Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 21:15:58 (7892)

2004-05-11 21:15:58# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SJS
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[21:15]

Steingrímur J. Sigfússon:

Frú forseti. Það er stundum sagt, kannski í öðru samhengi en menn halda að eigi við hér, að byltingin éti börnin sín. Mér hefur dálítið orðið hugsað til þessarar setningar upp á síðkastið og tengt það við Davíð Oddsson. Ég vona að menn leggi það nú ekki út á versta veg þó að ég nefni nafn hans, ég sé ekki þar með þegar sekur dæmdur um óstöðvandi heift í hans garð eða annað í þeim dúr.

Það er nefnilega þannig að Davíð Oddsson hefur verið við völd í rúm 13 ár og hefur haft gríðarleg áhrif með ríkisstjórnum sínum og stefna Sjálftsfl. hefur meira og minna verið leiðandi tónn í því stjórnarsamstarfi. Við segjum stundum að það hefur ekki skipt miklu máli hvort það voru kratagreyin eða framsókn með þeim hverju sinni. Íhaldið sem hefur ráðið ferðinni, hugmyndafræðin hefur verið nýfrjálshyggjan og gerðar hafa verið miklar breytingar á íslensku samfélagi. Það hefur verið markaðs- og einkavætt í mjög veigamiklum atriðum.

En nú er svo komið, og á því hefur talsvert borið síðustu missirin, að jafnvel sjálfur höfuðsmiðurinn, skipstjórinn á einkavæðingarskútunni, hæstv. forsrh. Davíð Oddsson, sé að verða nokkuð með böggum hildar yfir afleiðingum stefnu sinnar. Hann virðist ekki að öllu leyti sáttur við það þjóðfélag sem hann á sjálfur meiri þátt í að búa til en nokkur annar núlifandi maður, með forustu sinni fyrir ríkisstjórnum í hátt á annan áratug sem hafa fylgt þessum leiðarljósum. Ég skýri það a.m.k. gjarnan þannig, þegar hæstv. forsrh. lendir aftur og aftur í lóðbeinum átökum við aðila í viðskiptalífinu, sem gera í raun ekki annað en að grípa tækifærin, nýta sér möguleikana og höndla með það sem þeim hefur verið fært í hendur af stjórnvöldum á undanförnum árum, hvort sem það er á sviði fjölmiðlunar, í bankaheiminum eða annars staðar þar sem teppalagt hefur verið fyrir þessa þróun með markaðs- og einkavæðingu á fjölmörgum sviðum.

Þá grípa menn til hátíðlegra fyrirsagna eins og þeirra að menn kunni ekki að fara með frelsið. Það er líkt og með að rónarnir komi óorði á brennivínið, að menn kunni ekki að fara með frelsið. Ég hef ekki rekist á sérstakar leiðbeiningar um það frá ríkisstjórninni, samhliða frjálshyggjuvæðingu samfélagsins, hvernig eigi að fara með frelsið. Þangað til menn eru staðnir að því að hafa beinlínis misnotað aðstöðu sína eða brotið lög þá verða menn að hafa einhver rök fyrir því að tala með þessum hætti, nema menn séu gengnir af trúnni, sjái eftir öllu saman og vilji reyna að snúa hjólunum til baka.

Nú er það þannig, frú forseti, að ef ég veit rétt þá er hæstv. forsrh. Davíð Oddsson flutningsmaður frv. sem hér um ræðir. Getur ekki forseti staðfest að þetta sé rétt munað?

(Forseti (JBjart): Við munum það bæði vel, ég og hv. þm., að forsrh. mælti fyrir þessu frv.)

Mikið þykir mér vænt um að fá þetta staðfest. Þá hlýtur hæstv. forsrh. að sýna okkur þann sóma að vera viðstaddur umræðuna. Það er alvanaleg krafa og yfirleitt við henni orðið að þeir ráðherrar sem bera mál fram, sérstaklega þegar um stórmál er að ræða, séu til svara við umræðuna, sitji undir umræðunni, taki niður spurningar sem til þeirra er beint og svari fyrir þær. Þegar það bætist svo við að formaður allshn., hv. þm. Bjarni Benediktsson, er nokkuð laus við, hefur rekið inn nefið hér í hliðardyrum eins og einu sinni í kvöld eftir að hann kom úr kastljósunum, er nú ekki björgulegt á búinu, frú forseti. Það er hér alls enginn til að svara fyrir þetta frv. Það þarf ekki að nefna Framsfl. Hann er gjörsamlega gufaður upp. Hann hefur ekki sést í allan dag og er svo sem bættur skaðinn og væri betur að þetta væri varanlegt ástand, að framsókn bara hyrfi ad infintum úr þessum sal.

Ég fer fram á það, frú forseti, að hæstv. forsrh., og gjarnan hæstv. menntmrh. sem var hér áðan, sem er málið skylt og ætti auðvitað að svara fyrir það, og hæstv. utanrrh., sem var síðast þegar ég vissi formaður Framsfl., að þeim verði gert viðvart um það að við höfum áhuga á því að eiga við þessa hæstv. ráðherra og forustumenn stjórnarflokkanna orðastað. Ég held að þeim sé ekki vandara um, úr því að þeir leggja svona gríðarlega áherslu á að troða þessu máli áfram, en okkur hinum að vera í vinnunni sinni. Það er nú einu sinni þannig að ráðherrar hafa eins og aðrir þingmenn þingskyldum að gegna og eiga að vera hér nema þeir hafi lögmæt forföll. Þeir voru allir við góða heilsu í dag og ég veit ekki til þess að þeir hafi lagst veikir síðan þannig að þeir hljóta að eiga að geta verið hér.

Ég hef áhuga á því að leggja spurningar, m.a. fyrir hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. og hæstv. menntmrh. síðar í ræðu minni. Síðan tók ég með mér hérna gagnmerka bók, frú forseti. Þetta er ekki Biblían og þó, þetta er íslensk orðabók Menningarsjóðs. Í henni eru tvö orð sem ég hefði gaman af því að lesa upp fyrir hæstv. forsrh. og fara svolítið í orðskýringarnar. Ég hygg að það geti orðið bæði skemmtiefni og áhugavert. Þetta eru orðin ,,hrossalækning`` og ,,valdníðsla``, sem ég ætla að fara aðeins í á eftir. Þau koma mér bæði í hug í sambandi við vinnubrögðin í þessu máli.

Nú er það svo, frú forseti, að auðvitað er það viðfangsefni sem við fáumst hér við allrar athygli vert. Það er angi af stærra máli sem er mikið vandamál í íslensku samfélagi, þ.e. mikil samþjöppun, tilhneiging til þess að fáeinir stórir aðilar leggi markaði undir sig, sem eru þá opnir fyrir ,,frjálsri samkeppni`` svokallaðri. Við þekkjum þetta ástand mætavel af miður góðri reynslu á mörgum sviðum. Það er almennt viðurkennt að það sé ekki sérstaklega heppilegt fyrirkomulag að tveir til þrír menn geti tekið upp símann eða hist í Öskjuhlíðinni og gengið frá því til árs í senn hvernig markaðnum sé skipt á milli. Þetta þekkjum við úr ýmsum sviðum viðskipta. Það má færa fyrir því gild rök að því miður hafi þessi þróun ágerst frekar en að dregið hafi úr henni á allra síðustu árum.

Þetta er auðvitað ekki nýtt undir sólinni. Þetta eru ósköp einfaldlega lögmál kapítalismans, sem þarf greinilega að fara að halda svolítið námskeið um. Það er eðli kapítalismans að reyna að stækka sína sneið af kökunni, ná sem mestu til sín og hagnast sem mest. Gamlir menn, löngu horfnir af dögum, skrifuðu um þetta þykkar bækur svo snemma sem á 19. öld. Karl Marx og ýmsir spekingar leiddu að því býsna sterkar líkur, sem standast tímans tönn, að þar séu ákveðnir hlutir að verki sem sennilega eru býsna djúpt grónir í mannlegu eðli og birtast okkur á nýjan leik á mismunandi tímum við mismunandi aðstæður og taka á sig mismunandi birtingarform. En þarna er þetta.

Auðvitað eru menn alltaf að keppa að því að ná sem sterkastri stöðu og kunna ekki alltaf með hana að fara. Nú er hægara sagt en gert að takast á við þetta eða ráða bót á þessu. Ég tala nú ekki um þegar menn eru ekki nema 300 þúsund hræður á einu stóru skeri úti í miðju Atlantshafi. Markaðurinn er ekki til skiptanna, segja ýmsir, og sú klisja er algeng, sérstaklega þegar menn eru að réttlæta fákeppnina, að við séum svo lítill markaður og fyrirtækin verði að vera svo stór, að því miður sé það þannig að tvö til þrjú fyrirtæki skipti markaðnum á milli sín.

En það er ekki gott ástand. Það er krónískt fákeppnis\-ástand sem býður hættunni heim. Það er ekki endilega það sem kemur best út að lokum þó að tímabundið segi menn að í því sé fólgin mikil hagræðing og miklir möguleikar að hafa hlutina þannig. Aðrir réttlæta það með því að fyrirtækin verði að vera svo stór vegna þess að þau séu í samkeppni við útlönd eða séu í útrás. Til þess þurfa þau að fá að vera svona stór heima fyrir, jafnvel á kostnað íslenskra neytenda, til að þeir geti staðist risunum í útlöndum snúning, hvort sem það er í Bretlandi eða Búlgaríu.

Þá fer maður að spyrja sig: Á það að vera hlutverk íslenskra neytenda að greiða herkostnaðinn af því að einhver fín fyrirtæki hafi gaman af því að taka áhættu í útlöndum? Geta þau ekki bara gert það hjálparlaust án þess að það sé á kostnað óeðlilegra umsvifa eða óeðlilegs olnbogarýmis þeirra í íslensku athafnalífi?

Þetta segi ég, frú forseti, vegna þess að mér finnst auðvitað rétt að taka efni þessa máls og skoða það í samhengi við heildarmyndina, aðstæður í íslensku viðskiptalífi og þróunina undanfarin ár. En það er ekki þar með sagt að það sé einhver brú í því að ganga til verka með þeim hætti sem hæstv. ríkisstjórn hefur gert. Það er það ekki. Menn geta ekki, þótt þeir séu meðvitaðir um hætturnar sem geta verið samfara óæskilegri og of mikilli samþjöppun í viðskiptalífinu á hinum einstöku sviðum þess, ég tala nú ekki um ef það krossast, þar með skrifað upp á að hægt sé að ganga í það að splundra því eða breyta því bara hvernig sem er.

