Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 20:02:15 (7879)

2004-05-11 20:02:15# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ISG
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[20:02]

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir:

Virðulegur forseti. Röðin átti nú ekki að vera komin að mér á þeirri mælendaskrá sem hefur verið að myndast í dag því að hér átti að tala formaður þingflokks Framsfl., hv. þm. Hjálmar Árnason, og var nú kominn tími til að eitthvað heyrðist í framsóknarmönnum í þeirri umræðu sem hér hefur farið fram. En einhverra hluta vegna ...

(Forseti (BÁ): Forseti vill upplýsa að Hjálmar Árnason þurfti að hverfa af vettvangi af persónulegum ástæðum og gerði forseta viðvart um það.)

Mér er kunnugt um að þingflokksformaður Framsfl., Hjálmar Árnason, þurfti að hverfa af vettvangi en einhverra hluta vegna vildi enginn framsóknarmaður stökkva í skarðið sem hefði kannski ekki verið óeðlilegt, að einhver hefði tekið keflið þar sem hv. þm. Hjálmar Árnason þurfti að sleppa því. En sú varð ekki raunin og við erum enn engu nær um skoðanir framsóknarmanna í málinu og þeir eru enn víðs fjarri góðu gamni í þingsalnum og hefur fjarvera þeirra úr salnum undanfarna daga verið hrópandi eins og hér hefur verið bent á.

Hægt er að hafa langt mál um þetta frv., virðulegur forseti, og það er hægt að ræða einstök efnisatriði ítarlega og öll þau lögfræðilegu álitamál sem upp hafa komið. Ég mun að einhverju leyti gera það en ég ætla þó öðru fremur að dveljast við hina pólitísku hlið málsins og ég ætla að reyna að skilja og skýra á eftir þá pólitísku hugsun --- eða eigum við kannski að segja það pólitíska ofstæki --- sem býr að baki frv. En ég ætlaði að byrja á lögfræðinni, virðulegur forseti.

Fyrst vil ég segja af því að þingmenn vinna eið að stjórnarskránni, hver og einn sem sest á Alþingi, þá hlýtur að verða að halda því hér fram og halda því til haga í umræðunni að enginn þingmaður geti með góðri samvisku haldið því fram að hann sé ekki í vafa um að frv. standist stjórnarskrána. Það þarf enginn þingmaður að halda því fram að ekki leiki á því vafi að þetta frv. standist stjórnarskrána. Við þurfum ekki annað en að hlusta á þá sem hafa tjáð sig um málið í fjölmiðlum í dag, sérfræðinga í stjórnskipunarrétti, til þess að vita að það orkar enn þá tvímælis að frv. standist stjórnarskrána. Efist þingmaður um að frv. standist stjórnarskrá er honum ekki heimilt samkvæmt þeim eiði sem hann hefur unnið að stuðla að framgangi slíks frv. Ég geri ráð fyrir því að þingmenn stjórnarliðsins á Alþingi, já-liðið á Alþingi kæri sig kollótt um það. Það er hvort eð er margdæmt fyrir það að brjóta gegn stjórnarskránni. Hvað munar það um að gera það eina ferðina enn, margdæmdu fólkinu, sem hefur brotið íslensku stjórnarskrána, mannréttindaákvæði hennar fleiri en eitt og fleiri en tvö, þó að einhver þeirra bætist við? Tjáningarfrelsið bætist nú við önnur ákvæði mannréttindagreinar stjórnarskrárinnar, og held ég að sjálfsagt sé þeim ýmsum hér bæði ljúft og skylt að brjóta þau ákvæði líka eins og önnur sem stjórnarliðið hefur staðið að.

En ég ætlaði að tala um lögfræðina í þessu sambandi og þar kemur auðvitað stjórnarskráin mjög sterkt inn í myndina. Ég segi og ítreka hér: Það hefur ekki verið eytt vafa um að frv. standist meginreglur okkar, að það standist íslenska stjórnarskrá.

Það er líka annað sem þingmenn ættu að hafa í huga, ekki bara það hvort þeir eru að brjóta lög, þau grundvallarlög íslenska ríkisins sem þeir hafa unnið eið að, þeir ættu líka að hafa það í huga hvort þeir eru að skapa ríkinu veruleg útgjöld vegna þess að það munu auðvitað koma fram verulegar kröfur um fébætur vegna málsins. Það liggur ljóst fyrir að höfðað verður dómsmál vegna þessa og að gerðar verða verulegar kröfur um fébætur. Þær fébætur munu íslenskir skattgreiðendur auðvitað greiða. Það eru íslenskir skattgreiðendur sem munu greiða þær en ekki það fólk sem mun rétta upp höndina í þingsalnum, væntanlega, þegar málið kemur á enda og samþykkja það sem í því felst. En væntanlega er því fólki líka alveg sama um það, því er alveg sama um það þó að það sé að skapa íslenska ríkinu og íslenskum skattgreiðendum skaðabótaskyldu með aðgerðum sínum á Alþingi.

Varðandi fébæturnar er hins vegar líka ástæða til að þingmenn hafi það í huga og hafi það hugfast að tjáningarfrelsi verður ekki verðlagt eða bætt fébótum. Það eru mjög sterk rök sem má leiða að því að frv. sem hér liggur fyrir brjóti gegn ákvæðum 73. gr. stjórnarskrárinnar um tjáningarfrelsi og vernd þess og einnig 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Af hverju segi ég það, af hverju segi ég að það gangi gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar um tjáningarfrelsi? Jú, vegna þess að frv. gengur lengra í skerðingarátt á tjáningarfrelsinu en hægt er að fallast á að ástæða sé til að gera, miðað við þau markmið sem menn setja sér í frv. og miðað við þau tilmæli Evrópuráðsins sem menn telja sig vera að vinna í samræmi við. Gengið er lengra í frv. í skerðingarátt en efni tilmæla Evrópuráðsins gefa tilefni til. Skerðingarnar eru ekki nauðsynlegar og þær eru ekki í samræmi við lýðræðishefð og þar af leiðandi má færa sterk rök fyrir því að verið sé að brjóta gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar um tjáningarfrelsi og vernd þess. Það má líka benda á í því sambandi að efni frv. er andstætt meðalhófsreglu stjórnarskrárinnar um að ekki skuli með almennri lagasetningu gengið lengra í skerðingu stjórnarskrárvarinna réttinda, eins og tjáningarfrelsisins, en hægt sé að komast af með til að ná lögmætu markmiði. Það kemur aftur inn á það sem ég sagði áðan um brot á stjórnarskrárákvæðum varðandi tjáningarfrelsið. Það er líka brot gegn meðalhófsreglunni vegna þess að verið er að ganga lengra en hægt er að komast af með til þess að ná því markmiði sem menn setja sér.

