Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 21:04:16 (7885)

2004-05-11 21:04:16# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ISG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[21:04]

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Hjá þessum ágæta þingmanni Sjálfstfl. fékk ræða mín þá einkunn að hún hefði verið hefðbundin heift út í Sjálfstfl. og Davíð Oddsson.

Það var ekkert hefðbundið við hana og það var engin heift í henni. Ég er hins vegar mjög ósátt við Sjálfstfl. og framgöngu hans í landsmálunum. Ég er andstæðingur ykkar, ágætu þingmenn, ég er pólitískur andstæðingur ykkar og ég tel enga ástæðu til þess að fara um ykkur nokkrum silkihönskum. Því í ósköpunum skyldi ég gera það? Hafið þið staðið þannig að málum að ástæða sé til að strjúka ykkur eitthvað sérstaklega eða fara um ykkur einhverjum silkihönskum? Ég tel ástæðu til þess að segja hlutina eins og þeir eru, eins og þeir koma mér fyrir sjónir, og ekki bara mér heldur fólki almennt í samfélaginu. Það hljótið þið að hafa heyrt, ágætir þingmenn.

Munið það, ég er pólitískur andstæðingur ykkar og sé enga ástæðu til annars en að leggja á það talsverða áherslu á Alþingi.

Varðandi formsatriðin sem þingmaðurinn talaði um. Mér fannst athyglisvert að hann skyldi tala um það sem formsatriði. Ég var að fjalla um það með hvaða hætti það frv. sem hér liggur fyrir brýtur í bága við grundvallarréttindin, grunnlögin, stjórnarskrána. Ég var að fjalla um það hvernig frv. brýtur í bága við Evrópurétt. Þingmaðurinn talar um að ég sé að fjalla um formsatriði. Þetta eru ekki formsatriði, virðulegur forseti, þetta skiptir meginmáli. Þetta eru þau formsatriði sem þessi þingmaður vann þá eið að þegar hann settist inn á Alþingi. Honum ætti þá að vera meira umhugað um þau en virðist vera af framgöngu hans í þingsalnum í dag.

Varðandi vandamálið sem aldrei var skilgreint. Þetta mál snýst um að tryggja fjölbreytni. Ef við ætlum að ná því fram þurfum við fyrst að átta okkur á því hvort upp á vantar.