Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 21:06:37 (7886)

2004-05-11 21:06:37# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, GÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[21:06]

Guðlaugur Þór Þórðarson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef hlustað á margar ræður hjá hv. þingmanni og ég get fullyrt að hv. þm. er alveg með Davíð Oddsson á heilanum. Þessi klukkutímaræða bar þess merki svo við höfum þá hluti algjörlega á hreinu.

Hins vegar var ég að reyna að spyrja hv. þingmann, virðulegi forseti, um efnisatriðin. Hver er skoðun Samf. á þessu máli? Aftur sagði hv. þm., með leyfi, virðulegi forseti, að vandamálið hefði ekki verið skilgreint. Allir vita að hvergi er meiri samþjöppun á fjölmiðlamarkaði en einmitt hér á landi, hvergi meiri. Ef einhver hefur ekki áttað sig á því var samin hundrað síðna skýrsla þar sem farið var yfir það. Allir vita þetta. (MÁ: Ertu búinn að lesa ...?) Og hér var haldin klukkutímaræða sem var hefðbundin heift út í Davíð Oddsson og Sjálfstfl. og farið út í alls konar formsatriði og undirbúning en ekkert um það hvað Samf. vill í málinu, ekki neitt. Ekki kom það fram í þessu andsvari hjá hv. þingmanni og við skulum bíða spennt hvort eitthvað komi nú.