Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 22:44:16 (7900)

2004-05-11 22:44:16# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[22:44]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Frú forseti. Ekki einu sinni heldur þetta nú alveg vegna þess að svo vill til að hér er um að ræða bandorm sem einmitt breytir tvennum lögum. Verði hann afgreiddur eins og ríkisstjórnin leggur hann fram og sérstaklega með breytingartillögunum eins og þær verða þá verður hann aldrei til í lagasafninu heldur ganga mismunandi ákvæði hans annars vegar inn í útvarpslög og hins vegar inn í samkeppnislög. Þar með er verið að breyta ákvæðum eldri laga vegna þess að menn telja sig standa frammi fyrir væntanlega breyttum aðstæðum og þurfa að taka á þeim, að samkeppnislögin óbreytt dugi ekki, nái ekki þeim markmiðum sem menn vilja ná fram í fjölmiðlun og svo framvegis.

Ég tek það auðvitað fram að ég tel þessa lagasetningu ranga og illa að henni staðið. En að formi til og sögulega séð má segja að atvikin séu þá hliðstæð, að Alþingi sé að bæta ákvæðum inn í lög sem fyrir eru vegna þess að menn eru að bregðast við einhverju ástandi sem annaðhvort er fyrirsjáanlegt eða er þegar orðið. Það er kannski það sem skilur fyrst og fremst á milli þessara mála, SPRON-málsins og málsins nú, að annað ástandið var í vændum, hitt er þegar orðið. Að því leyti til eru lögin auðvitað í öðru samhengi.