Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 21:09:10 (7888)

2004-05-11 21:09:10# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SKK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[21:09]

Sigurður Kári Kristjánsson (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla svo sem ekki að fara að ræða um svokallað frekjufrelsi og silkihanska og annað það sem hér hefur verið til umræðu, heldur víkja að einu efnisatriði sem örlaði fyrir í ræðu hv. þingmanns. Það var um það hvort þessi löggjöf væri sértæk en ekki almenn en um það er ágreiningur í þessu máli.

Því var haldið fram, og hefur verið haldið fram, af Samf. að löggjöfin sé sértæk. Það liggur samt sem áður fyrir að hún mun snerta önnur fyrirtæki en Norðurljós, hún mun snerta Árvakur, Framtíðarsýn sem gefur út Viðskiptablaðið, Íslenska sjónvarpsfélagið og fleiri félög. Ég er ekki tilbúinn til að fallast á það að þessi löggjöf sé sértæk.

En gefum okkur að frv. sé sértækt, rökræðunnar vegna. Þá velti ég fyrir mér: Hvað hefur breyst varðandi afstöðu Samf. til slíkrar lagasetningar? Það vill nefnilega þannig til að hér á þinginu, fyrr á þessu ári, voru einmitt sértæk lög til umræðu sem öðluðust lagagildi. Það var í svokölluðu SPRON-máli, máli sem ég greiddi ekki atkvæði með. Öll Samf. hins vegar, að einum þingmanni undanskildum, hv. þm. Helga Hjörvar, greiddi atkvæði með þeirri sértæku lagasetningu. Þá var ekkert verið að setja út á það að málshraðinn væri mikill. Þá var ekki verið að velta því fyrir sér að fá lagaumsögn frá Evrópuráðinu eða Háskóla Íslands. Nei, nei, þá var bara frv. keyrt í gegn og allir þessir höfðingjar sem sitja þarna aftast í salnum tóku fullan þátt í dansinum.

Þá spyr ég: Hvað hefur breyst varðandi afstöðu Samf. til sértækra lagasetninga? Hvað hefur breyst? Skiptir máli hvaða fyrirtæki á í hlut eða hefur orðið almenn breyting á stefnumörkun flokksins varðandi slíkar sértækar lagasetningar?