Af hverju segi ég þetta? Jú, vegna þess að dómar bera með sér að það er mjög líklegt að sönnunarbyrðin um það hvort meðalhófs hafi verið gætt verði færð yfir á ríkið, ríkið verði að sanna það að meðalhófs hafi verið gætt ef hægt er að færa rök fyrir því að aðrar vægari leiðir hafi verið tiltækar. Og það er hægt að færa rök fyrir því að aðrar leiðir og vægari hafi verið tiltækar. Það má m.a. benda á slíkar leiðir í skýrslu nefndar menntmrh., það má benda á slíkar leiðir í Noregi, það má benda á samkeppnislögin í því sambandi og fleira er hægt að nefna. Það má því leiða rök að því að verið sé að brjóta gegn tjáningarfrelsinu, ákvæði stjórnarskrár um það, og þetta sé andstætt meðalhófsreglu stjórnarskrárinnar. Það má líka færa rök fyrir því að efni frv. brjóti gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar. Það má líka vísa þar í samning Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi.

Að vísu er búið að gera þá breytingu á frv. núna að öllum er heimilt að fjárfesta í ljósvakamiðli, þó að hámarki 5%. Þar skilja leiðir. Allir mega fjárfesta upp að 5%, hvort sem um er að ræða markaðsráðandi fyrirtæki, stór eða lítil. En þá skilja leiðir. Í breytingunni er notuð sú lógík Orwells að sagt er að allir séu jafnir, bara sumir jafnari en aðrir. Allir mega svo hins vegar kaupa að 25% nema markaðsráðandi fyrirtæki með 2 milljarða í veltu. Allir upp að 5%, en eftir að því marki er náð mega fyrirtæki sem eru með yfir 5 milljarða í veltu og eru markaðsráðandi á sínum markaði ekki kaupa meira, en aðrir mega fara upp í 25%. (Gripið fram í: Yfir 2 milljarða.) Yfir 2 milljarða, fyrirgefðu, virðulegur þingmaður, ég mismælti mig, 2 milljarða. Færa má rök fyrir því að í raun sé gengið lengra gegn jafnræðissjónarmiðum en var í frv. eins og það var lagt fram, að það sé gengið lengra núna gegn jafnræðissjónarmiðum þar sem takmörkunin tekur ljóslega til enn afmarkaðri hóps fyrirtækja en var. Og af því að stundum hefur verið talað um leysigeislaákvæði í lögum þá var reynt að setja slíkt leysigeislaákvæði í bandarísk lög einhvern tíma af því að því var ætlað með mikilli nákvæmni að hitta fyrir einn tiltekinn aðila. Það var að sjálfsögðu dæmt ólögmætt að standa þannig að málum í Bandaríkjunum. Það má segja að í þessu frv. sé slíkt leysigeislaákvæði, þ.e. búið er að sérhanna ákvæði sem á að hitta fyrir alveg tiltekinn aðila með tiltölulega mikilli nákvæmni og það er búið að koma öllum öðrum fyrir í ákveðið skjól og ákveðið var, sem hefðu hugsanlega getað orðið fyrir ákvæðinu eins og það var þegar frv. var lagt fram. Það má því færa rök fyrir því að verið sé með enn ríkari hætti núna eftir breytinguna að brjóta gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar. Það má líka færa rök fyrir því, virðulegur forseti, að efni frv. feli í sér afturvirka skerðingu á eignarréttindum sem brjóti þá gegn 72. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttarins.

Af hverju segi ég þetta? Jú, vegna þess að það hefur ekki orðið nein eðlisbreyting á frv. þótt aðeins sé lengt í hengingarólinni. Eftir stendur að fyrirtækjum --- og ég get alveg nefnt Norðurljós í því samhengi vegna þess að það fyrirtæki hefur svo sem alltaf verið undir og það er engin ástæða til þess að vera að fara hér eins og köttur í kringum heitan graut í þingsalnum, það hefur fengið ýmis leyfi, sjónvarpsleyfi, sem sum hver gilda fram yfir 1. júní 2006 þegar lögin eiga að taka gildi. Þau leyfi munu falla niður við gildistöku laganna ef fyrirtækinu hefur ekki verið komið í það horf sem lögmælt er fyrir um ef frv. verður að lögum, þ.e. þá falla þau leyfi úr gildi sem hafa í sjálfu sér gildistíma fram yfir 1. júní 2006 ef ekki verður búið að breyta fyrirtækinu með þessum hætti.

Það kom skýrt fram á fundi nefndarinnar með sérfræðingum í stjórnskipunarrétti, Sigurði Líndal, Björgu Thorarensen, Ragnhildi Helgadóttur, að ef menn vildu vera vissir um að frv. fæli ekki í sér afturvirka skerðingu á eignarréttindum og þar með brot gegn friðhelgi eignarréttar í stjórnarskránni, ættu leyfin að falla úr gildi miðað við þann gildistíma sem á þeim er, þ.e. að þegar þar að kemur falli þau bara úr gildi og menn þurfi að endurnýja þau samkvæmt nýjum lögum, en fyrr ekki, þannig að þau leyfi sem í gildi eru núna fái að lifa sitt skeið en síðan þegar til endurnýjunar kemur eða úthlutunar á öðrum leyfum verði að uppfylla þau lög sem þá eru í gildi. Þetta hefur komið fram hjá nefndinni, þetta hefur komið fram núna í fjölmiðlum, þetta álit sérfræðinga í stjórnarskipunarlögum um að frv. standist ekki hvað þetta varðar.

[20:15]

Þá má færa sterk rök fyrir því að efni frv. sé þrátt fyrir breytinguna ósamþýðanlegt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, þ.e. stangist á við réttarreglur á Evrópska efnahagssvæðinu. Fyrir því eru þau rök að í frv. eftir breytinguna felist svo miklar hömlur á heimildir einstaklinga og fyrirtækja innan Evrópska efnahagssvæðisins til þess að stofna fjölmiðlafyrirtæki hér á landi eða fjárfesta í fjölmiðlafyrirtækjum að það sé meira en hægt sé að samræma reglum Evrópska efnahagssvæðisins um staðfesturétt, um frjálsa þjónustustarfsemi og um frjálsa fjármagnsflutninga. Þessi þrjú ákvæði koma öll þar til skoðunar.

