Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 21:11:25 (7889)

2004-05-11 21:11:25# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ISG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[21:11]

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Þingmaðurinn byrjaði á að halda því fram að hér væri ekki um sértæka löggjöf að ræða, hún væri almenn vegna þess að hún mundi snerta fleiri félög en Norðurljós. Hún mundi snerta Árvakur, Skjá 1 og einhverja fleiri sem hann tiltók hér.

Ég geri ráð fyrir að þingmaðurinn sé þar að vísa til þess að verði frv. að lögum þýðir það auðvitað að Árvakur og þeir sem hann reka eða gefa út Morgunblaðið geti ekki líka verið inni á ljósvakamarkaðnum, að það muni ná til fleiri aðila þegar fram líða stundir, þetta setji mönnum skorður þegar fram líða stundir. Skjár 1 getur ekki farið að gefa út prentmiðil samkvæmt þessum lögum. Að því leytinu til tekur þetta til þessara aðila.

Ef horft er hins vegar á frv. er það að ýmsu leyti framvirkt að efni en að öðru leyti afturvirkt. Þegar kemur einmitt að þessu afturvirka hittir það fyrir tiltekinn aðila og aðra ekki. Það er auðvitað það sem við erum að deila um hér, virðulegur forseti.

Varðandi það að setja sértæk lög eða almenn er ég þeirrar skoðunar að við eigum hér á Alþingi fyrst og síðast að huga að almennum lýðræðislegum leikreglum en ekki einhverju sem tekur til tiltekinna einstaklinga eða fyrirtækja.

Nú ætla ég ekki að fara að skattyrðast við virðulegan þingmann um SPRON-málið enda var ég ekki hér á þinginu á þeim tíma, tók ekki þátt í þeirri umræðu og þekki ekki til þess hvernig það mál er vaxið. Ég get að sjálfsögðu kynnt mér það ef því er að skipta.