í kringum landið. Hér nota menn málfrelsið sem yfirvarp til þess að reyna að hefta gagnrýna umræðu um stjórnvöld. Það hefur komið ítrekað fram að fjölmörgum ráðherrum er illa við fréttaflutning vissra fjölmiðla og telja að við þeim verði að bregðast. Það hefur komið fram m.a. í þessum ræðustól. Hér veifaði hæstv. félmrh., Árni Magnússon, DV til vitnis um að þetta þyrfti að stöðva. Allt orðfæri sumra manna er með þeim hætti að af öllu má skilja að þeim er í nöp við gagnrýna umfjöllun ýmissa fréttamiðla sem þeir uppnefna gjarnan Baugstíðindi. Hver kannast ekki við það orðfæri að Fréttablaðinu sé troðið inn um lúguna? Ég tel að slíkt orðfæri, að troða Fréttablaðinu inn um lúguna, einkenni ráðamenn sem eru orðnir vanir gagnrýnislítilli umræðu um verk sín. Ég starfaði lengi við að bera út blöð, en ég starfaði aldrei við að troða einhverjum blöðum inn um lúguna. Þetta orðfæri sem hinir háu herrar sem ráða ferð á Íslandi hafa tileinkað sér er farið að einkennast af valdhroka. Við sjáum það, ekki bara í þessu máli, heldur mörgum öðrum málum. Jafnvel í þessum ræðustól eru sumir þingmenn kallaðir litlir þingmenn og litlir kallar. Það má þá væntanlega leiða að því rök að það séu mjög stórir kallar sem stjórna þessu landi, gífurlega stórir.

Þessi valdhroki kemur fram einmitt við undirbúning á þessu frv. Þá eru menn ekki að kalla alla þá sem þetta málefni snertir að þeirri vinnu til að vanda til verksins, þ.e. þá sem vinna í atvinnugreininni, t.d. blaðamenn. Nei, þeim er haldið fjarri. Þeir mega ekki koma. En hverjir fá að koma að? Það er nefnilega athyglisvert. Það eru bara flokksbundnir flokkshestar og síðan nokkrir lögfræðingar. Þetta er vinnan í kringum fjölmiðlafrumvarpið. Það er ekki nóg með að sú vinna sé á þann veginn, heldur er henni haldið leyndri sem lengst. Þegar síðan er búið að opinbera hana á að keyra hana hratt í gegn og helst forðast alla umræðu.

Það er óneitanlega skrýtið að hæstv. forsrh., Davíð Oddsson, skuli ekki blanda sér í þessa umræðu af meira kappi. Við erum að ræða hér um barnið hans. Það mætti ætla að honum væri umhugað um að það fengi góða umfjöllun hér á þinginu og hann skýrði út fyrir stjórnarandstöðunni verk sín, hvað stæði fyrir dyrum og að þetta væri allt gert af góðum hug og allt mjög eðlilegt. Ég hefði talið það. Hæstv. forsrh. ætti að vera hér og ræða þessi mál við okkur í stjórnarandstöðunni. Við höfum haft efasemdir um frv. Það eru ekki einungis við sem höfum haft efasemdir um það, heldur eru efasemdir víða í þjóðfélaginu. Ég veit ekki betur en að þorri landsmanna sé andsnúinn frv. Við erum að tala um lýðræðislega umræðu. Ég hefði talið að við ættum að tala saman um þetta og taka okkur góðan tíma. Hvers vegna er það ekki gert? Ég tel að stjórnarmeirihlutinn skuldi okkur svör við spurningunni um hvað liggi á. Ég ítreka það að þau svör sem við höfum fengið hér í dag hjá hv. formanni nefndarinnar voru rýr í roðinu, vægast sagt.

Það hefur verið með ólíkindum að fylgjast með störfum meiri hluta allshn. síðustu vikuna. Greinilegt er að hann fylgir dagskipunum hæstv. forsrh., Davíðs Oddssonar. Ekki má gleyma arftaka hans, hæstv. utanrrh., en hann virðist fylgja honum vel og örugglega í því að keyra málið með miklu hraði í gegnum þingið. Ég spyr: Hvert er markmiðið með því að hraða þessari umræðu? Eigum við ekki að taka góðan tíma og ræða málið málefnalega?