Í sjálfu sér hefur ekki orðið nein eðlisbreyting á frv. hvað þetta varðar og má færa, eins og ég segi, sterk rök fyrir því að það stangist enn á við réttarreglur á Evrópska efnahagssvæðinu.

Ég hef nefnt hérna helstu þætti sem frv. í sinni upprunalegu mynd stangaðist á við í lagaumhverfi okkar samkvæmt réttarreglum og stjórnarskrá en loks vil ég nefna að verulega skortir á að undirbúningur þessarar lagasetningar geti talist fullnægjandi. Hann var ófullnægjandi þegar frv. var lagt fram og er það enn. Það má segja að lok málsins í allshn. styrki þetta enn frekar, það sjónarmið að það skorti á undirbúning þessarar lagasetningar.

Hér er verið að leggja fram og tala fyrir breytingum í þinginu. Það hefur komið fram í umræðum að auðvitað hefði verið sjálfsagt að heyra sjónarmið þeirra sem þessum breytingum var ætlað koma til móts við. Því hefur verið haldið fram í hinni opinberu umræðu að verið sé að gera breytingar til að koma til móts við þau sjónarmið sem fram voru sett, m.a. af sérfræðingum í stjórnskipunarrétti, og athugasemdir gerðar við frv. eins og það lá fyrir. Hefði þá ekki verið eðlilegt og kurteisi að spyrja þessa aðila hvort svo væri?

Við vorum með þrjá sérfræðinga, þrjá háskólakennara, á fundi nefndarinnar í gær, frá klukkan fimm til líklega að verða hálfátta, og við fórum yfir frv. Þeim var boðið upp á það að fara yfir frv. óbreytt meðan meiri hlutinn í nefndinni sat með í vasanum tillögur til breytinga á þessu frv. og vissi nákvæmlega hvernig þetta átti allt saman að líta út á endanum. Það er auðvitað ekkert annað en skrípaleikur og dónaskapur að bjóða sérfræðingum upp á svona meðhöndlun á hv. Alþingi.

Undirbúningur málsins var ekki fullnægjandi vegna þess að vandamálið var aldrei skilgreint, vandamálið var aldrei rannsakað. Áður en ráðist er í tillögusmíð hefði auðvitað þurft að komast að þeirri niðurstöðu að samþjöppun á fjölmiðlamarkaði hamlaði gegn æskilegri fjölbreytni í fjölmiðlun á Íslandi. Það hefði auðvitað þurft að komast að því með einhverjum rökum og einhverjum óyggjandi hætti að því væri þannig farið á íslenskum fjölmiðlamarkaði, eins og segir í byrjun athugasemda með upprunalega frv.

Sú niðurstaða var hins vegar ekki fengin með neinum rökum. Forsenda frv. ber það með sér að tilgangurinn sé að stuðla að fjölbreytni í fjölmiðlun og henni verði ekki náð án fjölbreytni í eignarhaldi. Athugun málsins bendir hins vegar öll til þess að lögfesting þessara reglna geri rekstur og öflun áhættufjár erfiðari og sé því líkleg til þess að ganga gegn tilgangi sínum, þ.e. það verði erfiðara að halda úti öflugum innlendum ljósvakafjölmiðlum með góðri innlendri dagskrárgerð og fréttaflutningi vegna þess að frv. takmarkar aðgang þeirra að fjármunum. Það vita allir að það að halda úti sjónvarpsstöð af einhverjum metnaði er kostnaðarsamt fyrirtæki.

Það kemur m.a. fram í ágætri grein eftir Pál Þórhallsson í Morgunblaðinu, þann 2. maí sl. minnir mig, að ákveðin samþjöppun á þessum markaði njóti skilnings í Evrópuráðinu. Menn gera sér grein fyrir því að það er kostnaðarsöm starfsemi að halda úti ljósvakamiðli þannig að hann geti stuðlað að menningarlegri fjölbreytni og lýðræðislegri umræðu og sé ekki bara eins og hver önnur vídeóstöð, rekin af einkaaðilum eða ríkinu. Við vitum að ríkisfjölmiðlar og einkafjölmiðlar þurfa verulegt fjármagn til þess að geta staðið undir metnaðarfullri framleiðslu.

Ég sagðist ætla að tala ekki bara um hin lögfræðilegu atriði og ég ætla ekki að verja miklu meiri tíma í þau. Ég ætla þó að minnast bara lítillega á samþykktir og tilmæli Evrópuráðsins. Skyndilega hefur vaknað svo mikill áhugi á Evrópuráðinu og tilmælum þess hjá stjórnarþingmönnum. Nú er ekki þverfótandi hér fyrir ráðherrum og þingmönnum sem hafa allt í einu vaknað upp við vondan draum og tala nú hver um annan þveran um þjóðréttarlegar skuldbindingar okkar, gott ef ekki bara að það sé lögmælt að við skulum fara eftir þeim samþykktum sem Evrópuráðið hefur gert. Þar gekk nú fremst í flokki hæstv. menntmrh. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sem talaði, eins og ég hef orðað það, af miklu öryggi en lítilli þekkingu um samþykktir Evrópuráðsins og þá vinnu sem þar hefur farið fram um vettvang fjölmiðla. Evrópuráðið hefur fjallað um þessi mál frá 1988. Evrópuráðið hefur gert fjölmargar samþykktir um fjölmiðla, beint tilmælum til ríkisstjórna, sýnt fram á hvaða leiðir mætti fara og hverjar mætti hafa til viðmiðunar. Mönnum hefur bara verið nokk sama um það hingað til, mönnum í Sjálfstfl. og Framsfl. og þeim menntamálaráðherrum sem hafa setið á stóli hingað til.

Nú skyndilega er farið að tala um þessar þjóðréttarlegu skuldbindingar, eins og þær eru orðaðar, með þeim hætti að okkur beri bara hreinlega skylda til þess að setja þau lög sem hér er um að ræða og setja hin íþyngjandi ákvæði inn í lögin. Það er auðvitað alls ekki rétt og þarf ekki að fara frekari orðum um það.

