Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 18:28:06 (7865)

2004-05-11 18:28:06# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, Frsm. meiri hluta BjarnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[18:28]

Frsm. meiri hluta allshn. (Bjarni Benediktsson) (andsvar):

Frú forseti. Ég kem upp til að bregðast við þeim spurningum sem að mér var beint í ræðu hv. þm.

Í fyrsta lagi spyr hann hvað ég ætli til bragðs að taka ef á síðari stigum komi í ljós að lögin stangist í einhverjum atriðum á við Evrópurétt eða stjórnarskrá eða annað þess háttar. Því miður er það þannig að undir dómstóla verða ekki bornar lögfræðispurningar sem eiga ekki við um einstök mál sem eru raunhæf í þjóðfélaginu. Því er það svo að þessi óvissa verður alltaf til staðar að einhverju leyti. Henni verður ekki útrýmt með endalausum lögfræðiálitum, alltaf verða settir fyrirvarar um að einhver sérstök sjónarmið kunni á endanum að verða ofan á sem ekki verða séð fyrir fyrir fram. En það er einmitt af þeirri ástæðu sem meiri hluti nefndarinnar hefur lagt sérstakt kapp á að bregðast við þeim ábendingum sem nefndinni hafa borist frá sérfræðingum til þess einmitt að tryggja að sú staða komi ekki upp á síðari stigum.

Hv. þm. hefur jafnframt beint þeirri spurningu til mín hvaða áhrif lögin komi til með að hafa og spyr hvort ég geti veitt honum svar við því. Því er til að svara að markmið frv. er, eins og segir í nefndarálitinu, að sporna við því að samþjöppun eignarhalds á fjölmiðlum hamli gegn æskilegri fjölbreytni og fjölræði í fjölmiðlum og skapi þeim nauðsynlegt frelsi og sjálfstæði til að geta haft jákvæð áhrif og veitt stjórnvöldum og atvinnulífi heilbrigt aðhald. Þetta eru þau áhrif sem verið er að sækjast eftir með frv. og þetta eru þau áhrif sem ég ætlast til að lögin hafi í framkvæmd.