Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 22:55:38 (7909)

2004-05-11 22:55:38# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÁÓÁ
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[22:55]

Ágúst Ólafur Ágústsson:

Frú forseti. Ég vil byrja á að tæpa örlítið á þeim vinnubrögðum sem hafa verið tíðrædd í þingsalnum en ég held að ekki sé hægt að ræða efnisatriði frv. án þess að tala um vinnubrögðin. Gagnrýni á vinnubrögðin felst m.a. í því að málið hafi ekki verið skoðað til hlítar, m.a. með hliðsjón af stjórnarskrá og EES-samningnum. Þar af leiðandi er efnisleg andstaða við málið í ljósi slæmra vinnubragða. Það er augljóst að málið er ekki fullunnið ...

(Forseti (JóhS): Forseti vil gjarnan hafa einn fund í salnum.)

Það er augljóst að málið er ekki fullunnið og því til staðfestingar er að það er enn þá til umræðu hjá öðrum fagnefndum þingsins, menntmn. og efh.- og viðskn., þar sem formenn og stjórnarmeirihluti í þeim nefndum líta augljóslega svo á að málið sé ekki fullunnið. Þrátt fyrir það hefur þeirri ósk verið hafnað sem stjórnarandstaðan bar upp fyrr í dag um að fresta umræðunni þar til þeim fundum lyki.

Ef við förum aðeins aftur í vinnuna sem átti sér stað í allshn. þar sem ég á sæti, þá var hinn skammi umsagnarfrestur það fyrsta sem kom okkur á óvart í málinu. Veigamiklir hagsmunaaðilar fengu tvo daga til að skila inn umsögnum. Margar hverjar áttu að vera mjög lögfræðilegar og varða gríðarlega hagsmuni fyrir viðkomandi aðila. Í kjölfarið uppskárum við umsagnir sem bæði voru ófullkomnar að mati þeirra sem gáfu umsagnirnar en nánast allar umsagnirnar sem bárust allshn. byrjuðu á þeim orðum að vegna skamms tíma teldist þetta ekki fullnægjandi umsögn og að þetta væri ófullkomin umsögn að margra mati, o.s.frv.

Það sem var einnig alvarlegt við þá ákvörðun stjórnarmeirihlutans að gefa þennan skamma umsagnarfrest var að í sumum tilvikum treystu veigamiklir umsagnaraðilar sér ekki til að gefa umsögn. Þannig að allshn. barst það svar að viðkomandi félag, t.d. Lögmannafélagið, laganefnd Lögmannafélagsins sem iðulega hefur lykilumsögn í málum sem varða allshn., treysti sér ekki til að gefa umsögn innan þessa frests og niðurstaðan varð sú að við höfum enga umsögn frá þeim við þessa umræðu til að styðjast við. Enga umsögn vegna ákvörðunar framsóknarmanna og sjálfstæðismanna í nefndinni. Það er mjög mikilvægt að halda því til haga við umræðuna að stjórnarmeirihlutinn í nefndinni telur fimm manns, minni hlutinn telur fjóra, þannig að hver og einn einstaklingur í allsh. er oddaatkvæði. Þar eru fjórir sjálfstæðismenn og einn framsóknarmaður, Jónína Bjartmarz. Það er stjórnarmeirihlutinn sem tók þær ákvarðanir sem við stóðum frammi fyrir í nefndinni.

Strax í vinnu nefndarinnar komu fram afar alvarlegar athugasemdir. Ég er ekki að tala um einhverjar athugasemdir af pólitískum toga eða augljóslega hagsmunatengdar athugasemdir. Ég er að tala um grafalvarlegar athugasemdir um gildi frv. gagnvart stjórnarskránni, EES-samningnum og mannréttindasáttmála Evrópu. Það eru alvarlegar athugasemdir. Þetta voru ekki hefðbundnar pólitískar athugasemdir hagsmunaaðila úti í bæ. Það eru alvarlegar athugasemdir sem við þingmenn verðum að taka mjög alvarlega. Að sjálfsögðu er það undantekning að við erum að fjalla um frv. sem hugsanlega brýtur í bága við stjórnarskrá. Í flestum tilvikum er enginn vafi á að þau standast stjórnarskrá en það kemur að því að við fáum slík mál frá stjórninni sem eru vafamál og þá ber okkur að skoða þau. Það var það eina sem minnihlutinn í allshn. bað um. Af hverju fengum við ekki lögfræðiálit óvilhallra stofnana, trúverðugra stofnana úti í bæ, Evrópuréttarstofnunar Háskólans í Reykjavík og Lagastofnunar Háskóla Íslands? Það vildi framsóknarmaðurinn ekki, það er aðeins einn framsóknarmaður í nefndinni, og hinir fjórir fulltrúar Sjálfstfl. ekki heldur. Við báðum um að kosið yrði um þetta svo það væri skýrt. Það var mikil tregða á því að kjósa um þetta með beinum hætti í nefndinni en við fengum það í gegn og hinni eðlilegu ósk okkar var hafnað.