Ábendingar í samþykktunum og tilmæli sem þar hafa komið fram allt frá árinu 1989 eru hins vegar að mörgu leyti hin ágætustu gögn og við hefðum mátt vera búin að taka tillit til þeirra fyrir lifandis löngu. Við hefðum líka mátt vera búin að koma hér á auknu sjálfstæði fjölmiðlanna, sjálfstæðu útvarpsráði í stað þess að hafa það alltaf pólitískt skipað af meiri hlutanum og að það sæi um ráðningar á fréttamönnum og við hefðum mátt vera búin að koma því á með því að auka verkefni og eftirlit útvarpsréttarnefndar. Við hefðum mátt vera búin að koma því á með því að tryggja gagnsæi varðandi eignarhald á fjölmiðlum, með því að setja ákveðna múra á milli eigenda og ritstjórna blaða og ljósvakamiðla og með því að koma hér upp ákveðnum siðareglum í starfsemi hjá fjölmiðlum. Svona gæti ég áfram talið því að það er margt sem Evrópuráðið hefur látið frá sér fara um þessi efni sem við hefðum mátt taka mið af en höfum bara ekki gert vegna þess að stjórnvöldum hér á landi hefur verið nákvæmlega sama um þessi ákvæði og tilmæli. Það þýðir ekki að bjóða okkur núna upp á tal um þjóðréttarlegar skuldbindingar.

Þá að pólitíkinni. Auðvitað er það mál sem við erum að ræða um pólitískt í eðli sínu. Þetta er ekki lögfræði nema bara að formi til af því að þetta kemur hér fram sem frv. sem þarf að standast ákveðnar lagareglur, ákveðin grundvallarviðhorf sem gilda í íslensku og evrópsku réttarfari. En þetta er ekki lögfræði, þetta er pólitík og við eigum einmitt að tala um það á þeim nótum.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, og við þurfum ekkert heldur að vera að fara þar eins og kettir í kringum heitan graut, að forsrh. er mjög uppsigað við tiltekna einstaklinga í okkar samfélagi. Þegar málum er þannig farið, og það hefur alltaf verið þannig, að forsrh. er uppsigað við einhverja í íslensku samfélagi fá allir sem þeim tengjast að kenna á því. Menn eru bara annaðhvort með honum eða á móti honum, það er ekkert þar á milli.

Fólk hefur mátt búa við það að troðnar séu illsakir við einstaklinga í samfélaginu með hætti sem enginn sómakær ráðamaður getur leyft sér. Það má segja að þessi afstaða forsrh. hafi eyðilagt hvert málið hér á fætur öðru, þ.e. það er engin leið fyrir almenning í landinu að átta sig á því hvar málefnalegum sjónarmiðum sleppir og annarleg sjónarmið taka við. Það er engin leið að greina þar á milli og engin leið fyrir almenning að átta sig á því hvort annarleg sjónarmið eru á ferðinni eða málefnaleg. Það á m.a. við í fjölmiðlamálinu hér vegna þess hvernig menn hafa talað. Við skulum fara aðeins yfir það.

Þegar ég horfi á og fylgist með samskiptum, skulum við segja, forsrh. og Baugs og þeirra sem þar eru í forsvari dettur mér stundum í hug sagan sem sjálfsagt einhverjir hér þekkja og sem heitir, ef ég man rétt, Tryggur staður og er eftir Halldór Kiljan Laxness. Ég hygg að ef forsrh. hefði verið hér í salnum hefði komið fram að hann þekkir eflaust þá sögu --- það getur líka vel verið að hann sé hérna einhvers staðar frammi --- vegna þess að góðvinur hans, Hannes Hólmsteinn Gissurarson, fór mjög frjálslega með hana í nýútkominni bók sinni um ævi nóbelsskáldsins. Sagan um hinn trygga stað segir frá hundi og ketti á bænum þar sem Dóri litli ólst upp og hundinum og kettinum var mjög uppsigað hvorum við annan. Þeir kunnu þó að sýna öðrum þá tillitssemi að taka á sig stóran krók ef þeir urðu hvor á vegi annars til þess, eins og segir í bókinni, að firra fólkið á bænum vandræðum af bágu samkomulagi þeirra.

Ég hygg að það sé tímabært að forsrh. reyni að ná slíku samkomulagi við stjórnendur Baugs og að þessir aðilar leggi svolitla lykkju á leið sína til að firra fólkið í landinu vandræðum af bágu samkomulagi. Þar verður maður auðvitað að segja að eftir höfðinu dansa limirnir og hvað höfðingjarnir hafast að, hinir meina sér leyfist það. Þess vegna verður forsrh. í þessu efni að sýna gott fordæmi og firra okkur vandræðum af þessu bága samkomulagi. Þetta er heimilisvandi Sjálfstfl. og auðvitað valdabarátta í Valhöll því að allt er þetta fólk meira og minna, eða var a.m.k. til skamms tíma, í Sjálfstfl. Þetta er fólki úr öðrum flokkum algjörlega óviðkomandi nema hvað það er dregið inn í deilur um það hvort menn þar á bæ séu í Sjálfstfl. eða Baugi.

Bíðum við, er þetta það sem íslenskt samfélag snýst um, hvort menn séu í Sjálfstfl. eða í Baugi? Ætla menn að kvitta upp á þetta hér á hinu háa Alþingi að það sé hinn íslenski veruleiki í dag, að það séu bara þessar tvær víddir í veröldinni, Sjálfstfl. eða Baugur? Ég held að við hér flest hver mundum ekki vilja fallast á þá skilgreiningu, erum í hvorugum flokknum, með leyfi forseta.

Auðvitað er það þetta ósamkomulag sem liggur málinu til grundvallar. Það verður að segja hlutina eins og þeir eru.

Morgunblaðið hefur margsinnis bent á það að í svona deilu hafi stjórnmálamennirnir og Alþingi undirtökin í samskiptunum. Það er margbúið að benda alþingismönnum á að þeir hafi undirtökin í svona málum. Þeir hafa undirtökin í samskiptum við viðskiptalífið, rétt eins og í samskiptum við alla sem þarf að beygja undir vilja ráðamanna. Við höfum svo oft fylgst með því hér hvernig menn hafa verið beygðir undir vilja ráðamanna. Alþingi hefur lagasetningarvaldið og nú á að beita því. Ráðamenn eru staðráðnir í því að láta vilja sinn ná fram að ganga.