Með öðrum orðum, frú forseti: Tilgangurinn helgar ekki hvaða meðal sem er. Þó að við viljum reyna að hafa eins mikla fjölbreytni og tryggja þannig forsendur raunverulegrar samkeppni, ég tala nú ekki um í fjölmiðlaheiminum sem auðvitað er mjög mikilvægt, þá leyfir það ekki hvað sem er. Við getum ekki ýtt til hliðar lögum og reglum, stjórnarskrá og alþjóðasamningum, bara af því að við trúum því að við séum að gera það í réttmætum eða göfugum tilgangi.

Enn versnar málið ef meðulin sem á svo að nota eru kannski til ills, ef sjúklingurinn deyr af aukaverkununum. Það er lítil lækning. Það er lítil lækning í íslenska fjölmiðlaheiminum ef hann fellur allur vegna aukaverkana. Það er ekki góður læknir sem skrifar út slíkt resept.

Menn eru, trúi ég, í aðalatriðum sammála um hin yfirlýstu markmið í þessu frv., að mikilvægt sé að tryggja, eftir því sem kostur er, --- eða ég mundi a.m.k. orða það þannig og jafnvel í þeirri röð --- óháða, sjálfstæða, öfluga og fjölbreytta fjölmiðlun í landinu. En það verður að nálgast af raunsæi og út frá því að markaðurinn er ekki stærri en hann er, hvorki hvað lesendur, áhorfendur eða hlustendur snertir, né heldur auglýsingatekjur. Þetta er ekki óskaplega flókið reikningsdæmi. Við erum tæplega 300 þúsund hræður. Að vísu er drjúgur hluti nokkuð lestrarfíkinn og hlustar talsvert á útvarp eða horfir á sjónvarp. Efnahagslíf okkar, atvinnulíf okkar og þjónusta notar sér fjölmiðla til að koma vöru sinni eða þjónustu á framfæri og boðskap sínum. Það skapar auglýsingatekjur. Það er hægt að slá máli á það og þetta er til skiptanna til viðbótar því fé, ef svo væri, sem menn væru tilbúnir að leggja með þessari starfsemi ef það væri uppi á teningunum, sem auðvitað er sums staðar við lýði. Það flokkast ekki undir kommúnisma eða ríkisbúskap þó að menn styrki t.d. tímarit eða blaðaútgáfu til að reyna að tryggja fjölbreytni hennar og að hún fái staðist í harðri samkeppni við aðra ágenga miðla í nútímanum.

Þetta verðum við allt saman að meta. Eins og ég segi, þó að markmiðin séu góð og við væntanlega flest sammála um þau þá skilja í aðalatriðum leiðir þar með. Hæstv. ríkisstjórn hefur nálgast þetta mál með þeim hætti að það er ómögulegt að koma nálægt því. Ég segi fyrir mitt leyti að þótt ég hefði verið, sem ég hef verið og það stendur, áhugasamur um að taka þátt í ítarlegum og vönduðum skoðanaskiptum og vinnu sem miðaði að því að fara rækilega í gegnum þetta svið, hvernig getum við best tryggt hér sem öflugasta, sjálfstæðasta óháða og fjölbreytta fjölmiðlun, þá gerir maður það ekki svona.

Það er eins og hæstv. ríkisstjórn beinlínis vilji losna við að slík umræða komist af stað. Það að keyra þetta mál í gegn á örfáum sólarhringum er auðvitað aðferð til þess, að koma því út úr heiminum og treysta svo á að þjóðin fari bara að grilla og gleymi þessu öllu í sumar. Ég er reyndar ekki viss um að svo fari. Ég spái því að eftirköstin verði býsna mikil ef frv. verður að lögum með þessum hætti.

Við þekkjum út af fyrir sig aðdraganda málsins, frú forseti. Það þarf ekki að eyða miklum tíma í að rifja hann upp. Umræðan hefur af og til skotið upp kollinum á undanförnum árum. Menn hafa vitnað hér í fræg orðaskipti núverandi Bessastaðabónda, forseta lýðveldisins, og fleiri þingmanna árið 1995. Ég man eftir umræðum um þessa hluti enn fyrr, fljótlega upp úr breytingunum miklu sem urðu þegar einokun Ríkisútvarpsins á ljósvakanum lauk á 9. áratugnum. Auðvitað hafa verið umræður um stöðuna í fjölmiðlaheiminum á mismunandi tímum, t.d. í tengslum við erfiðleika dagblaðaútgáfunnar þegar þau voru meira og minna öll að fara á hausinn, flokksmálgögnin lögðu upp laupana o.s.frv. Já, ég er einn af þeim sem sé eftir þeim. Ég sé eftir öllu sem gerði þessa flóru fjölbreyttari og þýddi að skoðanaskiptin voru víðtækari, öflugri og tryggðu sem best að öll sjónarmið fengju að heyrast. Þannig á það auðvitað að vera.

[21:30]

Upp á síðkastið má segja að þetta hafi skotið upp kollinum í tengslum við hræringar sem voru á þessum markaði á síðasta ári og gengu inn á þetta ár. Hér á þingi var þetta mál t.d. tekið upp í desembermánuði af þingmanni okkar í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði, Álfheiði Ingadóttur, sem lagði þá fyrirspurn fyrir forsrh., afar saklausa fyrirspurn um það hvort þessi mál hefðu verið tekin fyrir í ríkisstjórn og hvort menn teldu þar á bæ ástæðu til að huga að þróuninni eins og hún birtist mönnum. Svörin þóttu nokkrum tíðindum sæta því að þá má segja að hæstv. forsrh. hafi kannski gefið tóninn sem síðan hefur svifið yfir vötnunum.

Hæstv. þáverandi menntmrh., Tómas Ingi Olrich, tilvonandi sendiherra þjóðarinnar í París, skipaði síðan í desember nefnd í framhaldi af umræðum um þetta mál á Alþingi og tillöguflutningi þingmanna úr fjórum flokkum af fimm um að málið yrði sett í vandaða og yfirvegaða skoðun. Því miður var sú nefnd þröngt skipuð, fjórum ágætismönnum að sönnu en þar voru t.d. ekki fulltrúar allra flokka. Þaðan af síður voru þar hagsmunatengdir aðilar eins og eigendur og rekendur fjölmiðla eða blaðamannastéttin. Nefndin sem að vísu vann ágæta skýrslu, að miklu leyti ágæta, skilaði henni af sér og þegar hún loksins var tekin fyrir í ríkisstjórn gerðust þau undur og stórmerki að fram kom frv. sem hafði verið samið til hliðar við nefndarstarfið, samið af öðrum og á vegum annars ráðherra en hafði sett nefndina á laggirnar. Þetta er sögulega séð, frú forseti, afar athyglisvert og merkilegt. Ég hygg að þess séu ákaflega fá dæmi að vinnu sé hagað með þessum hætti á einu búi, í einni ríkisstjórn.

Þetta hefur síðan markað framhaldið. Frv. kemur eins og skrattinn úr sauðarleggnum, meingallað á margan hátt, í verulegu ósamræmi við andann í skýrslunni og tínir út úr henni aðeins afmarkaða hluti sem snúa að því að takmarka með mjög harkalegum og í raun og veru sérkennilegum hætti eignarhald í fjölmiðlum en sleppir öllu öðru. Það er ákaflega sláandi þegar skýrslan er lesin og rætt er um möguleikana sem einn af mörgum kostum sem til greina komi til að reisa þarna skorður eða tryggja markmið um fjölbreytni. Þegar rætt er um eignarhaldið og takmarkanir á því fjalla skýrsluhöfundarnir í alllöngu máli um þá möguleika að setja því einhverjar skorður, setja t.d. á það einhver þök hvað einstakir aðilar geti átt mikið í fjölmiðlum eða hversu mikið stórir markaðsráðandi aðilar geti átt. Skýrsluhöfundarnir ræða þarna um mismunandi möguleika til að setja skorður, þök sem eru bundin við ákveðna prósentu eignarhalds eða mögulega að hafa þessa veggi öðruvísi, lárétta þannig að það sé spurning um markaðshlutdeild eins og gert er víða í stærri löndum. Aftast í kaflanum er síðan skotið inn einni örstuttri setningu þar sem segir: ,,Er þá ónefndur sá möguleiki að banna slík eignatengsl með öllu.`` --- Í þessa stuttu setningu í þessum kafla eru væntanlega sótt rökin fyrir því að fara þá leið. Það er sem sagt ekki valin nein þeirra leiða sem skýrsluhöfundarnir fjalla um í ítarlegu máli, að setja þarna inn einhver ákveðin mörk, t.d. einfaldlega að reyna að tryggja að enginn einn aðili geti átt ráðandi hlut. Það eru mörg fordæmi og ýmsar viðmiðanir til úr fjármálaheiminum og víðar þar sem menn hafa sett skorður við slíku eða þá þeim sem eiga svokallaðan virkan eignarhlut, eignarhlut sem er yfirleitt miðaður við að hann sé nógur til að ná a.m.k. einum stjórnarmanni í stjórn viðkomandi fyrirtækis. Nei. Frumvarpshöfundarnir velja að ganga þarna ýtrustu leið, taka þann kostinn sem gengur langlengst, bakka svo að vísu hér í brtt. niður í það að markaðsráðandi fyrirtæki megi eiga 5%.

Ef við leyfum málinu að njóta þess að það sé þess virði, a.m.k. á köflum, að ræða það efnislega held ég að við eigum líka að spyrja okkur: Hver eru rökin á bak við þetta? Hver er ástæðan? Er einhver sýnileg, sjáanleg ástæða til þess að markaðsráðandi fyrirtæki, þó að við viljum alls ekki að þau drottni yfir fjölmiðlum, megi ekki eiga eitt einasta prósent eða þau megi ekki eiga 7%, bara 5%? Hvaða rök eru fyrir því? 5% duga yfirleitt ekki fyrir stjórnarmanni í fyrirtæki, hvað þá öðru. Ég hefði gaman af því að heyra höfunda frv., Davíð Oddsson, eða ábyrgðarmann, pabba frv., eða þá formann allshn., hv. þm. Bjarna Benediktsson, sem er fjarverandi líka svara þessu, útskýra þetta fyrir mér. Hvaða nákvæmnisvísindi liggja núna á bak við 5% þar sem 0% voru áður?