[23:00]

Þá komu fulltrúar stjórnarflokkanna í fjölmiðla sama dag og töluðu um að að svo stöddu hefði þessari beiðni verið hafnað og menn ætluðu að sjá til eftir tvo daga. Þetta átti sér stað á laugardaginn. Þessir hv. þm. sögðu í fréttum á laugardaginn: Að svo stöddu var ósk stjórnarandstöðunnar um lögfræðiálit hafnað. Síðan leið mánudagurinn en það var sá dagur sem hv. þm. sögðust ætla að skoða málið aftur, og þá var sama ákvörðun tekin með kosningu þannig að það var enginn vilji til að láta skoða hvort frv. stæðist stjórnarskrá, hvort það stæðist EES-samninginn eða mannréttindasáttmálann. Og meira að segja á þessum örlagaríka mánudagsfundi þar sem gert var ráð fyrir átta klukkustunda fundi allshn. byrjuðum við daginn á að hitta fulltrúa stærsta hagsmunaaðilans, Norðurljósa, og lögfræðinga þeirra. Þeir mættu með 40 blaðsíðna lögfræðiúttekt sem enginn í nefndinni hafði séð. Við ræddum þá álitsgerð jafnóðum og við lásum hana. Við spurðum hlutaðeigandi aðila sem komu fyrir nefndina fjölmargra spurninga en tíminn nægði ekki til að klára allar spurningarnar og þessir herramenn frá Norðurljósum, lögmenn Mörkinni og hagsmunaaðilar þeirra, yfirgáfu okkur, fundinn, (Gripið fram í.) með þeim orðum, a.m.k. orðum stjórnarandstöðunnar, að við vildum fá þá aftur til að klára spurningarnar. Þannig skildum við við þessa stærstu hagsmunaaðila málsins. Svo var haldinn þingflokksfundur klukkan hálfeitt til þrjú. Þá hittust allir þingflokkarnir. Hver og einn þingflokkur ræddi málið og svo klukkan fimm hittist nefndin aftur sama dag. Þá fengum við þrjá góða gesti, sérfræðinga í stjórnskipunarrétti, Björg Thorarensen, prófessor í stjórnskipunarrétti, dr. Ragnhildi Helgadóttur, lektor í Háskólanum í Reykjavík, og Sigurð Líndal lagaprófessor. Þetta er þungavigtarfólk í allri lögfræðilegri umræðu sem varðar stjórnarskrána. Þessir þrír aðilar komu strax með mjög alvarlegar athugasemdir við frv. og lýstu miklum efasemdum um að það stæðist stjórnarskrá og það sem þau sögðu var mjög trúverðugt, enda eru þetta sérfræðingar í fremstu röð.

Við spurðum þessa sérfræðinga spjörunum úr. Að því loknu ákvað meiri hlutinn að taka matarhlé og sagði að við ættum að hittast aftur um kvöldið. Við spurðum hvað stæði þá til vegna þess að það voru engir gestir á dagskrá en það voru fjölmargir aðilar sem áttu eftir að fylgja umsögnum sínum og koma fyrir nefndina. Þá var bara beinlínis gefið í skyn að málið ætti hugsanlega að afgreiða úr nefnd. Þann sama dag og við hittum í fyrsta skipti fulltrúa Norðurljósa og lögmenn þeirra, sama dag og við hittum sérfræðinga í stjórnskipunarrétti í fyrsta skipti. Á þeim sama fundi virtist meiri hlutinn vera tilbúinn til að afgreiða málið út. Hv. þm. í allshn. úr Sjálfstfl. og Framsfl. sátu því á breytingartillögum og nefndaráliti allan þann tíma meðan þessir sérfræðingar og hagsmunaaðilar voru kallaðir fyrir nefndina og komu með sín rök en það stóð ekki til að hlusta á þá. Það var ekki tilgangurinn. Þetta var leiksýning frá A til Ö. Að sjálfsögðu tók stjórnarandstaðan þátt í henni. Við áttum ekki annarra kosta völ. Við reynum að bæta upp mál sem við tökum til umfjöllunar frá stjórninni, það er hlutverk okkar, því ekki eru okkar mál afgreidd úr nefndunum, þau daga uppi þó að stjórnarmeirihlutinn sé sammála þeim. Þeir hleypa ekki stjórnarandstöðumálum úr nefndum vegna þess að það virðist skipta svo miklu máli hvaðan gott kemur. Að sjálfsögðu á það ekki að vera svo.

