Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 18:44:43 (7874)

2004-05-11 18:44:43# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, MÁ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[18:44]

Mörður Árnason (um fundarstjórn):

Forseti. Nú hefur komið í ljós í þessari umræðu, sem hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson, starfandi þingflokksformaður Samf., hóf, að forseti þingsins, sá sem kjörinn var, hefur ákveðið og tilkynnti þá ákvörðun á þessum fundi að verða ekki við bón hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar. Ástæðan virtist ekki koma neinum við. Ég verð að segja að ég skil ekki enn þá og hef ekki fengið neina skýringu á því að ekki var orðið við þessari bón.

Ég er ekki afgamall maður en þó er stund síðan ég byrjaði að fylgjast með þingstörfum. Maður hefur fengið þær skýringar að nefndir ynnu á milli umræðna og skiluðu af sér fyrir næstu umræðu á eftir, þ.e. milli 1. og 2. umr. og eftir atvikum milli 2. og 3., sem væri þá yfirleitt framhaldsnefndarálit. Ég hygg að það sé kallað svo í þingsköpum. Mér er fullkomlega óskiljanlegt hvernig þessu máli á að hátta og hvert menntmn. og efh.- og viðskn. --- menntmn. er ekki byrjuð á sinni umfjöllun en hin nefndin er eitthvað komin áfram --- eiga að skila álitum sínum ef af því verður. Eiga þær að skila þeim inn í 3. umr. eftir að greidd hafa verið atkvæði um brtt. við 2. umr.? Þá væri verið að gera grín að því fólki sem vinnur í menntmn. og efh.- og viðskn. Það er að sjálfsögðu verið að gera gys að því fólki sem hefur verið boðað á fundinn kl. 8.15 á morgun í menntmn., þeim sex mikilsverðu fræðimönnum og blaðamönnum sem þangað eru boðaðir. Maður skammast sín í raun fyrir að mæta á þann fund, hvernig sem andrúmsloftið verður þá eftir þessa umræðu, að heilsa upp á það fólk.

Ég verð líka að segja að í þingsköpum er fjallað um að ekki eigi að halda nefndarfundi á þingtíma. Það verður ekki gert í þetta sinn. Því skal ég lofa hér með.

Hins vegar verð ég að ljúka þessu með því að lýsa yfir vonbrigðum mínum varðandi erindi sem hér eru borin upp við forseta, ég get ekki gert að því hver sinnir þeim störfum hverju sinni, sem forseti hefur síðan lofað að setja í ákveðna meðferð, að forseti skuli ekki taka það upp hjá sjálfum sér --- ég tek það fram að ég er ekki að áminna þann sem nú situr í forsetastóli --- að skila niðurstöðum þeirra erinda til þingmanna þegar þau eru borin fram á þennan hátt. Það er sérkennilegt að hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson skuli þurfa að gera það hér en ekki forseti, annaðhvort sá sem hér situr eða sá sem til þess var kjörinn. Hvar er hann?