Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 21:00:56 (7883)

2004-05-11 21:00:56# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ISG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[21:00]

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú finnst mér skörin farin að færast heldur upp í bekkinn þegar hæstv. menntmrh., sem þarf að reyna að vera aðeins vönd að virðingu sinni, er farin að halda því fram að Samf. tali beinlínis fyrir því að auðvaldið eigi allt Ísland.

Málið snýst bara (Gripið fram í.) um það, virðulegur forseti, eins og ég sagði áðan, að ákveðin borgaraleg réttindi séu tryggð í landinu. Við höfum hér ákveðinn rétt í huga og tryggjum hann. Þá má einu gilda hvort sá sem rétturinn nær til heitir Jóhannes Jónsson í Baugi eða Bónus eða hvað það nú er eða Lalli Johns. Það bara skiptir ekki máli. Við erum að tala um ákveðin grundvallarréttindi, ákveðin borgaraleg réttindi sem mönnum eru tryggð samkvæmt stjórnarskrá og við verðum að umgangast þau réttindi af varúð, virðulegur ráðherra. (Menntmrh.: Óbreytt ástand.)