Eins og fram kom í upphafi máls míns tel ég að þetta frelsistal sé bara yfirvarp. Allir vita hver raunveruleg ástæða er fyrir frv. þ.e. að hæstv. forsrh. hefur lengi haft horn í síðu ákveðinna manna í viðskiptalífinu. Því má segja að það mál sem við ræðum nú sé beint framhald af bolludagsmálinu í fyrra. Það var allt hið furðulegasta, rétt eins og það sem við erum að ræða hér. Ef ég man rétt snerist það m.a. um að hæstv. forsrh. sakaði nafngreinda menn, kennda við Bónus, um að hafa reynt að múta sér án þess að hæstv. forsrh. hafi fært nokkrar sönnur á að svo hafi verið. Hann vitnaði helst í tveggja eða þriggja manna tal. Það leikur vafi á því hvort mennirnir voru tveir eða þrír.

Erfiðara hefur verið að átta sig á því hvað rekur Framsfl. áfram í þessu furðulega löggjafarstarfi. Mér var það lengi ráðgáta og leitaði víða fanga til að átta mig á því hvað ræki framsóknarmennina áfram. Ég spjallaði við marga framsóknarmenn, hér á hinu háa Alþingi og víðar, og fór m.a. norður í Skagafjörð. Þar er ýmsa framsóknarmenn að finna. Mér var bent þar á að svarið væri e.t.v. að finna í grein á maddömunni.is sem er vefrit ungra framsóknarmanna. Greinin er skrifuð af lögfræðingnum Jóni Einarssyni sem er ein helsta vonarstjarna ungra framsóknarmanna og skýrði ungi framsóknarmaðurinn gerðir þingmanna Framsfl. eitthvað á þá leið ,,að Framsóknarflokkurinn væri í gíslingu vegna þess að hæstvirtur utanríkisráðherra horfði vonaraugum til þessa dags sem hann fengi að vera forsætisráðherra``. Ég leitaði annarra skýringa á þessu en fann ekkert í stefnu flokksins, sem gefur sig út fyrir að vera frjálslyndur miðjuflokkur, sem útskýrir það að flokkurinn fari í þessar gerræðislegu athafnir og forðist alla umræðu um málið.

Það er í sjálfu sér undarlegt að horfa upp á Framsfl. hér, þegar hann leggur fram þetta frv. undir því yfirvarpi að verið sé að tryggja lýðræðislega umræðu. Hvað gera framsóknarmenn þá? Það er athyglisvert. Þeir loka umræddu vefriti. Það skýtur skökku við að þessar óþægilegu staðreyndir megi ekki birtast þjóðinni. Hvers vegna ætli það sé? Ætli það hafi verið eitthvert sárt sannleikskorn þarna sem ekki mátti berast út meðal þjóðarinnar?

Ég tel að ungir framsóknarmenn hér, ungir og glæsilegir fulltrúar þess flokks, hv. þm. Dagný Jónsdóttir og Birkir Jón Jónsson, ættu að koma hér fram og segja okkur frá því hvort þau séu þá fylgjandi þeim greinum sem koma fram á vefritinu góða, maddömunni.is., eða hvort þau ætli að fylgja leiðtoga sínum, Halldóri Ásgrímssyni, hæstv. utanrrh., í því að múlbinda eða koma lögum yfir ákveðna fjölmiðla sem eru óþægir ljáir í þúfu valdhafanna í landinu. Ég sakna þeirra hv. þm. hér í salnum. Ég hefði talið að það væri í tísku að ræða um fjölmiðla og einhver skemmtilegheit hér. Það væri þá tilbreyting og gott ef ungir framsóknarmenn kæmu hér fram og segðu okkur frá því hvað vekti fyrir þeim og hvort þau væru sammála ungliðanum á Sauðárkróki.