Engu að síður vorum við komin þarna um hálfníuleytið á mánudagskvöldið. Þá voru okkur kynntar eftir mat skrifaðar breytingartillögur og við sáum nefndarálit á borðum hinna nefndarmannanna í stjórninni, okkur var ekki sýnt það en við getum litið til hliðar og við sáum að það var tilbúið. Við gerðum miklar athugasemdir við þetta enda töldum við málið að öllu leyti vera vanbúið. Það var ekki búið að svara grundvallarathugasemdum, fjölmargt var eftir að skoða en það skipti ekki neinu máli. Málið átti að fara út sama dag og við fengum glænýjar og mjög mikilvægar upplýsingar frá Norðurljósum, frá lögmönnum Mörkinni, frá prófessorum og sérfræðingum í stjórnskipunarrétti. Og til að kóróna vinnuferlið var boðað til fundar í þessum sal þetta sama kvöld til að dreifa breytingartillögunum og nefndarálitinu og til að toppa þetta enn frekar var ákveðið að málið ætti að fara á dagskrá daginn eftir sem er í dag. Stjórnarminnihlutinn þurfti að vera að skrifa nefndarálit í alla nótt. Hugsanlega hafa þeir metið það svo að það væri þeim í hag en svona kemur stjórnarmeirihlutinn fram við stjórnarminnihlutann sem er þó minni hluti sem 49% af þjóðinni kaus í síðustu kosningum. 49% af þjóðinni er á bak við stjórnarandstöðuna. Það er ekki eins og við séum einhverjir litlir klúbbar úti í bæ með fáa aðila á bak við okkur og síðustu daga er stjórnarandstaðan með góðan meiri hluta samkvæmt skoðanakönnunum. En svona er komið fram við stjórnarandstöðuna og mér sem nýjum þingmanni kemur það afskaplega á óvart. Vonandi mun þetta breytast. Ég hélt reyndar, hugsanlega í einhverri barnalegri trú minni, að með nýrri kynslóð kæmi nýr hugsunarháttur, ný vinnubrögð, en svo virðist ekki vera ef við lítum á þá einstaklinga sem eru að stjórna eða a.m.k. að taka þátt í þessari leiksýningu. Það eru allt glænýir þingmenn, hv. þm. Bjarni Benediktsson er formaður allshn., hann stjórnar vinnulagi nefndarinnar, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, glænýr þingmaður, hv. þm. Birgir Ármannsson, glænýr þingmaður. En ég ásamt þessum hv. þm. eigum eins árs afmæli í dag, við erum búnir að vera á þingi í eitt ár. Mér finnst þetta vera mjög sneypulegt upphaf á pólitískum ferli þessara manna. Er þetta það sem koma skal, eða hvað? Hugsanlega eru þessir menn aldir upp við slík vinnubrögð. Það er augljóst að það tengist ekki því hversu gamlir menn eru hvernig þeir starfa. Sú kenning hefur augljóslega fallið um sjálfa sig. Ég held að þessi vinnubrögð, bæði þing og þjóð sjá það, séu óeðlileg í alla staði. Í Noregi tók slík endurskoðun fjögur ár. Hvað ætlum við að taka í þetta? 14 daga, hámark?

Hæstv. menntmrh. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sem hafði góðan tíma til að undirbúa sig til að taka við embættinu og er núna búin að vera menntmrh. í nokkra mánuði svarar iðulega spurningum stjórnarandstöðunnar um hvaðeina sem snertir embætti hennar að hún sé ekki alveg búin að kynna sér málið, hún þurfi meiri tíma. Hún er ekki enn þá búin að móta sér stefnu varðandi Ríkisútvarpið. Það hefur tekið hana nokkur ár því áður en hún fór í pólitík starfaði hún hjá Ríkisútvarpinu. Enn þá sjáum við ekki stefnu hennar varðandi Ríkisútvarpið en það tekur hana 14 daga að mynda sér stefnu um eignarhald á fjölmiðlum. Það var ekkert mál.

Mér finnst eins og það hafi í rauninni verið markmið að vinna málið illa, heimskulegt markmið að sjálfsögðu, en það virðist vera að enginn vilji hafi verið til að vinna málið vel. Það átti að vinna það hratt, það átti að keyra það í gegnum umsagnaferli, það átt að keyra það í gegnum gestina, það átti að keyra það í gegnum þingið og í gegnum þjóðina. Í umræðu um eins veigamikla hluti í samfélagi okkar og fjölmiðlamakaðurinn er þá er það er umræða sem þjóðin þarf að taka þátt í en hún hefur ekki fengið það.

