Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 20:55:23 (7880)

2004-05-11 20:55:23# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[20:55]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru akkúrat svona ræður sem brengla okkar lýðræðislegu umræðu. Hér hefur hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir flutt tæplega klukkutíma ræðu, klukkutíma ræðu fulla af heift, klukkutíma ræðu fulla af bræði, klukkutíma ræðu fulla af bulli.

Það er einmitt þetta, frú forseti, sem ég óttast í þessari umræðu. Það er einmitt þetta sem stjórnarandstaðan hefur gert sér að leik. Hún hefur stefnt leynt og ljóst að því forðast hina efnislegu umræðu. Það eru akkúrat svona ræður settar niður á eitthvert pólitískt skítkastsplan sem leiða til þess að umræðan í samfélaginu brenglast. (Gripið fram í: Það svíður.) Það er ekki síst stjórnarandstöðunni að þakka að slík umræða brenglast.

Ég velti því fyrir mér eftir að hafa hlustað á þessa klukkutíma bræðis-, heiftar- og bullræðu, af hverju ekki er farið í hin efnislegu atriði. Það er farið í formsatriðin. Það er verið að tala um málsmeðferðarhraðann. Ekki var hraðinn á sínum tíma varðandi sparisjóðsfrumvarpið að þvælast fyrir þingmönnum Samfylkingarinnar. Þá var hægt að keyra það frumvarp í gegn með fullum stuðningi nokkurn veginn af hálfu Samfylkingarinnar. Mig minnir að það hafi tekið, frú forseti, um tvo daga. (Gripið fram í: Þjóðarheill.) Þá var það þjóðarheill. En núna er Bleik brugðið. Hér er ekkert annað en skítkast og mér finnst leiðinlegt, frú forseti, hvernig þetta er.

Ég sakna þess að fá útskýringu á því af hverju Samfylkingin hefur umturnast algjörlega í öllum sínum málflutningi. Áður fyrr var alltaf talað um almennar og skýrar leikreglur. Nú má ekki tala um almennar leikreglur. Það er flótti kominn í andstöðuna.