Þessi vinnubrögð, herra forseti, eru óskaplega dapurleg. Mér finnst mjög dapurlegt að sjá mál sem er allrar athygli virði --- þá meina ég almennt talað, ekki þetta frv. heldur málið sem slíkt í heild sinni, viðfangsefnið, þetta svið --- svona grátt leikið af vinnubrögðum af þessu tagi. Það er algerlega útilokað allt sátta- eða samkomulagsandrúmsloft í kringum þetta. Það er ekki boðið upp á það. Það vottaði ekki fyrir því að fulltrúar meiri hlutans í allshn., eftir því sem mér er tjáð af þeim sem þar sátu, þreifuðu fyrir sér um það hvort einhverjir fletir væru til samkomulags um málið, t.d. að því tilskildu að sjálfsögðu að boðið væri upp á raunverulegar og umtalsverðar efnislegar breytingar á því. Hvernig stendur á þessu? Vilja mennirnir endilega þennan ófrið? Þykir þeim það betra? Fá þeir meiri útrás og svölun í því að þetta sé gert með heift og látum í bullandi ósætti við alla? Það er erfitt að leita einhverra efnislegra haldbærra skýringa á þessu. Af hverju vilja menn ekki reyna að ræða svona mál ofan í kjölinn og skoða hvað menn gætu mögulega orðið sammála um eða a.m.k. eitthvað sem minni ófriður yrði um?

Ég vek athygli á því og minni á að eigandi fyrirtækisins sem hér er alltaf í nágrenninu, Baugs, eða stjórnarformaður hygg ég að hann sé, Jón Ásgeir Jóhannesson, sagði sjálfur í ágætu viðtali í Viðskiptablaðinu að hann skildi alveg rökin fyrir því að menn vildu ekki að kannski mjög öflugur og stór markaðsráðandi risi á almennu sviði viðskipta eins og í verslun væri allt of drottnandi í fjölmiðlaheiminum. Hann gæti vel sætt sig við einhver takmörk á því. Mér þótti þetta skynsamlega mælt enda er ég alveg nákvæmlega sömu skoðunar. Ég er nákvæmlega sömu skoðunar og hef margsagt það. Hún hefur ekki breyst þó að vinnubrögðin hér séu eins og þau eru.

Ég held að það væri hyggilegt og sé hyggilegt að hafa ákveðin mörk þannig að menn haldi þessum hlutum nokkuð aðgreindum þótt ekki væri nema bara með velferð þessara aðila í huga, þ.e. viðkomandi stórfyrirtækja og fjölmiðla. Hvernig verður ástandið ef þetta er of tengt? Það verður stanslaus tortryggni. Menn liggja stanslaust undir grun um að staðan sé misnotuð. Jafnvel þó að við trúum því öll og viljum að svo sé ekki verða slíkar grunsemdir og vangaveltur og bollaleggingar endalaust uppi. Það er ákaflega ódýrt fyrir menn að slengja því fram að menn séu bara málpípur þessa eða hins. Menn virðast ekki þurfa að hafa fyrir því að rökstyðja það. Hæstv. forsrh. hefur margfullyrt það í ótal sjónvarpsviðtölum að fjölmiðlarnir sem nú tengjast fyrirtækinu Baugi í gegnum Norðurljós séu bara málpípur fyrirtækisins. Aldrei nefnt eitt einasta dæmi svo ég viti, þarf þess ekki að því er virðist. Ég hef aldrei gert þetta, ósköp einfaldlega vegna þess að ég hef engin sérstök dæmi til að benda á og ég mundi aldrei taka mér svona lagað í munn nema ég gæti bent á dæmi sem ég teldi að sýndu að fótur væri fyrir slíku. Ég viðurkenni þó að það er alveg augljóst að þessar aðstæður munu stanslaust bjóða upp á tortryggni. Þær gera það úti um allan heim þar sem þær eru svipaðar. Auðvitað verðum við að horfast í augu við það að sums staðar eru þessi mál í algerum ólestri. Það langar engan í ítalskt ástand, svo ég tali ekki um rússneskt.

Það vill svo til að ég var í Rússlandi í desember að fylgjast þar með kosningum til Dúmunnar og sá hvernig fjölmiðlarnir þar fjalla um t.d. stjórnmálin. Í 37% allra tilvika sem fjallað var um stjórnmál var það Pútín sjálfur. Í 20% í viðbót var það flokkurinn hans. Næststærsti stjórnmálaflokkur landsins komst í fjölmiðlana í um það bil 7% tilvika og af þeim voru 6% neikvæð umfjöllun. Það litla sem sá flokkur fékk var neikvætt. Nei, við viljum ekki slíkt ástand. Það er ekkert sjálfgefið að hlutirnir séu alltaf í lagi alls staðar. Okkur er auðvitað tamt að vilja trúa því uppi á Íslandi að hjá okkur sé ævinlega allt í góðu lagi.

Það sakar ekki að byrgja brunninn. Ég hef ævinlega talað fyrir því að setja einhverjar skynsamlegar og hófsamlegar reglur sem við gætum bundið vonir við að næðu fram þeim markmiðum að tryggja sjálfstæða, öfluga og óháða fjölmiðlun, leyfa henni þó að sjálfsögðu að vera það sterkri í formi eininga að hún gæti borið sig. Það þjónar engum tilgangi að ganga þannig fram að þetta verði allt saman afvelta aumingjar sem ekkert geti. Það er stórkostlegt vandamál ef fjölmiðlarnir eru það vanmáttugir að þeir geti ekki rekið öflugar fréttastofur. Það er alveg bráðnauðsynlegt fyrir lýðræðið og til þess að kafað sé stundum undir yfirborð hlutanna að menn hafi afl til þess að skoða mál af einhverjum burðum. Þess sakna ég í allri íslenskri fjölmiðlun. Hún er allt of yfirborðskennd. Vandaðir ítarlegir fréttaskýringaþættir sem byggja á rannsóknum og kryfja mál til mergjar eru allt of sjaldgæfir. Af hverju er það? Af því að fjölmiðlarnir eru svo fámennir, undirmannaðir og efnahagslega veikir að þeir ráða ekki við það. Það er verið að burðast við að halda einum eða einum og hálfum slíkum þætti úti í sjónvarpinu, tveimur í hljóðvarpinu kannski. Maður auðvitað fagnar því og þakkar fyrir þá. Stöð 2 hefur vissulega reynt ýmislegt slíkt, Morgunblaðið á köflum en núna líður langt á milli greinaflokka sem eru frægir þar á bæ. Að vísu er stórmerk úttekt á forsetanum núna í helgarblöðunum þó að kannski sé ekki skrifað upp á allt sem þar stendur, sérstaklega ekki menn sem þekktu þar vel til hluta á sinni tíð.

Frú forseti. Hvernig er það með þessa ágætu heiðursmenn sem ég lýsti eftir? Ég er kominn svolítið inn í ræðu mína, ég ætla ekki að lofa því að hún sé hálfnuð. Það getur oltið á ýmsu, en ég lýsti eftir nokkrum mönnum.

(Forseti (JBjart): Hæstv. menntmrh. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er í húsinu. Forseti man ekki hvort hv. þm. auglýsti sérstaklega eftir henni.)

Jú.

(Forseti (JBjart): Hv. formaður allshn. Bjarni Benediktsson mun líka vera í húsinu, hæstv. forsrh. hefur verið látinn vita og jafnframt hæstv. utanrrh.)

Já, ég þakka fyrir þetta. Mér þætti auðvitað betra að þessir ágætu þingmenn væru í salnum, vona að þeir séu ekki á fundi einhvers staðar annars staðar í húsinu úr því að þau eru bæði fjarverandi.

Ég ætla síðan aðeins að renna yfir þá kosti, frú forseti, sem mér finnast koma til greina. Reyndar eru flestir nefndir í skýrslunni ágætu. Það vekur auðvitað mikla undrun þegar maður er með hana í höndunum eða ýmis önnur plögg sem aðgengileg eru í þessum efnum --- það er hægt að sækja sér gögn víða á netinu og hér og þar um það hvernig þessu er hagað annars staðar, í öðru samhengi --- hvað möguleikarnir sem þar koma til álita eru fjölmargir. Enda eru farnar mjög mismunandi leiðir í einstökum löndum til að reyna að tryggja þessi markmið. Auðvitað hljóta þær allar, og eiga, að koma til skoðunar. Höfundar skýrslunnar gera í raun og veru í fæstum tilvikum upp á milli þeirra nema þeir leggja ekki til eða ráða frá vissum hlutum, eins og t.d. því að leyfisbinda dagblaðaútgáfuna. Þeir segja sem svo: Það er ekki hefð fyrir því þannig að við leggjum það ekki til. Þeir hafa það alveg opið að taka á þessu máli í gegnum ýmsar mismunandi leiðir. Þær geta að hluta til verið samverkandi, að hluta til komið hver í stað annarrar. Við lestur kaflans sem ber fyrirsögnina: Leiðir sem koma til greina, er ágætt að hafa það í huga að skýrsluhöfundar eru mjög varkárir. Þeir slá ýmsa varnagla og segjast setja fram hugleiðingar og velta upp möguleikum, það kosti miklu meiri vinnu og skoðun, m.a. á tæknilegri útfærslu, að komast til botns í því hvort þær leiðir séu skynsamlegar, t.d. við okkar aðstæður. Förum aðeins yfir þetta, frú forseti.

[21:45]

Í fyrsta lagi er t.d. talað um mikilvægi trausts almenningsútvarps. Nú er það sem betur fer svo að menn eru víðast hvar aftur farnir að halla sér að því bjargi sem eru traust, öflug almenningsútvörp, að þau séu geysilega mikilvæg sem hluti af fjölbreyttri fjölmiðlaþróun. Að stjórnvöldum í hverju lýðræðisríki sem tekur sig alvarlega sé rétt og skylt að sjá til þess að öflugt almenningsútvarp sé til staðar því það tryggi vissa hluti sem ekki er sjálfkrafa öruggt að séu til staðar með öðrum hætti.