Nú langar mig aðeins að fara yfir þær breytingartillögur sem kynntar hafa verið af hálfu meiri hlutans. Í mínum huga er alveg ljóst að breytingartillögurnar breyta ekki efnisatriðum frv. Ég var á móti frv. efnislega. Mér finnst það alvarlegt inngrip í markað sem ég sé ekki réttlætingu fyrir. Þessar breytingartillögur bæta það ekki. Sigurður Líndal, einn af þeim sérfræðingum sem sagði að frv. gengi lengra en þörf væri á hefur einnig sagt að þessar breytingartillögur nægi ekki til að koma til móts við kröfur stjórnarskrárinnar. Þeir eru því ekki búnir að koma til móts við þær fjölmörgu athugasemdir sem þeir fengu, eins og hv. þm. hafa verið að segja í fjölmiðlum í allan dag. Þeir hafa ekki mætt einni einustu athugasemd. Þetta er sami efnislegi óskapnaðurinn og hann var með hinum annarlega tilgangi. Við þurfum bara að líta á hver tilgangurinn er. Ég held að hv. þm. og hæstv. ráðherrar átti sig ekki alveg á því hvað það þýðir að benda á blöð og segja: Þetta þarf að stöðva, eins og hæstv. félmrh. Árni Magnússon gerði. Eða þegar hæstv. forsrh. Davíð Oddsson segir máli sínu til stuðnings: Sjáið stríðsfyrirsagnirnar, það þarf ekki annað en að líta á blöðin. Og þetta hefur verið endurtekið aftur og aftur af fulltrúum Sjálfstfl. og Framsfl. En með því eru menn að benda á að það er efnið sem þeir eru ósáttir við, og hvað er það? Það er ritskoðun. Fjölmiðlar hafa heilagan rétt til að skrifa um og gagnrýna stjórnvöld og stjórnmálamenn. En stjórnmálamenn og stjórnvöld eiga ekki að hafa neinn rétt til að banna eða setja lög á viðkomandi fyrirtæki vegna þess að þeim líkar ekki hvað stendur í viðkomandi miðli. Þá eru þeir komnir á afskaplega hættulegar slóðir. Eftir að breytingartillögurnar voru kynntar er tilgangurinn orðinn enn þá grímulausari. Málið er enn þá meira sniðið að einum aðila á markaðnum, Norðurljósum. Við verðum bara að tala um hlutina eins og þeir eru.

[23:15]

Verði þessi óskapnaður að lögum er hér um að ræða ströngustu löggjöf á fjölmiðlamarkaði sem þekkist á Vesturlöndum. Þetta hafa erlendir sérfræðingar staðfest og sagt og þetta hafa stjórnarþingmenn ekki getað hrakið. Þeir hafa ekki getað bent á einhverjar fyrirmyndir. Hvergi annars staðar mundu ríkja jafnmiklar takmarkanir á eignarhaldi fjölmiðla og hér verða ef frv. verður að lögum. Floyd Abrams, þekktur lögfræðingur, sérfræðingur í tjáningarfrelsi sem hefur unnið fyrir New York Times og hefur kennt fjölmiðlarétt, kom fyrir nefndina. Hann er þungavigtarmaður, það hefur enginn efast um, hann kom hingað til lands og staðfesti þetta. Hann þekkti ekki nein dæmi um eins stranga löggjöf og þetta frv. býður upp á. Hann sagði að það væri augljóst að lögin beindust að einni samsteypu og það væri klárlega brot á lögum um tjáningarfrelsi. Svo sagði hann, með leyfi forseta:

,,Stjórnvöldum leyfist ekki að þagga niður í fólki og knésetja fyrirtæki einungis vegna þess að stjórnvöld eiga í deilum við þau fyrirtæki eða mislíkar við þau.``

Þetta segir hann. (BjarnB: Kemur á óvart.) Já, kemur þér kannski á óvart. En við stöndum frammi fyrir þessu, hv. þm. Bjarni Benediktsson. Hv. þm. Bjarni Benediktsson er að stuðla að frv. sem lýtur að einu fyrirtæki og fer hugsanlega í bága við grundvallarreglur. Engar smáreglur. Grundvallarreglur um eignarrétt, tjáningarfrelsi, atvinnufrelsi, lög um afturvirkni, lögfræðilega vissu, o.s.frv. Við fengum ekki að skoða það í betra tómi í nefndinni undir stjórn hv. þm. Bjarna Benediktssonar, það lá svo mikið á.

Þessir þingmenn sem sitja í allshn., margir hverjir, hafa haft stór orð um gildi frelsis á markaði og frelsi einstaklingsins og voru að mörgu leyti kosnir út á það. Þeir voru kosnir út á hugmyndafræði um frjálslyndi og frelsi. Svo koma þeir inn á þing og allt er svikið. Þeir eru í sínu liði. Það hefur meira að segja einn stjórnarþingmaðurinn sagt. Eftir að hún kom inn á þing gjörbreytti hún um stefnu í menntamálum og svar hennar á hennar eigin heimasíðu var: ,,Þessi stjórnarandstöðuþingmaður`` --- sá sem hér talar --- ,,áttar sig ekki á því að nú er ég í stjórnarliðinu.`` En ég áttaði mig ekki á því að sannfæringin og hugsjónirnar hyrfu við það að vera kosinn á þing. Því miður áttaði ég mig bara ekki á því.

