Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 18:31:49 (7867)

2004-05-11 18:31:49# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, Frsm. meiri hluta BjarnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[18:31]

Frsm. meiri hluta allshn. (Bjarni Benediktsson) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek eftir því að hv. þm. telur að tvær vikur til viðbótar hefðu leyst úr þeim vanda sem hann telur fyrir hendi í málinu og dugað til að koma til móts við athugasemdir sem gerðar hafa verið við hraðann á málinu. Ég verð að segja að ég er honum ósammála um það. Ég tel að á næstu tveimur vikum hefði ekki fengist endanleg niðurstaða í þeim lögfræðilegu álitaefnum sem hann vísar til. Ég ítreka það sem ég sagði í fyrri ræðu minni. Ég tel að öllum þeim atriðum hafi verið sérstaklega mætt með þeim brtt. sem meiri hlutinn leggur til.

Hvaða vá vofir yfir? spyr þingmaðurinn. Því er til að svara að til grundvallar frv. liggur ítarleg greinargerð sem lýsir þeirri vá. Það er engin tilviljun, hæstv. forseti, að öll ríki sem horft hefur verið til til samanburðar hafa sett sér sérstakar reglur um þessi efni. Það er engin tilviljun að Frakkar, Svíar, Danir, Norðmenn og fleiri ríki setja sérstakar reglur um hvernig eignarhaldi á fjölmiðlum skuli háttað eða hafi með öðrum hætti afskipti af því hvernig fjölmiðlamarkaðurinn byggist upp. Við höfum ekki haft slíkar reglur á Íslandi og nú er kominn tími til þess. Það er vegna þeirrar óvenjulega miklu samþjöppunar sem við höfum orðið vitni að á undanförnum árum. Það er váin. Það er ástæðan fyrir því að aðrar þjóðir hafa brugðist við og nú er komið að því að við gerum eitthvað í málunum.