Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 18:20:29 (7861)

2004-05-11 18:20:29# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, BjörgvS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[18:20]

Björgvin G. Sigurðsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni fyrir ágæta og efnismikla ræðu, enda hefur hann setið í allshn. síðustu dagana og verið með í rússíbanareiðinni í gegnum þá vinnu og á þeim skamma tíma sem nefndinni var skammtað. En mig langaði að inna hv. þm. eftir áliti hans á einu máli sem kom ekki fram í ræðu hans og kom fram í fréttatíma Ríkisútvarpsins fyrr í kvöld.

Í viðtali við Gunnar Helga Kristinsson stjórnmálafræðing var hann að tjá sig um að ef þetta frv. yrði að lögum væri það mál sem uppfyllti mjög vel öll skilyrði þess að forseti Íslands beitti synjunarvaldi sínu og rökstuddi það með þeim hætti að málið uppfyllti þau skilyrði sem slíkt stórmál þyrfti að uppfylla til að vera bært til að fara fyrir dóm þjóðarinnar, að forseti ætti að vísa málinu í dóm þjóðarinnar ef stjórnvöld keyrðu það af harðfylgi í gegn til að gera þessi ólög að lögum.

Hann rökstuddi þetta með þeim hætti að frv. forsrh. um eignarhald á fjölmiðlum uppfyllti öll grundvallarskilyrði þess að stjórnskipun væri í hættu, þ.e. að vegið væri að atvinnufrelsi, eignarrétti og tjáningarfrelsi. Frv. uppfyllti öll þessi skilyrði, málið væri þess eðlis og það alvarlegt að það vegi að grundvallarstjórnskipun í landinu og væri bært til að forsetinn beitti synjunarvaldi sínu og sendi málið fyrir dóm þjóðarinnar, verði það að lögum. Því vildi ég spyrja hv. þm., sem fór yfir svo margt sem málinu viðkemur í sinni góðu ræðu áðan, álits á því hvort hann telji málið þess eðlis að forsetinn eigi að beita synjunarvaldi sínu og málið eigi að fara fyrir dóm þjóðarinnar verði það að lögum á næstu dögum.