Mig langar að vitna í viðtal við hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson sem situr í nefndinni, allshn., og er oddamaður í nefndinni. Þar er hver maður oddamaður, þ.e. hver maður í þeirri hv. þingnefnd getur komið í veg fyrir þessa málsmeðferð þar sem stjórnarandstaðan hefur fjóra, stjórnin fimm. Hann segir eftirfarandi árið 2001 í tímaritinu Lagakrókum. Hann er spurður: Eiga samkeppnislög rétt á sér? Með leyfi forseta, segir Sigurður Kári:

,,Nei, ef aðili á markaði níðist á neytendum eða öðrum aðilum á markaði eiga markaðslögmálin að fá að leiðrétta slíkt en ekki eftirlitsstofnun á vegum hins opinbera.``

Þetta sagði hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson (SJS: Hvar er þingmaðurinn?) fyrir þremur árum. (Gripið fram í: Það þarf að sækja hann.) Hvað hefur breyst? Hann vill ekki samkeppnislög en hann vill ströngustu löggjöf sem þekkist á fjölmiðlamarkaði á Vesturlöndum. Það eina sem hefur breyst er að hann var kosinn á þing.

Önnur spurning í sama tímariti. Sigurður Kári er spurður: Hver eiga viðurlög við brotum á samkeppnislögum að vera? Með leyfi forseta, segir hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson og nefndarmaður í allshn.:

,,Þar sem ég er mótfallinn samkeppnislögum þá tel ég að viðurlögin eigi engin að vera. Viðurlög markaðarins eru nægilega hörð. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að samkeppnisyfirvöld hafi farið langt fram úr sjálfum sér í nýlegum lögum þar sem lagðar hafa verið allt of þungar sektir á aðila á markaði sem sakaðir eru um brot á samkeppnislögum.``

Þetta sagði hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson fyrir þremur árum. Hvernig stenst þetta á við það sem hann er að berjast fyrir núna að koma í gegn í þinginu? Sá spyr sem ekki veit. Það er augljóst að eitthvað hefur gerst hjá þessum ungu mönnum, í þeirri hugmyndafræði sem þeir voru kosnir út á. Þetta eru menn sem vildu ekki samkeppnislög, a.m.k. hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson. Nú vill hann eina ströngustu löggjöf sem þekkist á fjölmiðlamarkaði á Vesturlöndum. Það er furðulegt.

Mig langar aðeins að tæpa á helstu álitaefnunum sem við í stjórnarandstöðunni vildum einmitt að skoðuð yrðu betur, efnisleg atriði, ég er ekki að tala um einhver formsatriði. Það er ekki hægt að afgreiða það sem ég er að fara að segja núna sem einhver formsatriði, því þetta eru atriði sem snerta stjórnarskrá, EES-samninginn, mannréttindi. Þetta eru atriði sem láta mann vera efnislega ósammála frv.

Það fyrsta sem mig langar að nefna er meðalhófsreglan sem allir hv. þm. í allshn. þekkja mjög vel, enda allir löglærðir eða flestir. Þetta er grundvallarregla sem byggist á því að ekki sé gengið lengra en þörf krefur til að ná settu markmiði. Þetta er fyrsta atriðið sem við þurfum að skoða. Þetta er fyrsta atriðið sem nánast allir lögfræðingar sem komu fyrir nefndina bentu á að væri hugsanlega brotið, meðalhófsregla íslenskra stjórnarskipunarlaga sem dómstólar hafa mótað. Þessi regla er einnig til í íslenskum stjórnsýslurétti. Það er ágætt að rifja kannski upp hvað stendur í 12. gr. stjórnsýslulaganna um meðalhófsregluna. Með leyfi forseta, stendur þar:

,,Stjórnvald skal því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til.``

Inntaki reglunnar í stjórnskipunarrétti hefur verið lýst á eftirfarandi hátt, með leyfi forseta:

,,Markmið þeirrar takmörkunar á réttindum sem um ræðir verður að vera lögmætt og skerðingin verður aðeins framkvæmd samkvæmt beinni lagaheimild. Skerðingin verður að vera nauðsynleg í lýðræðisþjóðfélagi og má ekki ganga lengra en þörf krefur til þess að ná hinu lögmæta markmiði.``

Að mínu viti er þessi regla brotin. Hér er gengið lengra en þörf krefur til að ná viðkomandi markmiði. Það má alveg deila um markmiðið. Tökum það aðeins frá. Nú erum við að tala um leiðina. Þeir sérfræðingar sem komu fyrir nefndina töldu að hægt væri að ná markmiðinu með vægari leiðum. Formaður fjölmiðlanefndarinnar svokölluðu, Davíð Þór Björgvinsson, sagði frammi fyrir nefndinni að það væri hægt að ganga skemur en frv. laut að. Ef það er hægt brýtur frv. meðalhófsreglu stjórnskipunarréttar. Og allt tal um þessar hlægilegu breytingartillögur, þær mæta ekki þessum kröfum, þessi 5% sem bætt var inn. Það er hægt að ganga vægar en það til að ná svipuðum markmiðum. Að mínu viti er það alveg augljóst.

