Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 18:26:17 (7864)

2004-05-11 18:26:17# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SigurjÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[18:26]

Sigurjón Þórðarson (andsvar):

Frú forseti. Ég get tekið undir það sjónarmið að frv. er ekki eingöngu sérsniðið að heldur sérsniðið gegn Norðurljósum. Það er umhugsunarefni að við skulum standa í þvílíkri lagasetningu á hinu háa Alþingi og sérstaklega að hinir ungu þingmenn, frelsisþingmenn, skuli taka þátt í þessu. (Gripið fram í: Helsisþingmenn.) Já, yfirlýstir frelsisþingmenn sem eru í rauninni að ganga til furðulegra verka og er mjög undarlegt að horfa upp á. Ég tel að hv. þm. Bjarni Benediktsson verði að gera betur grein fyrir hvaða vá hann sjái sem standi lýðræðinu fyrir þrifum. Ég tel að það sé ekki á mínu valdi að svara því svo með óyggjandi hætti sé hvort þetta sé í rauninni plottið sem menn sjá fyrir sér í þessu máli. Ég tel það miklu frekar vera á forræði hæstv. forsrh. að gera betur grein fyrir málinu. Hann skuldar þjóðinni að gera betri grein fyrir því. Hann hefur sett þessa ungu hv. þm. í mjög erfiða stöðu. Óneitanlega hlýtur það að vera erfið staða sem þeir hv. þm. eru í að verja þau slæmu verk sem við erum að ræða í dag.