Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 21:02:03 (7884)

2004-05-11 21:02:03# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, GÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[21:02]

Guðlaugur Þór Þórðarson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var athyglisvert fyrir mig að hlusta á ræðu hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Það er augljóst að pólitísk fortíð gleymist hratt. Hér flutti hún klukkutímaræðu sem var hefðbundin heift út í Davíð Oddsson og Sjálfstfl. og, jú, formsatriði. Engan stjórnmálamann hef ég nokkurn tíma heyrt kveinka sér jafnmikið yfir því að einhver vilji ræða formsatriði. Hún talaði sérstaklega um það að hún, hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, væri ekki í bókhaldi, hún væri í stjórnmálum, þegar hún var að ræða um einfalda hluti eins og skuldasöfnun sem viðkomandi fyrrverandi borgarstjóri stóð fyrir í borginni.

Hér var talað um óðagot. Ég held að menn tali þá um bitra reynslu. Við vorum bara í dag í Orkuveitu Reykjavíkur að afskrifa hálfan milljarð af einu óðagotinu hjá fyrrverandi borgarstjóra.

Hér var líka talað um það í fullri alvöru, virðulegi forseti, (Gripið fram í.) að hér þyrfti að vera lýðræðisleg umræða og ég heyri að menn kveinka sér í salnum. Ég má ekki rifja þetta upp, að sjálfsögðu ekki. Lýðræðisleg umræða og hlusta á minni hlutann. (Gripið fram í: Það er auðvelt á Húsavík.) Pólitísk fortíð gleymist hratt. (Gripið fram í.) Ég kannast ekki við þessa upplifun þegar fyrrverandi borgarstjóri hafði valdið. Nú á hins vegar að hlusta á minni hlutann.

Svo við reynum aðeins að halda okkur við efnisatriðin, sem hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir reynir að hlaupast frá, sagði hv. þm. að vandamálið hefði aldrei verið skilgreint. Er hv. þm. að tala í fullri alvöru? Hér er hundrað síðna skýrsla þar sem ástandið hér er borið saman við annars staðar og það liggur alveg fyrir að samþjöppunin er hvergi meiri. Samt talar hv. þm. um að vandamálið hafi aldrei verið skilgreint.