Nefndin leggur sem sagt til að það sé skoðað rækilega að gera ráðstafanir t.d. til að efla, og ekki bara efla Ríkisútvarpið heldur gera það sjálfstætt og óháð stjórnvöldum. Nú er það þannig að Ríkisútvarpið er búið að vera undir hælnum á Sjálfstfl. í á fjórtánda ár. Ég hef stundum sagt að það sé kannski eitt alvarlegasta einelti sem viðgengst í íslensku þjóðfélagi í dag hvernig Sjálfstfl. hefur á köflum lagt Ríkisútvarpið í einelti með endalausum pólitískum mannaráðningum þangað inn og með ýmsum öðrum hætti sem ég þarf ekki að rekja hér fyrir mönnum. Það væri alveg gífurlegt gustukaverk ef hægt væri að ná því fram að slá nú öflugri skjaldborg utan um Ríkisútvarpið sem almenningsútvarp með öllum þeim mikilvægu skyldum sem það hefur að gegna og reyna að safna um það liði t.d. þannig að einhvers konar fulltrúaráð utan úr þjóðfélaginu, heildarsamtaka, félagasamtaka, samtaka úr menningu og listum og öðru slíku, slíkt fulltrúaráð yrði skjaldborgin utan um það, kysi því stjórn sem síðan réði útvarpsstjóra o.s.frv. þannig að við losnuðum undan þeim flokkspólitíska hrammi sem verið hefur þarna yfir nú síðustu árin og auðvitað oft og tíðum alla tíð. Frv. minnist ekki á þetta einu orði. Þessum þætti skýrslunnar, tillögum til úrbóta, algerlega sleppt.

Í öðru lagi er rætt talsvert um samkeppnislögin og þá möguleika að taka á þessum málum í gegnum hin almennu samkeppnislög. Sums staðar er farin sú leið að menn setja ekki sértæk lög eða þá að það er að einhverju leyti fjallað með sértækum hætti um fjölmiðla í samkeppnislöggjöfinni þannig að það séu samkeppnisyfirvöld, Samkeppnisstofnun, úrskurðarnefnd eða áfrýjunarnefnd og kærunefnd sem færu með þá hluti. Einn hlut leggja þó skýrsluhöfundar til með alveg skýrum hætti í kaflanum um samkeppnislögin og það er um gagnsæi eignarhalds á fjölmiðlum. Frv. kemur ekkert inn á þetta, því er sleppt. Því í raun og veru eru þær upplýsingar sem útvarpsleyfishafar eiga að senda útvarpsréttarnefnd handa nefndinni. Ég skil það ekki endilega svo að það sé nein kvöð á útvarpsréttarnefnd að gera þær upplýsingar opinberar, það stendur hvergi, kannski verður það. Á öðrum fjölmiðlum, þ.e. dagblaðaútgefendum, tímaritaútgefendum eða þeim sem reka öflugustu netmiðlana eða hvað sem það nú væri, er engin upplýsingaskylda um eignarhaldið. Þetta er lykilatriði. Inn á það er komið alls staðar að það sé gríðarlega mikilvægt að tryggja að eignarhaldið sé gagnsætt og tært á hverjum tíma. Af hverju er þessu algerlega sleppt?

Síðan er fjallað um leyfisveitingar og þá kemur að því sem ég áður sagði að nefndarmenn gera ekki í tillögum sínum tillögur um að leyfisbinda dagblaðaútgáfu, enda ekki hefð fyrir því og reyndar engin lög í gildi um dagblaðaútgáfu sem gætu fóstrað slík ákvæði. Það yrði þá að setja þau upp frá grunni með einhverjum hætti, en þeir koma aftur inn á þetta með upplýsingaskylduna hvað varðar dagblöðin, að ef sú leið verði farin, eins og segir hér á bls. 86, með leyfi forseta:

,,Þar með yrði skylt að upplýsa samkeppnisyfirvöld um eignarhald á fyrirtækjum í dagblaðaútgáfu og breytingar sem kunna að verða á því. Enn fremur yrði gert ráð fyrir að stofnunin``--- sem ég veit ekki alveg hvaða stofnun er í þessu tilviki nema þeir séu þar að tala um fjölmiðlastofnunina sem þeir nefna síðar í textanum --- ,,gæti gripið til þeirra ráðstafana sem greindar eru í kaflanum hér að framan.``

Það er því alveg ljóst að skýrsluhöfundar eru uppteknir af þeirri hugmynd að sett verði inn kvöðin um upplýsingaskyldu á eignarhaldi allra fjölmiðla, líka dagblaða, og það þarf enga leyfisbindingu til þess, það er að sjálfsögðu hægt að gera það t.d. með ákvæði í samkeppnislögunum. Það er fjallað um útvarpsreksturinn, útvarpsleyfin, fjallað er um sérreglur um eignarhald á fjölmiðlum og útbreiðslu og það er síðan í þann kafla sem höfundur frv., ef hann hefur yfir höfuð lesið skýrsluna þegar hann var að semja frv. því það var gert samhliða eins og kunnugt er, sækir sér helst þau rök að fara þá leið sem frv. gerir ráð fyrir. Það er fjallað um uppbyggingu og þróun stafræns sjónvarps í skýrslunni. Frv. kemur að sjálfsögðu ekkert inn á það. Það er bara eitt stórt gat þegar kemur að þeirri umbyltingu sem þar er væntanlega fram undan í gegnum stafrænt sjónvarp og þá miklu möguleika sem þar opnast til að nýta betur tíðnirásir. Og ef maður bætir svo við möguleikum á miðlun myndefnis um breiðband og jafnvel yfir netið sem kannski mun á næstu 5--10 árum umbylta þessum markaði þá fer það að verða svolítið götótt að ráðast fram með þessum óskapa látum gagnvart gömlu útvarpsleyfunum sem byggja á sendingum í loftinu, hliðrænni tækni, en horfa fram hjá öllu hinu. Eru menn að ná mikið utan um þetta? Nei, auðvitað ekki.

Það er komið inn á eignarhald erlenda aðila, það er komið inn á sjálfstæði blaðamanna og fréttamanna, úrræði sem lúta að dagskrá og ríkisstyrki. Ég hrósa höfundunum fyrir að hafa kjark til að bera sér það orð í munn, setja það meira að segja sem kaflafyrirsögn, Ríkisstyrkir. Ég hélt að menn væru, mér liggur við að segja skotnir á færi ef menn nefndu slíkt á þessum tímum, (Gripið fram í.) en menn hafa þó uppburð í sér til að nefna þann möguleika. Auðvitað er það eitt af því sem menn geta velt fyrir sér og er gert sums staðar í löndunum í kringum okkur að það er hlúð að fjölmiðlun jafnvel með almannafé. Svo mikilvæga telja menn hana vera og fjölbreytni hennar og nauðsyn þess að styrkja t.d. dagblaðaútgáfu eða útgáfu héraðsfréttablaða sem bæði menningar- og upplýsingamiðla. Hvað er verið að gera á Íslandi núna? Það er verið að drepa þá alla, m.a. með einkavæðingu póstsins sem okrar þannig á burðargjöldunum að þau hafa líklega þúsundfaldast frá því fyrir um tíu árum síðan þannig að sú blómlega útgáfa sem áður var er öll að koðna niður.

Síðast en ekki síst nefna skýrsluhöfundarnir möguleikana á því að endurskipuleggja stjórnsýslu þessara mála, koma á fjölmiðlastofnun, búa til stjórnsýslustofnun sem hefur með þessi verkefni að gera og heldur utan um þau, útvarpsleyfin eða þá hluti aðra sem við viljum í framtíðinni tryggja að fjölmiðlar klári sig af. Þá koma ýmsir möguleikar til greina og leiðir sem færar væru og slík stjórnsýslu- eða framkvæmdastofnun, sem þyrfti ekki að vera neitt risabatterí, gæti þá haft slíkt með höndum. Um hana giltu lög og fjölmiðlar yrðu að uppfylla sínar skyldur gagnvart henni, t.d. um upplýsingagjöf og annað í þeim efnum. Ekkert af þessu ratar inn í frv., ekkert nema þetta eina um eignarhaldið þannig að augljóslega, frú forseti, eru menn ekki að ná utan um þetta mál eða svara spurningunum sem uppi eru í þessum efnum á nokkurn hátt. Menn velja bara sértækt út úr þessu einn algerlega afmarkaðan hluta og búa svo um hann með þeim endemum sem raun ber vitni.

Aðeins síðan að frv. sjálfu, frú forseti. Það er að mínu mati, eins og ég hef áður sagt, auðvitað algerlega meingölluð smíð og satt best að segja, þegar ég fór að skoða það betur og velta því fyrir mér, varð ég alltaf meira og meira undrandi. Ég varð svo undrandi þegar ég var búinn að skoða gildistökuákvæðin og ákvæði til bráðabirgða í 1--2 daga og velta því fyrir mér út frá ýmsum hlutum sem manni hefur á yfir 20 ára puði á Alþingi lærst að reyna að hafa í huga þegar verið er að velta fyrir sér lagasetningu og m.a. lagaskilum og gildistöku, að ég átti ekki til aukatekið orð og segir nú sagan að mig skorti þau sjaldan. Þetta er svo ótrúlegt. Til dæmis ákvæði til bráðabirgða eins og það er í frv. sem hefði þýtt að óbreyttu að útvarpsleyfi sem féllu úr gildi á næstu mánuðum fengjust ekki endurútgefin, bara strax innan nokkurra mánaða, a.m.k. í lok þessa árs, í öllu falli þau fyrstu, nema fyrirtækin uppfylltu öll hin nýju skilyrði þannig að í rauninni er það rangt, það er ekki samkvæmt orðanna hljóðan að þar hafi verið settur inn einhver tveggja ára aðlögunartími. Hann hefði ekki nýst í reynd, á manna máli sagt því eina fyrirtæki sem beinlínis verður fyrir þessu vegna þess að það uppfyllir augljóslega ekki kröfurnar um algeran aðskilnað dagblaðaútgáfu og ljósvakamiðla og ekki heldur um eignarhlut markaðsráðandi fyrirtækis sem samkvæmt frv. mátti ekki vera meira en 0,0% eins og kunnugt er. Þar hefði aðlögunartíminn að óbreyttu orðið nokkrir mánuðir. Og láta sér detta þau lifandis ósköp í hug að halda að það geti verið sanngjörn, eðlileg aðlögun að þar sé gætt meðalhófs að leggja slíkt til, það hefði ég seint látið segja mér svo ég tryði að menn flyttu slíkt.