Ég var spurð að því úti á gangstétt áðan hvernig á því stæði að menn gætu ekki náð saman í þessu máli úr því að allir væru þeirrar skoðunar að tryggja þyrfti fjölbreytni, lýðræði, gagnsæi, sjálfstæði o.s.frv., eins og við höfum öll verið að tala um hérna. Bíðum við, hvernig stendur á því að menn geta þá ekki náð saman ef allir eru svona sammála um markmiðið, að tryggja lýðræði og fjölbreytni í fjölmiðlun?

Ég heyrði hv. þm. Bjarna Benediktsson, formann allshn., leggja áherslu á það í ræðustól í dag að allir á þingi væru sammála um markmið frv. og það væri svo merkilegt að allir umsagnaraðilar væru sammála um markmið frv. Við erum líka öll svona nokkuð sammála um að við viljum hafa samfélagið sæmilega gott og þarf engan að undra það og er kannski ekki í frásögur færandi á Alþingi. Spurningin er þá: Hvernig ætla menn að ná því fram, hvernig ætla menn að standa að verki?

[20:30]

Ekki er öll sagan sögð með því að allir séu sammála um markmið frv., þ.e. að tryggja fjölbreytni. Markmiðið er bara í orði kveðnu að tryggja fjölbreytni. Í raun er markmiðið að stöðva tiltekið ástand, þagga niður í tilteknum aðilum og koma tilteknum fjölmiðlum í hendur nýrra aðila. Þar skilja leiðir milli stjórnarþingmanna, sem vilja standa að sértækum lögum sem skerða réttarstöðu ákveðinna aðila, og okkar hinna sem teljum að allir eigi að vera jafnir fyrir lögunum og lög eigi ekki að snúa að tilteknum einstaklingum, allt að því nafngreindum. Þingmenn eiga ekki að leggja lykkju á leið sína til að snúa niður fólk eða fyrirtæki með lagasetningu. Það getur ekki verið í verkahring þingmanna að beina spjótum sínum eða leysigeislum að tilteknum einstaklingum eða tilteknum fyrirtækjum. Við eigum að setja almenn lög, almennar lýðræðislegar leikreglur en ekki sértækar eins og hér er verið að gera.

Við höfum mátt sæta því, sérstaklega af hálfu stjórnarþingmanna, við sem erum í stjórnarandstöðunni og tilheyrum flokkum sem kenna sig við jafnaðarmennsku, að vera núið því um nasir að við séum að ganga erinda auðvaldsins, við séum öll komin í Baug. Var ekki forsrh. að tala um það í kvöldfréttunum, morgunfréttunum og hádegisfréttunum, í öllum fréttum, að við værum öll gengin í Baug og við gengjum öll erinda auðvaldsins? Það er auðvitað dapurleg afstaða að menn tali og spyrji með þessum hætti. Þeir sem spyrja á þann hátt hafa aldrei skilið hvað felst í borgaralegum réttindum eins og málfrelsi og atvinnufrelsi. Þeir telja að ríkisvaldið --- þ.e. þegar þeir fara með ríkisvaldið --- hafi mjög víðtækt frelsi til að taka stjórnarskrárvarin réttindi af fólki. Við höfum séð þau dæmi og menn eru ekkert órólegir þó að þeir séu eina ferðina enn að leggja upp í slíkan leiðangur.

Það er dálítið undarlegt að þeir menn sem tala óskaplega mikið um þjóðfrelsi, ég vona að þið hafið tekið eftir því hvað þeir eru uppteknir af þjóðfrelsinu, telja að þjóðfrelsinu stafi veruleg ógn fyrst og fremst og ekki síst af ESB, Evrópusambandinu.

Það má segja að hjá þjóðinni sé nokkur ríkur skilningur á því að þjóðfrelsi skipti máli, það sé mikilvægt og það verði að standa vörð um það og skerða ekki meira en nauðsyn krefur. En þegar kemur svo að rétti einstaklingsins, hinum borgaralegum réttindum --- réttindum sem íslensk þjóð þurfti reyndar aldrei að berjast fyrir, menn þurftu aldrei að berjast fyrir borgaralegum réttindum en þeir börðust fyrir þjóðfrelsinu --- þá er eins og eitthvað hafi misfarist í lýðræðisuppeldinu. Þeir sem hafa kannski talið sig fremsta í flokki, frelsisflokknum, við að verja frelsi einstaklingsins umgangast það ekki eins og borgaraleg réttindi. Þeir umgangast það ekki eins og frelsið sem felst í því að gera rétt og þola ei órétt. Nei, þeir umgangast það eins og frekjufrelsi. Frekjufrelsi nýfrjálshyggjunnar, það er það sem þeir þekkja. En hin borgaralegu réttindi og þann rétt sem felst í því frelsi að gera rétt og þola ei órétt, það þekkja þeir ekki. Þau hugtök þekkja þeir ekki.

Það er merkilegt að ég skuli þurfa að standa hér og segja sjálfstæðisfólki þessi sannindi, fólki sem er alið upp í Sjálfstfl. Ég hef velt því fyrir mér hvernig stendur á því að þannig skuli komið, ekki síst fyrir ungum sjálfstæðismönnum. Ég ætla bara að segja það eins og það er, að það er uppeldinu að kenna. Það er ekki uppeldinu heima að kenna heldur uppeldinu í Sjálfstfl. að kenna. Það er skelfilega vond uppeldisstöð og hefur verið skelfilega vond uppeldisstöð síðustu 10--20 árin.

Það segir manni talsvert um hvaða hefð og hvaða pólitíska menning hefur skapast í Sjálfstfl. og ríkisstjórninni í tíð núverandi forustu. Það nöturlega við þessa hefð, þessa pólitísku menningu, er þó að þeir sem nú fara fyrir flokknum, þótt þeirra tíma ljúki, þeir hætti --- sem þeir gera von bráðar, sumir hverjir og sjálfsagt flestir hverjir --- þá lifir menningin sem þeir hafa búið til í flokknum. Hefðin lifir meðal þeirra sem voru aldir upp í henni. Það er hið nöturlega í þessu máli. Það er komin heil kynslóð af ungu fólki í Sjálfstfl. sem hefur alist upp í frekjufrelsi nýfrjálshyggjunnar og stjórnlyndi núverandi ríkisstjórnar, forustu Sjálfstfl. og forustu ríkisstjórnarinnar. Þetta tvennt er ekki góð blanda.

