Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 22:42:59 (7899)

2004-05-11 22:42:59# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ISG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[22:42]

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta má auðvitað til sanns vegar færa. Það eru samþykkt lög sem setja opinberum fyrirtækjum ákveðna ramma. Við erum með lög um Ríkisútvarp. Við erum með lög um Landsvirkjun. Við erum með lög um Orkuveitu Reykjavíkur og svo framvegis. En við erum nú kannski ekki að vísa til þess þegar við erum að tala almennt um lagasetningu sem tekur til markaðarins sem slíks. Við erum að tala þarna um opinber fyrirtæki.

Varðandi SPRON-málið, af því það kom hér upp í kvöld, verður auðvitað að hafa í huga við það mál að Alþingi var þar að lagfæra lög sem sett voru á sínum tíma og reyndust vera gölluð og reyndust ekki vera með þeim hætti sem Alþingi taldi. Þó svo að reyndar hefði verið varað við því á sínum tíma að ákveðinn annmarki væri á lögunum sem menn ættu að vara sig á þá sáu menn ekki alveg fyrir þá atburðarás sem síðar varð. Þess vegna má segja að Alþingi hafi þar verið að lagfæra ákveðinn galla á sinni eigin lagasetningu. En hér erum við að tala um ný lög þannig að við ættum ekki að þurfa að haga okkur með þeim hætti.