Ég tel reyndar að breytingartillaga meiri hlutans bæti þarna litlu úr því auðvitað fara lögin þegar þau hafa verið sett, þó að gildistakan sé miðuð við mitt ár 2006, strax að hafa áhrif. Þau hafa það nú þegar og þau hafa það eftir helgina þegar búið verður að gera þessi ósköp að lögum, hver sem skrifar undir, hvort sem það verður ein undirskrift eða tvær eða þrjár. Það verður sjálfsagt hægt að fara í mál út af þeim strax þó að þau eigi ekki að forminu til að taka efnislega gildi eða hafa efnisáhrif fyrr en 2006. Það er ekkert meðalhóf, herra forseti, það er engin sanngini í að umgangast hlutina á þennan hátt.

Eins er það að ýmis þau ákvæði sem hér eru sett inn hljóta náttúrlega að þurfa að skoðast út frá þeim markmiðum sem menn að sögn ætla að ná, og eru þau þá vænleg til þess? Er það líklegt? Er t.d. endilega gefið að þessi algeri aðskilnaður milli dagblaðaútgáfu og ljósvakamiðla sé rétta leiðin, sé skynsamleg? Er það endilega víst? Hvort vildum við heldur ef við segjum að lögin opni á að eftir sem áður sé sá möguleiki opinn að í raun og veru verði fyrst og fremst tveir einkaaðilar í fjölmiðlarekstri, annar ráði öllum ljósvakamiðlunum og hinn öllum dagblöðunum, er það gott ástand? Síðan yrði Ríkisútvarp og við hefðum þá þrjá fjölmiðlarisa á svæðinu. Eða vildum við kannski heldur að það væru 2--3 einkafyrirtæki sem gætu eftir atvikum bæði verið með einhverjar útvarpssendingar og dagblöð? Ég sé ekki hvers vegna ekki á alveg eins að hugleiða þann möguleika ef menn telja að það gæti verið hagstætt fyrirkomulag. Eða leyfa ákveðna eignarhlutdeild, menn gætu átt eitthvað í hver öðrum en upp að skilgreindum mörkum sem er hin venjulega leið sem er farin í þessum efnum og fjölmörg dæmi eru um úr íslenskri löggjöf, að því séu settar skorður með einhverjum þökum hversu mikil ítök eða áhrif einstakra aðila megi vera í stofnunum eða starfsemi á viðkomandi sviðum? Dæmi: Bankalöggjöfin þar sem settar eru skorður við því, að vísu allt of veikar að mínu mati, hversu sterkir einstakir aðilar geti orðið í bönkunum. Viðskrh. hefur heimildir til að grípa þar til aðgerða, getur m.a. tekið af mönnum stjórnarmennina ef þeir eru komnir yfir virkan eignarhlut. Annað dæmi er auðvitað sjávarútvegslöggjöfin þar sem sett er þak á hámarkskvótaeign hvers fyrirtækis. En það er ekki valin sú leið að banna þar, setja þar einhver 0%. Nei, það er reynt að setja einhver skilgreind mörk og hafa einhver rök fyrir þeim.

[22:00]

Menn geta auðvitað endalaust rifist um það hvort kvótaþakið eigi að vera 10% eða 12% eins og menn geta rifist um það hvort markaðsráðandi fyrirtæki á almennu sviði viðskipta megi eiga 12%, 15% eða 25%, t.d. í fjölmiðlum. (GAK: Það er líka búið að hækka það þak.) Já, svo geta komið þær pólitísku aðstæður að menn freistist til að fikta í þökunum, það er alveg hárrétt.

En efnislegt verður þetta að vera og rökstutt á einhvern hátt. Það er ekki hægt að nálgast málið eins og menn hafa gert hér.

Ég tel því, frú forseti, í sjálfu sér ekki þurfa fleiri orð um þetta, dapurlegt sem það er. Frumvarpið er meingallað og ótrúlegt eins og það kom frá höfundum sínum. Brtt. eru auðvitað aumlegt kák, sjálfsagt í þeirri trú að menn sýni einhvern lit í því að laga þetta mál. Það má efast um að það skipti í raun nokkru minnsta máli. Það er kannski helst hægt að segja að sá örlitli gluggi sem opnast með því að lögin taka ekki gildi fyrr en um mitt ár 2006 gefi færi á að breyta þeim innan þess tíma. En það er, eins og við vitum, ekkert í hendi í þeim efnum og ekki líklegt að mikill hugur yrði í mönnum til þess, a.m.k. ekki að óbreyttu stjórnarfari í landinu. Þau hafa sín áhrif nú þegar og strax á næstu dögum og mánuðum á fyrirtækin eða fyrst og fremst það fyrirtæki sem fyrir þeim verður.

Ég vil aðeins skjóta því inn í, frú forseti, af því að áðan var umræða um sértæka löggjöf versus almennri löggjöf, sem mér fannst dálítið merkileg. Ég hef aldrei skilið það svo að bannað væri að setja lög ef þau hefðu áhrif á einn aðila. Ég held að það sé ekki rétt. Það getur ekki verið þannig. En það er ekki sama hvernig þau lög eru og það verður að vera fullnægjandi réttlæting fyrir því og verður að vera sú nauðsyn til staðar sem knýr á um þá lagasetningu, sérstaklega ef hún er íþyngjandi fyrir viðkomandi aðila. En það er auðvitað ekki þannig að stjórnvöld, að löggjafinn sé afvopnaður ef áhrifin af ákvörðunum hans hafa fyrst og fremst áhrif á einn aðila, það er ekki þannig. Þá væri illa komið.

Fyrirtækið Microsoft er ekki heilagt og ósnertanlegt bara af því að það er eitt með heimsyfirráð. Nei, menn eru í leiðöngrum eftir því, bæði austan hafs og vestan. Því einu. Af hverju? Jú, af því að það er eina fyrirtækið í þeirri stöðu á heimsmarkaði. Þess vegna snýst spurningin um möguleika annarra aðila til að koma sínum búnaði að, eftir atvikum hugbúnaði eða aukabúnaði. Hún snýst um að þvinga Microsoft til að beita ekki einokun sinni til að útiloka aðra í viðskiptunum í kringum sig. Þá er auðvitað ekki um annað að ræða en að menn geri eitthvað sem beinist að þessu fyrirtæki eða ekki.

Frægasta viðskiptalöggjöf í heimi, Sherman-lögin í Bandaríkjunum, voru aðallega sett út af einum aðila, einum öflugum auðhring sem menn vildu setja skorður vegna umsvifa hans í bandarísku viðskiptalífi um aldamótin 1900. Rúmum 20 árum eftir að lögin voru sett voru þau notuð til að leysa þann auðhring upp, skipta honum upp.

Auðvitað geta þær aðstæður komið upp að lög sem sett eru og hafa almennt gildi, verða til frambúðar, hafi fyrst og fremst áhrif á einn aðila. Það á ekki endilega að skoða sem svo að það sé vegna þess að menn vilji ná sér niðri á honum. Ég er ekki að útiloka að það sé í þessu tilviki, frú forseti, en það þarf ekki endilega að vera svo. Menn segja: Þetta er ástand sem við ætlum að bregðast við. Við ætlum að setja löggjöf sem tryggir að hlutirnir verði með tilteknum hætti. Ef ástandið er orðið þannig að lögin hafa þegar áhrif, koma við einhvern, þá kemur að því að lagasetningin verður auðvitað að standast allar kröfur sem gera verður við slíkar aðstæður, að farið sé fram með sanngirni, að högum manna sé ekki raskað umfram það sem talið er þá óhjákvæmilegt vegna almannahagsmuna. Ef eignir þeirra eru skertar þá fái þeir þær bættar og þar fram eftir götunum. Svo einfalt er það mál.

Ég held að það eigi ekki að nálgast þetta fyrst og fremst út frá því hvort hér sé um eitthvað að ræða sem sé sértæk versus almennri löggjöf, enda held ég að sú aðgreining sé í raun og veru ekki brúkleg.

Út af fyrir sig er það alveg rétt að lögin sem hér voru sett um sparisjóði í vetur höfðu fyrst og fremst áhrif á eitt fyrirtæki, af því að þar var eitt fyrirtæki sem var að undirbúa hluti sem löggjafinn ákvað að koma í veg fyrir, þ.e. að sparisjóðir væru gleyptir af bönkum og að menn gerðu sér mat úr sjálfseignarfénu. En það er almenn löggjöf. Hún gildir núna og kemur í veg fyrir það að mönnum í Hafnarfirði eða annars staðar detti á morgun í hug að fara sömu leið. Þessi aðgreining er því oft á tíðum ekki brúkleg sem slík þegar betur er að gáð. Ég vona að menn taki þetta ekki sem einhverja varnarræðu fyrir því að það sé almennt góður praxís að klæðskerasauma hlutina með einhverjum sértækum hætti utan um tilteknar kennitölur. Það er auðvitað ekki svo. Þetta er ekki eitthvað sem menn vilja gera og þeir eiga að reyna að komast hjá því. Það er miklu betra að svona löggjöf liggi fyrir og menn gangi að henni vísri í ákvörðunum sínum.

Það var t.d. skömminni skárra þegar lögin voru sett um kvótaþakið að þökin voru sett það rúm að þau voru nokkuð ofan við þáverandi kvótaeign tveggja, þriggja stærstu sjávarútvegsfyrirtækjanna. Þau röskuðu ekki þegar teknum ákvörðunum þeirra í fjárfestingum og öðru slíku. Það er auðvitað miklu betra ef hægt er að finna slíkar leiðir.