Frú forseti. Eins og áður segir hefur verið með ólíkindum að fylgjast með vinnubrögðum meiri hlutans. Vil ég lýsa algjörri hneykslan á vinnubrögðum nefndarinnar, sérstaklega því að umsagnaraðilar fengu aðeins örfáa daga til að skila inn umsögnum um frv. sem varðaði hvorki meira né minna en fjölmiðla í landinu sem oft hefur verið talað um að séu fjórða valdið. Við megum ekki gleyma því að við erum að ræða um að tryggja lýðræðið í landinu. Hvers vegna eigum við ekki að taka góðan tíma í að ræða það? Hvers vegna eiga umsagnaraðilar ekki að fá góðan tíma í að gefa umsagnir? Hvað liggur á að taka þessa umræðu í einum spreng? Ég veit það ekki. Ég á von á því að hv. ungir þm. sem vilja eflaust ræða fjölmiðla og einhver skemmtilegheit, hv. þm. Dagný Jónsdóttir og Birkir Jón Jónsson, sjái sóma sinn í því að koma hér fram þar sem þau hafa verið tíðir gestir á skjám landsmanna að segja frá ýmsum skemmtilegheitum. Það væri fróðlegt að fá að heyra viðhorf þeirra í þessu máli, hvaða eldar brenna og hvaða vá er fyrir dyrum.

Það mátti skilja á formanni allshn. að uppi væri vá gegn lýðræðinu og að ekki mætti taka lengri tíma í þetta verkefni, við yrðum að klára það sem fyrst og það væri ekki hægt að fá lögfræðiálit þó svo að veigamiklar athugasemdir hefðu komið, m.a. frá þeim sem sömdu skýrsluna góðu sem ég hef nú vissar efasemdir um, skýrsluna um fjölmiðla í landinu sem liggur til grundvallar þessu frv. Davíð Þór Björgvinsson gat ekki fullyrt með óyggjandi hætti að þetta frv. stæðist Evrópureglur.

Það þykir mér í meira lagi undarlegt og ég átta mig eiginlega ekki á hvað vakir fyrir meiri hlutanum hér á þingi að fara í þennan æðibunugang. Við í minni hlutanum lögðum til að farið yrði í að leita álits Lagastofnunar Háskóla Íslands og Evrópuréttarstofnunar Háskólans í Reykjavík. Því var hafnað. Að vísu tók formaður nefndarinnar sér umhugsunarfrest og sagðist þurfa að ræða við þann sem hann starfaði í umboði fyrir. Það kom mér í opna skjöldu því að ég hafði talið að við þingmenn störfuðum í umboði þjóðarinnar. Það mátti þó einna helst skilja það á þingmönnum meiri hlutans að þeir störfuðu í umboði foringjanna. Ég sé ekki, alls ekki, að okkur liggi svo á. Ég hef ekki fengið neinn rökstuðning fyrir þessari flýtimeðferð.

Komið hefur fram í umræðunni að menn hefðu viljað meiri efnislegar umræður um brtt. Jú, ég hefði verið tilbúinn í að ræða þær, senda þær út til umsagnar. Það hefur komið fram m.a. frá hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni að þær væru veigamiklar og hefðu bjargað frv. Ef þær eru svo veigamiklar, er þá ekki rétt að senda þær út til umsagnar? Það væri þá hægt að senda þær í tvo eða þrjá daga. Það eru fordæmi fyrir því í starfi nefndarinnar að senda mál út í 2--3 daga og fá þá inn athugasemdir. Menn hafa talið það hingað til nógu langan tíma. Hvers vegna ekki að senda það út í 2--3 daga? Ekki liggur okkur svo á að komast í sumarleyfi. Ég hefði talið að það væri málinu til framdráttar að fá faglegar umsagnir. Ýmis misskilningur hefur komið fram varðandi þessar brtt. Sumir hafa talið þær ganga skammt og aðrir langt. Það væri eflaust gott ef hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson gerði rækilega grein fyrir tillögunum og útskýrði hvernig þær bæta t.d. afturvirkni laganna.