Það er engin tilviljun að dómsmrh. segi, þegar hann skipar í Hæstarétt án þess að hafa staðið þar rétt að málum og hefur verið staðinn að því að brjóta ekki bara ein lög og ekki bara tvenn lög, heldur þrenn lög, að ákvörðun hans hafi verið hafin yfir gagnrýni. Ákvörðun hans var hafin yfir gagnrýni, sagði hann í fjölmiðlum, við okkur hér og þjóðina: Ég tók ákvörðun á málefnalegum forsendum og hún er hafin yfir gagnrýni. Það er auðvitað engin tilviljun að menn tali svona.

Það er heldur engin tilviljun þegar ungur þingmaður úr Framsfl., Páll Magnússon, kemur upp í 1. umr. um þetta mál og segir: Bíddu, af hverju ættum við að vera að hlusta á ykkur í stjórnarandstöðunni? Bíddu við, rifjaðu það upp fyrir mér, af hverju ættum við að vera að hlusta á ykkur í stjórnarandstöðunni? Við þurfum það ekkert, við þurfum ekkert að hlusta á ykkur. Þetta er lýðræðishugmyndin sem þarna er á ferðinni. Lýðræðishugmynd þessara manna er: Við ráðum, við tökum ákvarðanirnar vegna þess að við förum með meiri hlutann. Lýðræðið felst ekki í ferli, það felst ekki í umræðu, það felst ekki í því að hlusta á aðra og hlusta á önnur sjónarmið.

Í nál. meiri hlutans, virðulegur forseti, er sagt að löggjafinn megi í þágu almannahagsmuna grípa til aðgerða, eins og stendur, til að vernda lýðræðislega umræðu og fjölbreytni. Til þess að vernda lýðræðislega umræðu og fjölbreytni má löggjafinn grípa til aðgerða.

Þetta er rétt, þetta má löggjafinn auðvitað gera. Hann má grípa til aðgerða í þágu almannahagsmuna til að vernda lýðræðislega umræðu og fjölbreytni. Það er líka rétt að löggjafinn má bregðast hratt við og hann má beita meirihlutavaldi sínu til að keyra mál hratt í gegnum þingið ef vá er fyrir dyrum. Ef vá er fyrir dyrum getur meiri hluti á þingi þurft að gera það. Hann getur þurft að beita meirihlutavaldi sínu og taka mál hratt í gegnum þingið.

Ef slökkva þarf elda sem, ef þeir fengju að brenna, gætu skaðað verulega almannahagsmuni þá má þetta. Um það er ekki deilt. En það er grundvallaratriði að löggjafinn rökstyðji á sannfærandi hátt af hverju grípa þarf til íþyngjandi aðgerða sem njóta einskis stuðnings í samfélaginu og þvinga þeim upp á íslenskt samfélag án þess að nokkur vá sé fyrir dyrum.

Löggjafinn má ekki beita valdi sínu bara af því að hann hefur það. Ákvörðun verður ekki málefnaleg við það eitt að valdhafinn beiti valdi sínu. Þetta var sagt svo ágætlega í áliti umboðsmanns Alþingis um skipan hæstaréttardómarans, af því að hæstv. dómsmrh. hafði haldið því fram að þar hefðu verið málefnaleg sjónarmið ráðið skipan hans. Þá segir í umsögn umboðsmanns Alþingi, með leyfi forseta, eitthvað á leið að sjónarmið verði ekki málefnaleg eða að vald verði ekki málefnalegt við það eitt að veitingarvaldshafinn beiti því valdi sem hann hefur. Það er ekkert málefnalegt við það.

Hið sama gildir í þessu tilviki. Ákvörðun á Alþingi verður ekki málefnaleg við það eitt að valdhafinn beiti valdi sínu. Ef gripið er til íþyngjandi aðgerða, sem koma sannarlega niður á tilteknum aðilum hljóta menn að verða að færa sannfærandi rök fyrir því að þær séu nauðsynlegar. Valdinu eru nefnilega takmörk sett.

Þá spyr maður: Hvar brennur, hvaða elda þarf að slökkva? Ég held að við fáum bestu vitneskjuna um það með því að hlusta á hæstv. forsrh. í fjölmiðlum eða lesa það sem eftir honum er haft þar. Í Viðskiptablaðinu 5. maí, bara tveimur dögum eftir að mælt var fyrir frv., viðtalið er reyndar tekið við hæstv. forsrh. áður en hann mælir fyrir frv., þá segir hæstv. forsrh., með leyfi forseta:

,,Ef einhver hefur velkst í vafa um það að fjölmiðlar kynnu að verða misnotaðir í þágu eigenda sinna þá hafa allir fyrir framan sig einhver hrikalegustu dæmi um það sem við höfum séð, ekki bara á Íslandi heldur í þessum heimshluta.``

Bíðum við, hvar hefur forsætisráðherra alið manninn? Óskaplega eru menn kvartsárir, sjálfhverfir og uppteknir af sjálfum sér og því sem um þá er sagt. Halda menn hér á hinu háa Alþingi að það sé ekki fjallað með mjög afgerandi og gagnrýnum hætti um valdamenn í öðrum samfélögum í fjölmiðlum þar? Að sjálfsögðu, enda á það að vera í verkahring fjölmiðla að hafa eftirlit með valdhöfum í landinu. Þar hljóta auðvitað þeir sem fara með framkvæmdarvaldið að vera til sérstakrar skoðunar og vera undir sérstöku rannsóknarljósi. Það gefur augaleið.

Ég skil ekki hvernig menn, sem hafa þau völd sem þeir er sitja í ríkisstjórninni hafa, geta leyft sér að vera svona kvartsárir, svona hörundssárir og svo uppteknir af þeim spjótum sem að þeim beinast.

Gagnvart okkur hinum hefur það birst þannig að m.a. forsrh., kannski hann einna helst, hefur að jafnaði fengið þá meðferð í fjölmiðlum að fjölmiðlamenn hafa verið eins og mýs undir fjalarketti þegar þeir tala við hann, þegar ráðherranum þóknast að stíga niður af stalli sínum og tala við þá undir fjögur augu. Aldrei er það nema undir fjögur augu og þá eru þeir eins og mýs undir fjalarketti. Þetta hefur verið sú mynd sem við okkur hefur blasað. Við höfum svo sem ekki verið að kvarta sérstaklega undan því. Við höfum bara búið við þetta. Það hefur eiginlega þurft sérstaka kjarkmenn í fjölmiðlastétt til að ganga hart fram í að spyrja ráðherrann eins og aðra stjórnmálamenn. Menn hafa haft það sérstaklega á orði ef einhver fjölmiðlamaður er dálítið upplitsdjarfur og ágengur. Þá er alveg sérstaklega á orði haft hvaða óskaplegi kjarkmaður þar sé á ferðinni. Hann eigi greinilega ekki mikið undir í þessum efnum.