Það er nokkuð sem við sjáum að hefur verið gert í kringum okkur, að þegar menn hafa staðið frammi fyrir tilteknum aðstæðum á fjölmiðlamarkaði, svo sem í Noregi, þá reyna menn að finna leiðir til að setja þær skorður eða ná fram þeim markmiðum sem þeir ætla sér án þess að raska því ástandi sem fyrir er, ef menn telja það þolanlegt en vilja tryggja að það gangi ekki lengra. Það er nákvæmlega það sem rætt er um og verið er að undirbúa í Noregi núna, sérstaklega að koma í veg fyrir það að einn tiltekinn stór aðili, sem mjög hefur gerst fyrirferðarmikill og sett út olnbogana í norskum fjölmiðlaheimi, nái enn meiri afgerandi stöðu en hann hefur nú þegar í dag.

Mergurinn málsins er auðvitað sá, frú forseti, og það er svo sem ástæðulaust að þvæla um þetta, með sértæka og almenna löggjöf, að allt sem við gerum hér, öll löggjöf sem héðan er afgreidd verður að standast allar þessar kröfur. Það er hlutur sem ég hafði hugsað mér að ræða, m.a. við hinn fjarstadda forsrh., spurninguna um álitamál sem þessu frv. tengjast gagnvart stjórnarskránni.

Er það þannig, frú forseti, að forsrh. nenni ekki á fund hér í kvöld? Ætlar hann að hunsa þessa umræðu þó að hann sé flutningsmaður málsins? Það fer nú að þykkna í mér ef þetta á að ganga svona.

(Forseti (JBjart): Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, boðum hefur verið komið til hæstv. forsrh. um að það sé óskað eftir viðveru hans í þingsal.)

Já. Hvaða svör hafa borist?

(Forseti (JBjart): Ég get ítrekað þau boð. Það hafa ekki borist svör til baka.)

Mér finnst þetta algjörlega óviðunandi ástand, frú forseti, og ég fer þá fram á að þessum fundi verði frestað ef enginn af þeim ráðherrum sem óskað hefur verið eftir, frú forseti, lætur sjá sig í þingsalnum. Formaður allshn. nennir ekki að sitja hér, er að vísu sagður í húsinu. Varla er hann allan þennan tíma á klósettinu. Sama gildir um menntmrh. Hún er sögð í húsinu en sést ekki í þingsalnum.

Þetta er ekki boðlegt, frú forseti. Ég hef verið hér í yfir 20 ár og það þarf enginn að segja mér að þetta sé framkoma sem við þurfum að láta yfir okkur ganga. Ef hæstv. ríkisstjórn leggur svona mikið við að fá þetta mál afgreitt þá skal hún gjöra svo vel og mæta í vinnuna. (JóhS: Þingmaðurinn hlýtur að gera hlé á ræðu sinni.) Ja, ég er að undirbúa að gera það ef engin viðbrögð verða við þessu. Ég tel það ekki ósanngjarna ósk að þessir ábyrgðaraðilar málsins komi hér og þekki ég það vel úr sögunni. Það er venja að ráðherrar verði við því ef óskað er eftir að þeir komi, sérstaklega þeir sem ábyrgð bera á málinu og reyndar oft og iðulega fleiri.

Sá sem hér stendur hefur, eins og frægt er í þingsögunni, verið vakinn upp um miðja nótt og rifinn frá börnum sínum ungum til að mæta niður í þingsal að kröfu hv. þm. Halldórs Blöndals, sem þá var. Kannast kannski einhverjir við manninn? Hann er forseti Alþingis í dag. Það vildi að vísu svo til að ég mætti honum svo hlæjandi á tröppunum. Þá var alvaran ekki meiri á bak við það en að þegar búið var að vekja mig og ná mér hingað niður eftir þá var tilganginum náð. En ég mætti auðvitað og hvarflaði ekki annað að mér. Auðvitað eiga ráðherrar að sinna þingskyldum sínum og vera hér til svara eins og aðrir. Ég vil fara að fá botn í þetta, frú forseti, innan tíðar.

Eins er þetta með Framsfl., þessi gríðarlega fjarvera Framsfl., það er náttúrlega stórkostlegt að þeir þingmenn skuli ekki þora að vera hér í þingsalnum. (JóhS: Saknarðu þeirra?) Að vísu er frú forseti hér en hún er að sinna skyldustörfum. Það má velta því fyrir sér hvort hún væri hér annars. Já, út af fyrir sig er það svo að vissu leyti að ég sakna þeirra svolítið. Það væri gaman að hafa svona eins og eitt eintak, eitt sýnishorn í salnum, hafa eitt vitni sem gæti borið boðskapinn inn á þingflokksfundi. Auðvitað er það með endemum hvernig Framsókn hefur beygt sig í duftið í þessu máli. Það er alveg makalaust og má segja að sjaldan launi kálfurinn ofeldið. Að vísu afbökuðu menn þetta einhvern tíma og sögðu að sjaldan launaði kálfurinn ofbeldið. En hann launar alla vega ekki ofeldið því að það hefur komið fram að einn allra dyggasti styrktaraðili Framsfl. er fyrirtækið Baugur. Er það ekki rétt að það hafi komið fram í fjölmiðlum að þeir hafi hreinlega verið áskrifendur að verulegum peningum um hver einustu mánaðamót frá fyrirtækinu og launa það svo svona? Ja, það eru mikil endemi, frú forseti.

Á þessu frv. hæstv. ríkisstjórnar virðist mér hálfgerður feigðarsvipur. Það er eitthvað sem slær mig þannig að þetta sé einhvers konar sjálfseyðingarleiðangur. Menn hafi lent inn á blindgötu sem þeir komist ekki út úr. Þetta minnir mig um sumt, svo maður gerist nú sagnfræðilegur, á matarskattslotuna sem stóð á Alþingi frá því 2. desember 1987 til 11. janúar 1988, með nánast engum hléum nema þeim sem helg voru, rauð í dagatalinu, þ.e. jól, aðfangadag og jóladagana, gamlársdag og nýársdag. Það var mikil og hörð lota og blandaðist reyndar fleira inn í en matarskatturinn einn. Það er enginn vafi á því að sú harða lota myndaði sprungur í það stjórnarsamstarf sem síðan héldu áfram að gliðna og allir vita hvernig því lauk níu mánuðum síðar. Ég velti því fyrir mér: Er þetta að verða núverandi ríkisstjórn mál af þessu tagi? Þetta er svo ógæfulegt allt saman. Menn hafa greinilega enga leið fundið í land. Þegar menn eru komnir með hausinn undir sig þá halda þeir áfram. Auðvitað komast menn langt ef þeir eru skriðþungir en það getur endað þannig að menn lendi á svo sterkan vegg að ferðinni ljúki með ósköpum. Ég veit það ekki.

Það mætti líka rifja upp vordagana 1985, af því að þá kom við sögu hæstv. landbrh. Guðni Ágústsson, sem er einn elskaðasti ráðherra þjóðarinnar --- þá er að vísu ekki mikið sagt. En samkvæmt skoðanakönnunum er hann alveg í toppi þar í vinsældum. Hann var að skrifa undir búvörusamning eða mjólkursamning. Þá rifjaðist það upp fyrir mér að það stóð einmitt þannig á um svipað leyti 1985 að þáverandi landbrh., Jón Helgason, tók sig einmitt til í annríki þingsins og skrifaði undir búvörusamning og dengdi honum svo inn í þingið. Hann ásamt fleiri málum, sumum umdeildum og ekki vel þokkuðum, eins og þetta fjölmiðlafrumvarp, entist mönnum fram yfir Jónsmessu. Kannski verður það þannig, góðir þingmenn og háttvirtir, að við fáum að sitja yfir þessum viðfangsefnum okkar fram á Jónsmessuna. (JBjarn: Við fáum ráðherrana með okkur.) Þá höldum við náttúrlega ,,midsommarafton`` þegar því verður lokið öllu saman, en það er önnur saga.

Ég hef líka miklar áhyggjur af nýju frjálshyggjukynslóðinni sem skeiðaði svo glæst inn á þing í vor sem leið. (KolH: Blessaður vertu ekki að hafa áhyggjur af þeim.) Jú, ég hef miklar áhyggjur af þessum piltum. Ég held að þetta sé að fara hroðalega með þá. Mér þykir að vísu vænt um að þeir beri sig mannalega og séu jafnvel með brosviprur úti í salnum. En ég verð að segja að ég öfunda þá ekki af því að þurfa að éta ofan í sig allt sem þeir hafa talað um hástöfum, um frelsi, frjálsræði og hvað það nú er (JóhS: Og skattalækkanir.) með þessum ósköpum. Það má mikið vera ef þessi nýja kynslóð sem auðvitað átti að erfa landið, skulum við reikna með, í ríki Davíðs, kemur ekki stórsködduð út úr þessum vetri. Það verður bara gat, kynslóðargat, hjá Sjálfstfl. og verður að fara að ala upp einhverja á leikskólunum núna til að taka við og koma þeim inn á þing sem fyrst.

[22:15]

Frú forseti. Það á auðvitað ekki að gera gaman að þessum ósköpum eins og þetta ber allt að manni hér. Þó veit ég það svo sem ekki, það er kannski ekki mikið annað að gera, en oft er ágætt að beita því vopni þegar annað þrýtur. Það hefur náttúrlega ekki mikið upp á sig að rökræða í þessu máli, það er alveg greinilegt. Það var alls ekki boðið upp á það af hálfu meiri hlutans, vinnubrögðin í þingnefnd voru þannig. Ríkisstjórnin afþakkar greinilega með öllu að opna á að menn vinni eðlilega að málinu t.d. með því að taka það og skoða rækilega í sumar, sem oft hefur gefist vel þegar mikilvæg löggjöf á í hlut, að sýna hana, ræða um hana og koma henni af stað bæði innan þings og utan, setja svo málin í skoðun. Þá mætti vinna úr þeim umsögnum sem hafa borist til þingsins, nota sumarið í það, endurskoða síðan málið og leggja fram í breyttu formi. Það hefði væntanlega verið samið nýtt frumvarp í þessu tilviki, þ.e. ef niðurstaðan hefði orðið að nauðsynlegt væri að setja lög. Mögulega hefðu menn valið þann kost að fara aðrar leiðir, skilyrða leyfisveitingar eða annað í þeim dúr. En í öllu falli hefðu það verið geðþekkari vinnubrögð en þessi ósköp.