Sigurður Líndal taldi að lögin fælu í sér afturvirkni. Er þá ekki rétt að fara yfir það atriði? Öll leyfi eiga að renna út eftir tvö ár og meira að segja leyfi sem gilda sjö ár fram í tímann. Er það ekki ákveðin afturvirkni? Það væri ágætt ef hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson fræddi okkur um það af viskubrunni sínum sem lögfræðingur.

Ég sé ekki ástæðuna fyrir þessum flýti. Hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir útskýrði fyrir mér í ágætu útvarpsviðtali að það stafaði m.a. af því að það væri verið að hugsa um hag starfsfólksins og fyrirtækjanna, einkum fyrirtækisins Norðurljósa sem frv. beinist gegn.

[18:00]

Ég get ekki séð að nokkur hafi beðið um það. Ég hef fengið margan tölvupóstinn frá starfsfólki Norðurljósa og ég hef ekki séð nokkurn, ekki einn einasta, sem hefur bent til þess að starfsfólkið hafi beðið um þetta frumvarp. Kannski að Arnbjörg Sveinsdóttir hafi fengið einhvern tölvupóst sem ég hef ekki fengið og það væri fróðlegt ef hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir kæmi og segði okkur frá því. Kannski hefur hann þá misfarist, sá póstur sem henni hefur borist.

Það sem er alvarlegt við þetta er að þetta eru auðvitað ómerkilegir útúrsnúningar hjá hv. þm. Við erum að ræða alvarlegt mál. Við erum að setja löggjöf um störf mörg hundruð og jafnvel þúsunda manna og auðvitað á að vanda til hennar. Menn eiga ekki að gera þetta með einhverjum handarbakavinnubrögðum. Það á að gefa fólki langan frest og það á að taka lýðræðislega umræðu um málið. Ég held að við getum öll verið sammála um að til þess að slík löggjöf verði vönduð þá tekur hún ákveðinn tíma.

Í Noregi tók slík umræða fjögur ár. Hún tekur hér tvær vikur. Eða hvað er hinu háa Alþingi ætlaður langur tími til að setja þessa löggjöf, tvær, þrjár vikur? Það fer eftir því hvenær menn byrja að telja. Sumir fengu skýrsluna fyrr í hendur en aðrir. Skýrslunni sem frumvarpið byggir á var haldið leyndri fyrir stjórnarandstöðunni og okkur þykir það náttúrlega ákaflega skrýtið þegar verið er að setja umgjörð um lýðræðislega starfsemi að menn skuli halda einhverju leyndu. Ég átta mig ekki á þessu. Því væri fróðlegt ef hæstv. forsætisráðherra, foringinn sjálfur, Davíð Oddsson, kæmi hér og útskýrði hvað þessi leynd átti að þýða. Hvers vegna var skýrslunni haldið leyndri og frumvarpinu fram á síðasta dag? Og síðan á að kýla það í gegn. Það hefði einmitt verið mjög gott ef bæði skýrslan og frumvarpið hefðu komið sem fyrst út í umræðuna. Þá hefðu menn getað undirbúið sig betur undir þær umsagnir sem komu inn.

Auðvitað vekur þetta frumvarp upp ýmsar spurningar. Hefði til dæmis verið hægt að ná fram yfirlýstu markmiði um að tryggja lýðræði og jafnræði á fjölmiðlamarkaði eða auglýsingamarkaði með vægari úrræðum? Til er regla í lögfræðinni, meðalhófsregla, og við höfðum einmitt sérfræðing í nefndinni sem hafði hvorki meira né minna en samið háskólaritgerð um meðalhófsregluna, hv. þm. Birgir Ármannsson. Því hefði verið fróðlegt að fá að heyra viðhorf hans í umræðunni hvort ekki hefði mátt ná fram markmiðunum um að tryggja lýðræðislega umræðu í samfélaginu með vægari úrræðum en að taka beint á eignarhaldinu með þessum hætti. Það hefði verið fróðlegt að fá það upp og það hefði verið málinu til framdráttar. Einnig hefði verið gott ef hann hefði greint betur frá þekkingu sinni á meðalhófsreglunni í nefndinni.