Ég spurði áðan: Hvar brennur? Svarið er: Það brennur hjá ríkisstjórninni. Þar er bruninn. Hún brennur í skinninu að koma böndum á þá sem gagnrýna hana, þá sem voga sér að standa uppi í hárinu á henni. Þeir skulu nokk fá að kenna á því, þeir skulu engu ná fram. Og við --- svo ég leyfi mér að orða það þannig, virðulegur forseti, þó að það sé varla við hæfi í þessum þingsal --- þessar druslur hér í stjórnarandstöðunni á þingi --- það er viðhorfið hjá stjórnarliðinu --- skulum ekki láta okkur dreyma um að við höfum eitthvað að segja, fáum einhverju ráðið, hvort heldur sem er um efni, form eða meðferð þessa máls. Við skulum ekki láta okkur dreyma um það.

Nei, nú á að keyra málið áfram í dag og á morgun, gera það að lögum og engum hleypa að fyrr en því verki er lokið. Nú liggur mikið við. Nú má enginn bregðast og enginn gangast undan merkjum því að það liggur mikið við að klára þetta mál. Það er bruni hjá ríkisstjórninni, það er bruni.

Það má einu gilda hversu mikilvæg önnur mál eru sem bíða afgreiðslu því að þetta mál hefur algjöran forgang. Þetta lagafrv. sem á að taka gildi eftir tvö ár hefur algjöran forgang. Hér skal sko engu eirt og hér skal sko engum hleypt út og ekkert afgreitt fyrr en þetta mál hefur verið afgreitt í þinginu. Hvers vegna? Það vita allir hvers vegna og ég þarf ekki að svara því hér í þessum ræðustól.

Það er engin sú ógn eða vá yfirvofandi í íslensku samfélagi, þó að upplifunin sé greinilega þannig á stjórnarheimilinu, sem getur réttlætt að veita þessu máli slíka meðferð hér á þingi. Það upplifir það enginn í íslensku samfélagi nema þeir sem sitja í ríkisstjórninni og eru á stjórnarheimilinu. Þar er váin, þar er ógnin, þar brennur eldurinn en hvergi annars staðar. Og þá skal engu eirt og við skulum nokk klára málið áður en nokkuð annað gerist í pólitík.

[20:45]

Þetta snýst um það að sýna öllum í tvo heimana, sýna hver ræður.

Virðulegur forseti. Ég leyfi mér að kalla þetta óðagot og þetta er auðvitað óskiljanlegt öllu venjulegu fólki. Ráðamenn eru meira að segja orðnir svo viðskila við þjóð sína að þeir geta ekki einu sinni talað við hana. Þeir geta ekki skýrt þetta út fyrir henni. Þeir kunna ekki rökin til þess. Þeir geta ekki beitt rökum til þess að sannfæra hana um réttmæti þess sem þeir eru að gera eða þá að þeir vilja það ekki. Fólk er satt að segja talsvert magnþrota yfir því sem gengur á á Alþingi og yfir þeim málatilbúnaði og yfir þeirri framgöngu sem stjórnarliðar standa fyrir á hinu háa Alþingi. Fólk er magnþrota yfir þessu. Það veit að það á þetta ekki skilið, ekki þessa framkomu.

Ég ætla að leyfa mér að segja það, virðulegur forseti, að hér geri ég engan greinarmun á framsóknarmönnum og sjálfstæðismönnum og ég geri engan greinarmun á unga fólkinu í stjórnarliðinu eða hinum sem meiri reynslu hafa. Í rauninni er kannski unga fólkið enn verra en hinir sem eldri eru, sem eru þó svolítið skömmustulegir sumir hverjir, (Gripið fram í: Jónína, hún er skömmustuleg.) --- til dæmis --- leggja kollhúfur og bera kinnroða yfir málinu. En unga fólkið hér, nei takk, það er svo vel upp alið í Sjálfstæðisflokknum á síðastliðnum 10--20 árum að það hefur ekki miklar áhyggjur af því sem hér er að fara fram.

Ég sagði að ég gerði engan greinarmun á framsóknarmönnum og sjálfstæðismönnum. Pólitíkin er oft dálítið sérkennilega bernsk og ég notaði það orð í dag vegna þess að pólitíkin er oft dálítið sérkennilega bernsk og kannski þegar til á að taka eru að verki í eðli sínu sömu lögmál í pólitíkinni og eru bara á skólalóðinni í grunnskólum borgarinnar. Það er sama hegðunarmunstur að mörgu leyti, sömu áhrifavaldar, sama munstur í gangi. Þegar ég segi þetta finnst mér nefnilega framsóknarmenn stundum vera eins og krakkar sem taka þátt í einelti. Þeir eru sko ekki alveg með. Þeir standa svona álengdar á hliðarlínunni, fylgjast með forsprakkanum, finnst forsprakkinn flottur, finnst forsprakkinn uppátækjasamur, skemmtilegur, fyndinn, það er gaman að vera með honum, það er gaman að vera í liðinu. Hafið þið ekki heyrt þetta? Það er svo gaman að vera í liðinu. Það er svo gaman að vera í liðinu, horfa álengdar, standa á hliðarlínunni og fylgjast með hvað þarna er að gerast.

En svo þegar menn þurfa að standa reikningsskil gerða sinna, þegar þeir eru spurðir hvað þeir hafi verið að aðhafast, nei, þá voru það ekki þeir, það voru hinir sem voru að verki, það var forsprakkinn sem var að verki, ekki þeir, þeir stóðu bara álengdar.

Þannig birtast framsóknarmenn okkur í fjölmiðlunum núna. Ég hlýt að spyrja hvort þetta hafi verið leiðangurinn sem kjósendur Framsóknarflokksins sendu flokkinn sinn í. Varð þetta leiðangurinn sem Framsóknarflokkurinn var sendur í? Er það svona sem menn vilja vinna?

Okkur hefur verið sagt að það liggi svona mikið á í þessu máli vegna þess að fyrirtækin og starfsfólkið sem þetta muni ná til þurfi að vita í hvaða starfsumhverfi þau vinni, það þurfi að létta óvissu þeirra, það þurfi að létta þeim róðurinn þannig að þau viti nú í hvaða umhverfi þau eigi að starfa. Þvílíkt bull, virðulegur forseti. Ég leyfi mér að taka þannig til orða.