Sem betur fer skapast oft það andrúmsloft að menn vinna málin með slíkum hætti. Oft er reynt að gera kröfu til þess að það sé gert þegar um mikilvæga grundvallarlöggjöf eða viðkvæm málefni er að ræða. Ég held t.d. að það detti engum manni í hug í alvöru að fara fram með illsku og offorsi og beita meirihlutavaldi, t.d. þegar menn væru að setja kosningalöggjöf. Það liggur í hlutarins eðli hversu ógæfulegt slíkt væri. Eða þegar menn væru að setja aðrar sambærilegar mikilvægar grundvallarleikreglur í samfélaginu, sem menn vilja að sé sem mestur friður um og sem eiga að geta staðið til frambúðar, óháð því hver er meiri hluti og hver er minni hluti á hverjum tíma.

Það er hollt fyrir meiri hluta --- að vísu er það sjálfsagt erfitt fyrir þá sem hafa setið lengi að muna það --- að velta því fyrir sér að þeir gætu orðið minni hluti á morgun. Það er nefnilega þannig. Þá snúa hlutirnir oft allt öðruvísi við.

Mér finnst löggjöf um fjölmiðla, ef hún er sett, sérstaklega ef það væri almenn undirstöðulöggjöf sem skapaði rammann eða grundvöllinn sem fjölmiðlunin ætti að hvíla á, gífurlega mikilvæg. Það væri undirstöðulöggjöf, algjörlega sambærileg við réttarfarslöggjöfina, kosningalög og annað í þeim dúr, enda oft talað um fjölmiðla sem fjórða valdið. Ekki satt? Þess þá heldur að láta sér detta í hug að vinna að því með þessum hætti, það er aldeilis með endemum, frú forseti.

Ég tel að það hefði verið gaman, áhugavert og alveg þess virði að vaka yfir því nokkrar nætur, að ræða um fjölmiðlunina sem slíka á almennum nótum. Hvernig er hún, hvernig stendur hún sig, bæði hér á Íslandi og annars staðar? Erum við ánægð með hana? Hvernig hefur t.d. vestræn fjölmiðlun staðið sig í umfjöllun um heimsatburði á undanförnum missirum, eins og Íraksstríðið? Alveg hörmulega, upp til hópa hörmulega. Hún flutti lygaþvæluna meira og minna gagnrýnislaust, mötuð af áróðursdeildum herjanna sem í hlut eiga og menn urðu svo að biðjast afsökunar á öllu saman eftir á. Eru menn búnir að gleyma því þegar stærstu amerísku fréttastofurnar báðust afsökunar eftir Flóabardaga á því að hafa tekið gagnrýnislaust við lygaþvælunni frá áróðursdeildum ameríska hersins og birt heimsbyggðinni þá mynd, meira og minna gagnrýnislaust, fyrstu sex til níu mánuðina?

Svo fór auðvitað hið sanna smátt og smátt að koma í ljós og það mega heiðarlegir ritstjórar bæði á dagblöðum og sjónvarpsstöðvum vestra eiga að þeir báðust afsökunar.

Ég sé ekki að þetta sé mikið skárra núna, satt best að segja. Það er smátt og smátt að síast og leka út sannleikurinn um þau ósköp og þær hörmungar sem hafa verið að gerast í Írak. Er þetta fjölmiðlun í heiminum sem stendur sig nógu vel? Nei. Er íslenska fjölmiðlunin nógu gagnrýnin þessum efnum? Nei.

Það hefur t.d. aldrei verið farið ofan í það hvernig ákvörðunin var tekin um að setja Ísland á listann yfir 30 staðfastar þjóðir. Við höfum í raun tæmt úrræði okkar hér innan þings til að reyna að fá það upplýst. Fjölmiðlarnir hafa heldur ekki staðið sig mjög vel í því, finnst mér. Þeir eru auðvitað undirmannaðir og hafa takmarkað bolmagn til þess að leggjast í rannsóknir og kryfja slíka hluti. En hver var aðdragandi þess að Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson tilkynntu það að Ísland ætlaði að verða á listanum yfir hinar 30 staðföstu þjóðir? Hvernig nákvæmlega var ferlið sem leiddi til niðurstöðunnar? Væri ekki gaman að vita það?

Eða hver var aðdragandinn að því að Hæstarétti var skrifað bréf í öryrkjamálinu? Það er nú ekki svo úrelt og gleymt og grafið að það mætti ekki setja eins og einn öflugan rannsóknarblaðamann í að fara ofan í saumana á því. Er það kannski rétt hjá Sigmund að það hafi verið búið að semja svarið áður en bréfið með spurningunum barst? Þannig teiknaði hann atburðinn. Forsetinn sat aftan við mig og skrifaði spurningarnar þegar svarið kom og sagði: Þið eruð heldur búin að taka ykkur á í Póstinum.

Það væri líka gaman að ræða hvort okkur finnist yfirleitt að fjölmiðlun --- burtséð frá því sem hér er undir, spurningu um eignarhald og samþjöppun --- sé eitthvað til að hafa áhyggjur af? Hvernig er hún að standa sig? Er hún að skila því sem við ætlumst til af henni? Ef ekki, þurfum við þá ekki að taka það alvarlega? Kannski er niðurstaðan sú að við þyrftum að reyna að stórefla nokkra burðuga fjölmiðla þannig að þeir gætu skilað hlutverki sínu betur. Ég er eiginlega þeirrar skoðunar.

Mér fyndist t.d. alveg stórkostlegt ef hér kæmu út segjum tvö til þrjú gagnrýnin þjóðmálatímarit, vikulega, hálfsmánaðarlega eða mánaðarlega. Þau vantar okkur. Hér eru gefin út falleg tímarit á fínum pappír en þau eru aðallega að fjalla um tísku og taka alltaf innan úr sama fræga fólkinu. Það fer lítið fyrir skarpri gagnrýnni þjóðfélagsumræðu. Hér vantar t.d. blað eins og Information í Danmörku, a.m.k. fyrir minn smekk.

Frú forseti. Ég ætlaði að fara að leggja að síðustu spurningar mínar fyrir þessa ágætu höfðingja og ætla nú að spyrja: Er eitthvað af því að frétta hvort þeir séu að koma? Eða finnst forseta það ganga að halda þessum fundi áfram við þessar aðstæður?

(Forseti (JóhS): Formaður allshn. er kominn í salinn ásamt hæstv. menntmrh. en forseti skal gera gangskör að því að freista þess að fá hæstv. forsrh. í salinn.)

Mér þykir vænt um það, frú forseti. Ég ætla ekki að vera hér til meiri leiðinda en óhjákvæmilegt er og á svo sem rétt til þess að tala aftur í umræðunni. En ég er ekki síður að gera þessa kröfu fyrir hönd annarra en sjálfs mín. Mér finnst bara ekki við hæfi að þessi umræða fari fram með þessum hætti. Mér finnst að hæstv. forsrh. eigi að vera viðstaddur umræðuna til að taka niður spurningar og vera til svara, eftir atvikum í andsvörum eða þá að biðja um orðið í lokin og svara rækilega því sem til hans hefur verið beint. Þetta er lítilsvirðing við þingið og auðvitað í sjálfu sér lítilsvirðing við það mál sem hann ber hér fram. Honum þykir, þegar öllu er á botninn hvolft, málið greinilega ekki merkilegra en þetta, að hann sér ekki ástæðu til að fylgja barninu á veg.

Ég ætla þá a.m.k. að spyrja hæstv. menntmrh. einnar spurningar. Mér finnst að hæstv. menntmrh. hafi verið fullþögul í þessu máli. Auðvitað hefði hæstv. menntmrh. átt að flytja þetta frv., þetta er fyrst og fremst spurning um útvarpslög eins og það þróaðist. (JBjarn: Og þá miklu betra.) Vonandi. Það hefði örugglega ekki orðið verra. Það er útilokað. Það eru 100% líkur á að það hefði orðið betra ef það hefði ekki verið óbreytt. Það hefði ekki getað versnað.

Mér finnst heldur ekki við hæfi að hæstv. menntmrh. sé nánast algjörlega þögul. Saknar t.d. ekki hæstv. menntmrh. þess að eitthvað sé gert með það sem í skýrslunni er sagt um Ríkisútvarpið? Má ég þá biðja um annað svar en það að vísa því inn í framtíðina, að það eigi að skoða það í nefnd. Úr því að ekkert liggur á og þetta á ekki að taka gildi fyrr en 2006, af hverju er þetta þá ekki látið fylgjast að?

Hvað segir hæstv. menntmrh. um þá þætti sem snúa að mikilvægi þess að efla Ríkisútvarpið og koma stjórnsýslu þess eða skipulagi í sambærilegt horf og menn eru almennt orðnir sammála um að reyna að gera erlendis, þ.e. að það sé sem óháðast og sjálfstæðast frá stjórnvöldum í formi sjálfseignarstofnunar eða í formi þess að einhvers konar fulltrúaráð úr þjóðfélaginu myndi skjaldborg um það?

Í öðru lagi, hvað segir hæstv. menntmrh. um þá hugmynd skýrsluhöfundanna að stofnuð verði einhvers konar stjórnsýslustofnun fjölmiðlamála, fjölmiðlastofnun eða hvað við köllum hana? Ég spyr líka vegna þess að hér í salnum eru margir áhugamenn um nýjar ríkisstofnanir, eins og ungu frjálshyggjumennirnir. Mikið mundi það gleðja þá að fá að fara inn í sumarið með loforð frá menntmrh. um að vel líti út með að ný ríkisstofnun sjái dagsins ljós með haustinu, ,,Fjölmiðlastofnun ríkisins``.