Það má einnig segja að margt ámælisvert sé í frumvarpinu og við fengum fjölmargar umsagnir. Það var heill bunki. Þær voru nú bara á aðra bókina. Frumvarpið fékk nánast fall\-einkunn í einu og öllu. Einstaka menn gáfu því þó þokkalega einkunn og það var eiginlega sammerkt með þeim að þeir voru samkeppnisaðilar Norðurljósa sem frumvarpið beinist gegn. Maður hefði ætlað að meiri hlutinn hefði tekið meira tillit til efnis umsagnanna en varð.

Umsögnin frá Samkeppnisstofnun var sérstaklega athyglisverð um að frumvarpið getur beinlínis snúist upp í andhverfu sína. Eins komu fram umsagnir um að frumvarpið muni jafnvel draga úr þeirri fjölbreytni sem er á markaðnum. Því má spyrja hvort frumvarpshöfundur og sá sem ber mesta ábyrgð á frumvarpinu sé þá ekki nokkuð sáttur við það því komið hefur fram í umræðunni að allar líkur séu á því að markmið frumvarpsins hafi verið allt annað en yfirlýst markmið, að það hafi í rauninni beinst gegn tjáningarfrelsinu. Það væri fróðlegt að fá að heyra hvort hann sé ekki mjög sáttur við frumvarpið, hæstv. forsrh., einmitt vegna þess að það dragi í raun úr fjölbreytni. Vera má að Samkeppnisstofnun hafi einmitt rétt fyrir sér í þessu áliti um að það jafnvel fækki þeim aðilum sem eru á markaði og það rökstyður þá vangaveltur mínar um að markmið frumvarpsins sé í rauninni allt annað en það er sagt vera. Ef menn væru að meina eitthvað með því í alvöru að þeir vildu tryggja lýðræðislega umræðu þá hefðu þeir staðið allt öðruvísi að verki. Auðvitað hefðu menn þá skipað menn úr öllum stjórnmálaflokkum til að fara yfir þessi mál. Ég hefði talið það. Það getur hver maður séð. Það eru fáránleg vinnubrögð við að tryggja að öll sjónarmið eigi að heyrast að taka bara menn úr stjórnarflokkunum og síðan tvo lögfræðinga. Auðvitað eiga menn að skoða alla myndina. Gallinn við frumvarpið er sá að það gerir einungis ráð fyrir útvarpsrekstri eins og hann er í dag en gerir ekki ráð fyrir ýmsum tæknibreytingum sem eru handan við hornið, til dæmis þeirri að hægt verði að sjónvarpa í gegnum dreifinet Landssímans, breiðbandið. Það þarf víst ekki útvarpsleyfi til að fara þá leiðina. Svo er það gervihnattasjónvarp. Auðvitað mundu menn skoða alla þætti málsins.

Eins má segja að menn hefðu átt að skoða þátt Ríkisútvarpsins betur og fara yfir það rækilega og gagnrýnið hvort hin langa seta Sjálfstæðisflokksins í menntamálaráðuneytinu sé farin að hafa áhrif á efnistök í ýmsum þáttum í ríkissjónvarpinu. Ég tel að rækilega ætti að fara í gegnum þá umræðu og það hvernig við getum tryggt sjálfstæði Ríkisútvarpsins og þess ágæta starfsfólks og fréttamanna sem þar vinna. Ég hefði talið það vera eðlilegt í þessari umræðu.