Þingmeirihlutanum er nákvæmlega sama um fyrirtækin sem fyrir þessu verða og nákvæmlega sama um starfsöryggi þeirra sem þar starfa. Hraðinn er í óþökk þessa fólks. Það vitum við öll. Þetta fólk er búið að koma inn á fundi allsherjarnefndar og biðja okkur um að hafa ekki þennan hraða á. Öll starfsmannafélögin þarna, öll fagfélögin sem þetta fólk er í, öll stéttarfélögin hafa beðið okkur um að hafa ekki þennan hraða á. Fyrirtækin hafa beðið okkur um að hafa ekki þennan hraða á, hafa þá frekar tímann sem tikkar fram að gildistöku skemmri heldur en að hraða málinu með þessum hætti. Hraðinn er í óþökk þessa fólks. Það hefur beðið þingið um að fresta málinu, skoða það í sumar og taka svo aftur til við það í breyttri mynd í haust.

En fólkið getur náttúrlega ekki haft vit fyrir sér sjálft. Það segir sig sjálft. Það kann ekki fótum sínum forráð. Nei, það er stjórnarliðið sem getur sagt þessu fólki hvað því er fyrir bestu. Stjórnarliðið hefur ákveðið að það sé þessu fólki fyrir bestu að það fái bara á sig þessi lög strax, að þau fáist bara samþykkt strax, þannig sé best fyrir fólkið að búa, þannig sé best fyrir það að starfa og þannig sé best fyrir það að tryggja afkomu sína því að það er stjórnarliðið sem veit hvað fólki er fyrir bestu í þessu landi. Fólkið veit það ekki sjálft. Það kann ekki fótum sínum forráð. Stjórnarliðið er best til þess fallið að segja fólki hvað það má og hvað það má ekki, hvað er viðeigandi hegðun og hvað er ekki viðeigandi hegðun, hvað má segja og skrifa á þingi eða í fjölmiðlum og hvað ekki. Þetta er sem sagt orðið eins og --- einhvers staðar var talað um ekki stóra bróður heldur stóra björn. Ég veit ekki hvaða orð ég ætti að gefa ríkisstjórninni í þessu sambandi. En svo mikið er víst að hún veit langbest hvað má og hvað má ekki, hvað best er að gera og hvað ekki og hvernig við eigum að haga okkur og hvernig við eigum ekki að haga okkur.

Virðulegur forseti. Ég held að við séum flest hver magnþrota gagnvart þessu ofríki stjórnarflokkanna, gagnvart þessari valdbeitingu. Maður hlýtur að spyrja sig þeirrar spurningar hvernig á því standi að við, þingmenn og þjóð, leyfum ríkisstjórninni að koma svona fram við okkur. Hvernig stendur á því að við leyfum henni þetta? Það er ekki bara ég sem spyr að þessu. Það er verið að spyrja að þessu úti um allan bæ. Hvernig stendur á þessu?

Ég ætla að enda þessa ræðu mína í kvöld á því að lesa upp úr bréfi sem við höfum öll fengið frá einum af starfsmönnum fjölmiðla. Ég ætla ekkert að nefna hann með nafni enda segir það okkur sjálfsagt ekki neitt. En það segir dálítið mikið um þá tilfinningu sem er hjá fólki gagnvart þessu máli.

Hér segir, með leyfi forseta:

,,Ég er alinn upp á miklu íhaldsheimili. (Gripið fram í.) Ég meðtók þessa stefnu og skoðanir og trúði þeim staðfastlega.`` (Gripið fram í: Á það við ræðumanninn?)

Nei. Jú, að vísu. Ég vitkaðist þegar ég var 13 ára. Ég tók snemma út þroska.

,,Það var ekki auðvelt að vera í Menntaskólanum við Hamrahlíð á árunum 1969--1973 og aðhyllast þessar stjórnmálaskoðanir [sjálfstæðisskoðanirnar]. Það hefur samt alltaf verið óbifanleg trú mín að einstaklingsfrelsi og frjálst framtak sé það sem blífi. Ég sé hins vegar að flokkurinn sem hefur predikað þá stefnu aðhyllist ekki þá stefnu lengur.``

Svo segir, með leyfi forseta:

,,Ég lýsi hreinlega eftir stjórnmálaflokki sem hefur þá stefnu og mun hann fá atkvæði mitt í næstu alþingiskosningum. Sjálfstæðisflokkurinn þarf ekki að hafa fyrir því að svara því að hann er eins og olíuskip. Það er erfitt að snúa svona bákni á rétta leið þegar það er komið einu sinni af leið. Fyrir honum á aðeins eitt fyrir að liggja, að reka upp í fjöru. Því miður, eins og olíuskipa er siður, á hann víst eftir að menga talsvert í kringum sig áður en yfir lýkur.``

Og hann segir í þessu bréfi:

,,Ég hef aldrei orðið vitni að annarri eins valdníðslu. Ég skil nú hvað minni hluti Alþingis á við með kúgun meiri hlutans. Hvernig í ósköpunum er hægt að vinna á svona vinnustað? Ég er hræddur um að ekki héldi ég starfinu mínu lengi með svona vinnubrögðum. Hvernig stendur á því að maður eftir mann getur komið fram í ræðustól og fullyrt að breytingar sem gerðar hafa verið á frumvarpinu skipti einhverju raunverulegu máli? Þær eru álíka skammgóður vermir og að pissa í skó sinn. Þær eru hrein og klár móðgun við hugsandi fólk. Fólk þarf ekki einu sinni að vera alvarlega hugsandi til að sjá í gegnum þetta.``

Svo segir:

,,Ég er sannfærður um að þetta frumvarp á eftir að fara í gegnum Alþingi og verða samþykkt enda aðeins einn stjórnarþingmaður með eitthvert bein í nefinu í þessu máli. Það er til vansa fyrir lýðræðið að leyfa ekki öllum, og þá meina ég öllum sem vit hafa á, að segja álit sitt á frumvarpinu. Hvers vegna er menntamálanefnd og efnahags- og viðskiptanefnd ekki leyft að klára sín störf? Af hverju fá þær ekki að skila álitum sem þær voru beðnar um.``

Svo segir:

,,Ég er afar ósáttur. Ég er afar sorgmæddur. Ég skammast mín fyrir svona lýðræði.``