Síðan vandast málin, frú forseti. Ég ætlaði að spyrja hæstv. forsrh., annars vegar um gildistökuákvæði frv. og hvaða rök væri hægt að færa fyrir því að þröngva þyrfti þessu máli í gegn á örfáum sólarhringum í önnum vorþingsins, úr því að það á hvort sem er ekki að taka gildi fyrr en 2006. Skilaboðin væru komin og ef málið væri í vinnslu í sumar mundu menn væntanlega reikna með því að þeir yrðu að búa sig undir löggjöf af einhverju tagi. Þar með væri a.m.k. búið að setja menn í köldu sturtuna. Ætli það væri þá ekki allt í góðu lagi að menn tækju eitthvað af þeim tíma sem til ráðstöfunar er, fram að 1. júní 2006, til að vinna málið aðeins betur, t.d. að menn settu sér að klára það verk fyrir næstu áramót. Menn hefðu þá allt sumarið, haustið og þingið fram að áramótum, til að vanda til verka.

Auðvitað þýðir ekki að segja reyndu fólki það að þetta séu frambærileg vinnubrögð. Hv. formaður allshn., það þýðir ekkert að reyna að segja gamalreyndum jöxlum draugasögur í björtu. Þetta eru auðvitað ekki góð vinnubrögð. Menn hafa látið sig hafa ýmislegt í gegnum tíðina en það hefur aldrei þótt góð rökræða að réttlæta léleg vinnubrögð með því að eitthvað slíkt hafi gerst áður. Er það ekki frekar slöpp vörn þegar menn fá á sig sjálfsmark að segja að þetta hafi gerst áður? Það þætti nú ekki gott í fótboltanum. Ég segi þetta af því að hv. formaður allshn. er áhugamaður um þá íþrótt.

Ég ætlaði líka að spyrja hæstv. forsrh. um stjórnarskrár\-óvissuna. Ég les þessar spurningar inn í þingtíðindin, það má vera hæstv. forsrh. til áminningar um að hafa ekki verið viðstaddur. Ég er vís til að endurtaka þær í seinni ræðu minni. Mér þykir að vísu leitt að hryggja forseta með því að upplýsa að þetta mun lengja umræðuna verulega. Ég verð þá að endurtaka spurningarnar og fara aftur í ræðustólinn.

(Forseti (JóhS): Forseti vill upplýsa að hæstv. forsrh. er ekki í húsinu. Skilaboðum hefur verið komið til hans en forseti hefur ekki enn fengið svar með viðbrögðum hæstv. ráðherra við þeirri ósk að hann sé hér viðstaddur umræðuna. En það er enn verið að leita eftir því.)

Ég ætlaði að spyrja hæstv. forsrh. um stjórnarskráróvissuna. Hæstv. forsrh. er forsætisráðherra þeirrar ríkisstjórnar sem sló m.a. eitt ákaflega vafasamt met --- ég held að það sé alveg örugglega met --- að hún fékk á sig dóm fyrir brot á stjórnarskránni tvisvar í sama málinu. Það held ég að sé alveg örugglega Íslandsmet. Í svonefndu öryrkjamáli tapaði ríkisstjórnin tvisvar í Hæstarétti og var dæmd fyrir brot --- að vísu fyrir mismunandi ákvæði stjórnarskrárinnar í hvoru tilviki fyrir sig --- í tvígang í sama málinu. Hefur hæstv. forsrh. ekkert af þessu lært? Finnst ekki hæstv. ráðherra, eða þá formanni allshn., hæstv. menntmrh. eða öllum þeim þingmönnum sem hafa hugleitt að styðja þetta mál og hafa undirritað eiðstaf að stjórnarskránni, ástæða til að fara varlega?

Við höfum því miður ekki í stjórnskipun okkar lagaráð eða úrskurðaraðila á forstigi sem getur gefið þinginu ráðgjöf um það hvort löggjöf sé í hættu vegna þess að hún kunni að stangast á við stjórnarskrána. Slík úrræði eru til staðar sums staðar í nágrannalöndunum eða dómstólar, sjálfstæðir stjórnarskrárdómstólar, sem auðvitað koma ekki að málinu fyrr en eftir á, ef á það reynir.

Í Danmörku, þar sem okkur ber oft niður --- löggjöf okkar er auðvitað að heilmiklu leyti arfur frá sambúðinni við Dani --- er þessu akkúrat svona háttað, að þar er sérstakt lagaráð, þykist ég muna rétt, sem hægt er að skjóta málum þegar þau eru til umfjöllunar á þingi. Þá fæst á því tiltölulega vandað mat og óháð álit sem þingið getur stuðst við varðandi það hvort hætta sé á því að viðkomandi löggjöf færi í bága við stjórnskipunina eða stjórnarskrána.

Mér finnst óskaplega fátæklega nestað við afgreiðslu málsins hvað þetta snertir, með ótal vangaveltum, svo ég segi nú ekki fullyrðingum, um að málið kunni að brjóta þessi eða hin ákvæði stjórnarskrárinnar, tjáningarfrelsi, atvinnufrelsi og hvað það nú er, fyrir utan ýmsa alþjóðasáttmála og þjóðréttarlegar skuldbindingar okkar.

[22:30]

Það hefði nú verið ástæða til að hæstv. forsætisráðherra, júristinn Davíð Oddsson, sem kallaði það hér fram í dag að hann hefði víst fengið ágætiseinkunn á lögfræðiprófi, hefði látið í ljósi álit sitt á þessari stöðu málsins. Það kann að skipta máli. Það er nú þannig að stundum er farið afturábak í umræður og þær lesnar þegar mál eru komin til dómstóla og menn eru að velta því fyrir sér hvað löggjafanum hafi gengið til. Þá getur það líka skipt máli ef rökstudd sjónarmið hafa komið fram um það að viðkomandi lög væru líkleg til að brjóta í bága við stjórnarskrána. Það var nú bara nákvæmlega það sem gerðist í öryrkjamálinu. Þá var það fullyrt hér og rökstutt rækilega að menn væru í stórhættu með að fara fram með þessa löggjöf gagnvart því að hún kynni að brjóta í bága við stjórnarskrána á árinu 1998 og það reyndist rétt. Æðsti dómarinn í málinu úrskurðaði að svo væri.

Frú forseti. Ég hugsa ég fari þá að ljúka máli mínu. Satt best að segja nenni ég ekki að standa í meira pexi út af því að ráðherrarnir skuli ekki mæta hér í vinnuna sína. Mér finnst það til skammar. Það er bara auðveldast að segja það á íslensku. Það hvarflaði satt best að segja ekki að mér annað en hæstv. forsætisráðherra yrði hér og mér finnst að formaður hins stjórnarflokksins ætti að vera það líka. En það er kannski bara svona til að undirstrika hugarfarið og í hvaða anda þetta er allt saman unnið að þeir séu það ekki. Kannski er bara einmitt best að það sé þannig. Við skulum þá bara vera dugleg við að benda þjóðinni á það með hvaða hugarfari þessir ágætu herramenn ganga fram. Þegar þeir hafa troðið málinu hér inn á þing, látið verkamenn sína rífa það úr nefnd og komið því hér til umræðu þá telja þeir sig ekki þurfa að hafa áhyggjur af því meir og fara bara heim að sofa, nema þeir séu að gera eitthvað annað. Mér finnst alla vega ekki háreistur svipur yfir því, frú forseti.

Ég lofaði hérna orðabókinni svona í lokin. Var það ekki? Ég lofaði orðabók Menningarsjóðs sem ég veit að á sér marga aðdáendur hér. Ég hef oft áður gripið til hennar þegar mikið liggur við. Ég ætlaði aðeins að skoða nokkur orð af því mér fundust þau einhvern veginn eiga vel við. Það gæti kannski verið upplýsandi og þau gætu staðið sem mín einkunnarorð um þetta mál. Ég ætla því að lesa þau og orðskýringar með þeim. Fyrst er það orðið hrossalækning. Ef við gefum okkur það nú að mönnum hafi í sjálfu sér gengið gott til og gangi gott til, þeir vilji tryggja hér fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði þá er þetta spurningin um meðulin. Eru þá meðulin sem gripið er til líkleg til að duga? Ég hef miklar efasemdir um það og þær hafa komið hér fram hjá fleirum og eru vel rökstuddar. Svo mikið er víst, og það fullyrði ég, að væri þetta eða verði þetta einhver lækning þá er hún að minnsta kosti hrossalækning. Og hvað er hrossalækning samkvæmt orðabók Menningarsjóðs? Jú, það er að lækna hesta. Í öðru lagi er það harðneskjuleg eða subbuleg (og vafasöm) læknisaðferð eða aðgerð. Ég held að það sé ekki of djúpt í árinni tekið að kalla þetta hrossalækningu þá í þessari annarri merkingu orðsins. (Gripið fram í: Skottulækning.) Þetta er miklu verra en það. Þær eru iðulega alveg meinlausar. Að gefa mönnum ópal og telja þeim trú um að það sé meðal er t.d. alveg meinlaust. Það var mikið notað á Langanesi í gamla daga. Það var bara sett ópal í pakka þegar langt var að fara til læknisins og svo lengi sem menn trúðu því að þetta væri kraftmikið meðal þá batnaði þeim snarlega. Líkaminn hefur nefnilega mikið lag á því að lækna sig sjálfur ef hann fær að vera í friði fyrir læknunum. Þetta segir Pétur Pétursson læknir og ekki lýgur hann.

Hitt sem ég var að hugsa um, frú forseti, ætti hér býsna vel við. Það er orðið valdníðsla. Mér finnst stefna í að þetta verði í raun valdníðsla, valdboð stjórnmálamanna, ofríki stjórnmálamanna sem hafa auðvitað stöðu til að knýja þetta svona hér í gegn. En það er enginn svipur á því. Þetta er ekki í lagi. Hvað stendur um orðið valdníðslu í orðabók Menningarsjóðs? Jú, það er kvenkyn, misnotkun valds, það að ólögmæt sjónarmið (einkahagsmunir, óvild eða flokkshagsmunir eða þess háttar) ráði ákvörðun stjórnvalds. (Gripið fram í: Heyr! Heyr!) Er það ekki býsna nærri því að vera það sem hér kynni að vera á ferðinni, það að ólögmæt sjónarmið, einkahagsmunir, óvild eða flokkshagsmunir ráði ákvörðun stjórnvalds.

Mér finnst, herra forseti, ágætt að hætta á þessum nótum, ekkert gaman, en ég geri það samt, að þau einkunnarorð sem ég get best gefið þessu með viðhlítandi orðskýringum séu hrossalækning og valdníðsla.