Ég ætla að taka undir það sem kom fram í máli hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur um að meiri hlutinn hafi sýnt gestum ákveðna lítilsvirðingu. Sérstaklega á það við gesti sem komu á fund allsherjarnefndar síðasta daginn. Þá voru allar breytingartillögur tilbúnar og nefndarálit en hvað svo sem fólkið hefði sagt þá hefði það ekki skipt miklu máli. Ég efa það. Það sem mér fannst sérkennilegast að horfa upp á var að sjá hv. þingmenn setja virðulegan háskólakennara sinn í slíka aðstöðu. Mér fannst mjög sérkennilegt að sýna fólki ekki meiri virðingu. Ég ítreka það að ekkert kallar á og enga elda þarf að slökkva og á þá vá sem hefur verið bent að sé fyrir hendi hefur hv. þm. Bjarni Benediktsson ekki sagt okkur hver sé. Ég veit að starfsmenn Norðurljósa og starfsmenn fréttastofu vita í rauninni ekki við hvaða vá er átt. Mér finnst að þeir eigi heimtingu á því að formaður allsherjarnefndar geri betur grein fyrir því hvaða vá standi hér fyrir dyrum og hvað sé lýðræðinu hættulegt. Ég tel að ef við hefðum tekið eitt ár í viðbót í þessa umræðu þá stæðum við uppi með miklu betri sátt og gætum þá tryggt raunveruleg yfirlýst markmið frumvarpsins.

Ég ætla að víkja lítillega að aðkomu framsóknarmanna að frumvarpinu. Það kemur ekki á óvart að þeir eru fáir í þingsalnum, hv. þingmenn Framsóknarflokksins. Þeir hafa nánast varla sést í þingsalnum. Ég tel að þeir hafi leikið tveim skjöldum í þessu máli. Ég tel að þeir hafi gefið í skyn að þeir væru að einhverju leyti andsnúnir frumvarpinu. Ég verð að segja það hreinskilnislega að ég varð alls ekki var við þessa andstöðu hv. þm. Framsóknarflokksins Jónínu Bjartmarz í störfum nefndarinnar. Ég sá ekki betur en hv. þm. Jónína Bjartmarz stæði heils hugar að baki hraðvirkum handarbakavinnubrögðum meiri hlutans. Það kom mér því óneitanlega á óvart að gefið var í skyn í fjölmiðlum að hún væri á báðum áttum varðandi frumvarpið. Ég taldi það að óreyndu vera hreint yfirvarp, sérstaklega í ljósi þess að hún fann landamæri ástarinnar í útlendingafrumvarpinu þrátt fyrir yfirlýsingar um annað.

Annar þáttur í þessu er að nú erum við í 2. umræðu að ræða þetta mál og það er óneitanlega sérkennilegt að ýmsar þingnefndir hafa ekki lokið störfum, bæði menntamálanefnd og efnahags- og viðskiptanefnd. Ég hefði talið eðlilegt að þær skiluðu áliti sínu og síðan héldum við umræðunni áfram. Í raun má segja að allur þessi flýtir kemur alveg stórlega á óvart. Ég sagði fyrr í umræðunni að það hefði verið lágmark að gefa hálfs mánaðar frest til þess að fara yfir breytingartillögurnar sem komu fram seint í gærkvöld. Ég tel það vera sjálfsagða skyldu alþingismanna að ganga úr skugga um að þeir séu að setja lög sem stangist ekki á við stjórnarskrá. Því má spyrja hv. þm. Bjarna Benediktsson hvað hann muni taka til bragðs ef þessi lög, sem þau eflaust gera, fara fyrir dóm og fyrir Evrópudóm og ef Ísland fær bágt fyrir, hvernig hann muni taka á því. Það væri mjög athyglisvert að heyra hv. þm. segja frá því. Hann hlýtur að hafa hugleitt það. Það hafa komið margar athugasemdir fram við frumvarpið um að það væri á mörkum ýmissa og ekki bara ýmissa heldur margra stjórnarskrárgreina íslenska lýðveldisins.

Menn hafa notað tilmæli Evrópuráðsins sem rök í umræðunni um frumvarpið og ég tek undir það að við eigum að taka tilmæli Evrópuráðsins alvarlega. Ég tel að við ættum að taka þessa umræðu en taka miklu lengri tíma í hana, ekki bara hálfan mánuð heldur að minnsta kosti eitt ár. Ég sé í rauninni ekkert vit í því að fara í þessa löggjöf og taka svo skamman tíma í það.