Með öðrum orðum felur reglan um meðalhófið það einfaldlega í sér að löggjafanum ber að velja vægasta úrræðið sem að gagni getur komið til að ná því markmiði sem að er stefnt. Um það snýst þetta.

Prófessor í stjórnskipunarrétti, Björg Thorarensen, kom fyrir nefndina. Hún sagði að vera þyrftu veigamikil rök fyrir því að setja svo íþyngjandi reglur eins og frv. lýtur að, m.a. út af meðalhófsreglunni. Og hún nefndi líka jafnræði. Við sjáum ekki þessi veigamiklu rök, hvorki í frv., í athugasemdum við frv. né í umræðunni á þinginu. Við sjáum þau ekki enn þá. Við sjáum hins vegar hæstv. forsrh. uppnefna fjölmiðlana, kalla alla þá sem leyfa sér að gagnrýna málið ,,málpípur Baugs``. Hæstv. forsrh. er að benda á efni sem hann er ósáttur við. Hann dettur í þann pytt sem fleiri hafa gert í umræðunni að gagnrýna efnið. Þá eru menn komnir á mjög hálan ís.

Það er mjög furðulegt í þessari umræðu sem við í stjórnarandstöðunni bentum á að frv. hafi sértæk áhrif, þ.e. lúti að einum aðila á markaðnum öðrum fremur, svokallað ,,laser beam`` ákvæði sem hefur verið rætt, að þá er iðulega svarað að þetta séu almennar reglur. Almennar reglur en kemur ekkert Baugi við eða Norðurljósum, en í sömu andrá kemur hæstv. forsrh. Davíð Oddsson í fjölmiðla og segir að stjórnarandstaðan hljóti að vera málpípa Baugs. Ég hélt að málið snerist ekkert um Baug eða Norðurljós. Hvort er það?

Það er líka svolítið merkilegt að skoða þessar málpípur Baugs. Þeir sem hafa leyft sér að efast um stjórnskipunarlegt gildi frv. eru Björg Thorarensen, prófessor í stjórnskipunarrétti, Sigurður Líndal, Ragnhildur Helgadóttir, Þorbjörn Broddason, Ólafur Harðarson, Verslunarráð, Samtök atvinnulífsins, Árvakur o.s.frv. Þetta eru allt aðilar sem hafa lýst efasemdum um frv. og ekki talið æskilegt að það yrði lögfest. Þetta eru málpípur Baugs samkvæmt málflutningi hæstv. forsrh.

Annað sem mig langar aðeins að minnast á er spurningin um afturvirkni. Efasemdir hafa komið fram um hvort frv. standist almennar kröfur um afturvirkni. Enn komum við aftur að því að við í nefndinni fengum ekki einu sinni að skoða það. Við fengum t.d. ekki lykilumsagnir, lögfræðilegar umsagnir, t.d. frá Lögmannafélaginu sem treysti sér ekki til að gefa umsögn á svo skömmum tíma. Nefndin sótti ekki að fá umsagnir frá óvilhöllum aðilum í samfélaginu. Því var hafnað, ekki einu sinni heldur tvisvar. Það mátti ekki skoða það.

Lög ber að telja afturvirk sem taka til tilvika sem gerðust fyrir gildistöku þeirra eða tilvika sem eiga upptök sín í atvikum er áttu sér stað að nokkru eða öllu leyti fyrir þann tíma. Mér finnst það vekja spurningar um hvort frv. og breytingartillögurnar sé ekki afturvirkt, íþyngjandi á einhvern hátt. Mér finnst sterk rök mæla fyrir því.

Eignarrétturinn, ein mikilvægustu réttindi sem stjórnarskráin tryggir bæði fyrirtækjum og fólki hér á landi. Hvernig hljóðar eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar í 72. gr., með leyfi forseta:

,,Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.

Með lögum má takmarka rétt erlendra aðila til að eiga fasteignaréttindi eða hlut í atvinnufyrirtæki hér á landi.``

Þetta er eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Við skulum líta á vernd eignarréttar sem finna má í 1. gr. I. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu, en það hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Öllum mönnum og lögaðilum ber réttur til að njóta eigna sinna í friði. Skal engan svipta eign sinni, nema hagur almennings bjóði og gætt sé ákvæða í lögum og almennra meginreglna þjóðaréttar.