Fyrr í umræðunni var hv. þm. Bjarni Benediktsson ítrekað spurður út í hvaða vá standi fyrir dyrum lýðræðisins í þjóðfélaginu þó að þetta mál bíði í eitt ár. Ég hef ekki séð hana og ef maður fer yfir skoðanakannanir þá held ég að landsmenn séu mér sammála. En það er í ýmsum öðrum efnum sem við höfum fengið tilmæli frá Evrópuráðinu, meðal annars um fjármál stjórnmálaflokka. Ég hefði talið að við hv. þingmenn ættum að setja þau ofar á listann. Ég tel það ekki síður mikilvægt og ég veit að hv. þm. Bjarni Benediktsson er mér sammála. Því væri þá fróðlegt að spyrja hann hvort hann muni þá leggja ofuráherslu á að koma því máli næst í gegn að opna fjármál stjórnmálaflokkanna til að sjá hverjir hafa styrkt kvótaflokkana. Ég tel það mjög áhugaverða spurningu.

[18:15]

Í framhaldi af því má segja að hæstv. forsrh., Davíð Oddsson, sé eitthvað að átta sig á því að þetta eru mál sem þarf að hreyfa við en mér finnst hann í raun vera að drepa málinu á dreif með því að snúa umræðunni endilega eingöngu að fyrirtækjum landsmanna. Ég held að það snúist bara um gera þetta gagnsætt þannig að menn viti hverjir greiða í kosningasjóði flokkanna. Ég tel það mikilsvert. Það hefur komið fram að ýmsar kosningabaráttur hafi verið verðlaunaðar og hafi kostað gríðarlega fjármuni. Ég tel að við ættum að fara rækilega í gegnum það og ég hafna fyrirslætti eins og trúnaðarsambandi. Ég átta mig ekki á því og það væri áhugavert ef hv. þm. útskýrði þau orð. Ef ég man rétt hefur hæstv. forsrh. vitnað í eitthvert trúnaðarsamband flokksins og kjósenda og þess vegna ætti að halda því leyndu hverjir greiddu í kosningasjóðinn. Mér finnst það vera mjög sérkennileg röksemdafærsla og átta mig ekki á hvað menn eru að fara.

Að lokum ætla ég að minnast á að það er dálítið sérstakt að sjá unga hv. frelsisþingmenn Sjálfstfl. í þeim sporum að vera að berjast hatrammri baráttu fyrir höftum og heftu eignarhaldi og hertri samkeppnislöggjöf á ýmsum sviðum, sérstaklega í ljósi ýmissa ummæla sem þeir hafa haft í gegnum árin. Og ef ég má vitna í hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson þegar hann var spurður út í það, í ágætu viðtali, hvort samkeppnislög eigi rétt á sér, þá segir hv. þm., með leyfi forseta:

,,Nei, ef aðili á markaði níðist á neytendum eða öðrum aðilum á markaði eiga markaðslögmálin að fá að leiðrétta slíkt en ekki eftirlitsstofnun á vegum hins opinbera.``

Mér finnst vera svolítið sérkennilegt að lesa þetta vegna þess að nú er hv. þm. að heimta höft á eignarhald og ýmis eignarmörk, hverjir mega eiga og hverjir mega ekki eiga. Það er umhugsunarefni hvernig menn breytast frá hugsjónum sínum á skömmum tíma yfir í þjónkun við forustusveit. Mér finnst það athyglisvert, eins og einn þingmaður orðaði það fyrr í umræðunni, að vera að breytast í atkvæðamaskínu fyrir stjórnarflokkana.

Það er alvörumál sem við ræðum hér og það sem er alvarlegast í því og við stöndum nú frammi fyrir er að það hefur ekki verið gerð nein úttekt á afleiðingum frv. Við vitum í rauninni ekki hvaða afleiðingar það muni hafa fyrir Norðurljós. Við vitum það ekki og því væri æskilegt ef hv. þm. Bjarni Benediktsson kæmi í ræðupúltið og svaraði þeirri spurningu: Hefur hann gert sér grein fyrir því hverjar afleiðingar frv. munu verða fyrir það ágæta fyrirtæki og ekki eingöngu sjálft fyrirtækið, það er ekki það sem málið snýr eingöngu að, heldur starfsfólkið sem þar vinnur?

Frú forseti. Ég hef lokið máli mínu.