Eigi skulu þó ákvæði undanfarandi málsgreinar á nokkurn hátt rýra réttindi ríkis til þess að fullnægja þeim lögum sem það telur nauðsynleg til þess að geta haft hönd í bagga um notkun eigna í samræmi við hag almennings eða til þess að tryggja greiðslu skatta eða annarra opinberra gjalda eða viðurlaga.``

Í þessum ákvæðum er undirstrikað mikilvægi eignarréttarins og hversu friðhelgur hann er. Hins vegar er löggjafanum heimilt að takmarka eignarrétt, krefjist almenningsþörf slíks og komi fullt verði fyrir og meðalhófsreglan kemur aftur hér inn í túlkun á eignarréttinum. Var hægt að fara vægari leið til að ná settu markmiði?

[23:30]

Rétt er að taka fram að samkvæmt hefðbundinni lögskýringu er eign og eignarréttur skilgreint í víðum skilningi þeirra orða. Þetta eru grundvallaratriði sem við verðum að geta svarað ef við ætlum að samþykkja lög, en það mátti ekki leita álits fleiri aðila. Það er iðulega bent á að menn geti einfaldlega leitað til dómstólanna. Svona er unnið hér í þinginu. Ef menn eru ósáttir þá fari þeir bara í mál. Mönnum dettur ekki í hug að reyna að vanda sig. Gera heimavinnuna sína. Hlusta á sérfræðingana. Nei, borgararnir geta bara farið í mál. Það hafa þeir gert og unnið aftur og aftur. Það fer að verða reglulegur viðburður hér á landi að ríkisstjórnin fái a.m.k. eitt stjórnarskrárbrot í hausinn á ári. Ísland, íslensk ríkisstjórn er sú ríkisstjórn sem fær hvað oftast slíkt í hausinn ef við lítum til Norðurlandanna.

Tjáningarfrelsið er einmitt lykilþátturinn sem er hugsanlega brotinn hér.

Í 73. gr. stjórnarskrárinnar má finna reglur um tjáningarfrelsi og vernd þess. Með leyfi forseta, stendur þar:

,,Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar.

Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða.

Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.``

Í 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, um tjáningarfrelsi, stendur eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Sérhver maður á rétt til tjáningarfrelsis. Sá réttur skal einnig ná yfir frelsi til að hafa skoðanir, taka við og skila áfram upplýsingum og hugmyndum heima og erlendis án afskipta stjórnvalda. Ákvæði þessarar greinar skulu eigi hindra ríki í að gera útvarps-, sjónvarps- og kvikmyndafyrirtækjum að starfa aðeins samkvæmt sérstöku leyfi.

Þar sem af réttindum þessum leiðir skyldur og ábyrgð er heimilt að þau séu háð þeim formsreglum, skilyrðum, takmörkunum eða viðurlögum sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna þjóðaröryggis, landvarna eða almannaheilla, til þess að firra glundroða eða glæpum, til verndar heilsu eða siðgæði manna, mannorði eða réttindum og til þess að koma í veg fyrir uppljóstran trúnaðarmála eða til þess að tryggja vald og óhlutdrægni dómstóla.``

Þetta er löng lesning en þetta er eitt af því sem við hefðum átt að skoða. Fer frv. í bága við tjáningarfrelsið? Það eru til lögfræðingar sem segja já við því. Í rauninni eru fleiri lögfræðingar sem segja já heldur en nei. Maður hefði haldið að það hefði hreyft við stjórnarmeirihlutanum til að skoða málið aðeins betur. Enn sem fyrr var því hafnað.

Það er rétt að taka fram að í 1. mgr. 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu fellur starfsemi útvarps- og sjónvarpsfyrirtækja undir tjáningarfrelsisákvæðin og þá vernd sem þau veita. Sömuleiðis verður að telja að það sama gildi um 73. gr. íslensku stjórnarskrárinnar að þessu leyti.

Það hefur verið minnst á atvinnufrelsi. Nú eru efasemdir um hvort frv. standist atvinnufrelsisákvæði. Það mátti ekki skoða það frekar en annað. En í 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar stendur eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess.``

Hér kemur meðalhófsreglan aftur inn: ,,enda krefjist almannahagsmunir þess``. Meðalhófsreglan er svona rauður þráður, regnhlíf, sem alltaf þarf að hafa í huga þegar kemur að skerðingu á réttindum sem stundum getur verið réttlætanleg. Stundum getur hún verið réttlætanleg með góðum rökum. En hér er gríðarlegur vafi á hvort um slíkt sé að ræða.

Sem betur fer erum við ekki ein í heiminum. Við þurfum að lúta reglum, alþjóðlegum reglum, m.a. EES-samningnum, sem hefur gjörbreytt íslensku samfélagi undanfarin tíu ár. Í rauninni er það EES-samningurinn sem hefur átt hvað mestan þátt í því að breyta þjóðfélaginu í það sem það er og opna það og gera frjálst, enda sjáum við að það er einmitt á þeim sviðum sem EES-samningurinn tekur til þar sem mesta frjálsræðið ríkir en á hinum sviðunum sem EES-samningurinn tekur ekki til, hefur lítið sem ekkert gerst. Vil ég í því sambandi nefna landbúnaðinn sem er sérstakt vandamál að mínu viti, það kerfi.

EES-samningurinn er með mikilvæga reglu um svokallaðan staðfesturétt. Það er rétt að taka fram að hægt er að brjóta EES-samninginn þótt menn mismuni ekki eftir þjóðerni. Sumir nefndarmenn í allshn. virtust halda að allar reglur sem mismunuðu ekki eftir þjóðerni væru í lagi. Svo er ekki. Það er hægt að brjóta EES-samninginn þó menn mismuni ekki eftir þjóðerni, þó að menn láti sömu reglu gilda um Íslendinga og EES-íbúana. Staðfesturétturinn er í 31. gr. EES-samningsins en þar stendur m.a., með leyfi forseta:

,,Innan rammaákvæða samnings þessa skulu engin höft vera á rétti ríkisborgara aðildarríkis EB eða EFTA-ríkis til að öðlast staðfestu á yfirráðasvæði einhvers annars þessara ríkja. Hið sama gildir einnig þegar ríkisborgarar aðildarríkis EB eða EFTA-ríkis, sem hafa staðfestu á yfirráðasvæði einhvers þeirra, setja á stofn umboðsskrifstofu, útibú eða dótturfyrirtæki.

Staðfesturéttur felur í sér rétt til að hefja og stunda sjálfstæða atvinnustarfsemi og til að stofna og reka fyrirtæki, einkum félög eða fyrirtæki í skilningi annarrar málsgreinar 34. gr., með þeim skilyrðum sem gilda að landslögum um ríkisborgara þess ríkis þar sem staðfestan er fengin, þó með fyrirvara um ákvæði 4. kafla.``

Í staðfesturétti EES-samningsins og Rómarsáttmálans felst réttur allra ríkisborgara svæðisins og félaga til að hefja og stunda sjálfstæða atvinnustarfsemi og til að stofna og reka fyrirtæki í öðru aðildarríki með sömu skilyrðum og gilda um ríkisborgara og félög þess ríkis.

Á síðari árum hefur verið staðfest að í staðfesturéttinum felst ekki aðeins bann aðildarríkja við að setja reglur sem fela í sér mismunun á grundvelli þjóðernis, heldur felur hann jafnframt í sér bann við að setja reglur sem takmarka frelsi til staðfestu.

Hér hafa sérfræðingar í Evrópurétti sagt að hugsanlega sé þetta brotið og fari í bága við staðfesturétt EES-samningsins. Forstöðumaður Evrópuréttarstofnunar Háskólans í Reykjavík sagði með þeim hefðbundna fyrirvara hjá lögfræðingi sem hafði tvo daga til að undirbúa sig, að það var ýmislegt sem gæfi til kynna að frv. færi í bága við staðfesturétt EES-samningsins. Annar sérfræðingur í Evrópurétti, Stefán Geir Þórisson hæstaréttarlögmaður, fullyrti fyrir nefndinni að frv. færi í bága við EES-réttinn. Engu að síður neitaði stjórnarmeirihlutinn að skoða þetta nánar. Hann þurfti að keyra málið í gegn.

Önnur ákvæði sem að mínu viti eru hugsanlega brotin með frv. og breytingartillögum þess eru reglur um frjálsa fjármagnsflutninga. Það þarf ekki heldur að mismuna eftir þjóðerni þar. Svo eru reglur um þjónustufrelsið, lögfræðilega vissu og afturvirkni.

Mig langar aðeins að fara yfir stórmerkilega umsögn að mínu viti sem er umsögn Samkeppnisstofnunar. Í stuttu máli er Samkeppnisstofnun afar ósátt við frv. og telur að mörg þeirra ákvæða sem eru í frv. fari beinlínis í bága við samkeppnislögin og markmið þeirra. Með leyfi forseta, stendur þar:

,,Að mati Samkeppnisstofnunar felast í ofangreindum töluliðum 1. gr. frv. verulegar hömlur á eignarhaldi og viðskiptafrelsi á fjölmiðlamarkaði. Það er og mat stofnunarinnar að einstök ákvæði séu samkeppnishamlandi og fari í bága við markmið samkeppnislaga. Eins og áður segir skal stuðlað að markmiði samkeppnislaga með því að vinna gegn óhæfilegum hindrunum og takmörkunum á frelsi í atvinnurekstri og með því að auðvelda aðgang nýrra keppinauta að markaðnum. Ekki verður annað séð en að ákvæði framangreindra töluliða sem felast í frv. takmarki mjög aðgang nýrra keppinauta að markaðnum. Þá má færa fyrir því rök að í þeim felist einnig óhæfilegar hindranir og takmarkanir á frelsi í atvinnurekstri.``

Þetta segir Samkeppnisstofnun um frv. Síðar segir í sömu umsögn, með leyfi forseta:

,,Að mati Samkeppnisstofnunar fæst ekki séð að þessi ákvæði séu nauðsynleg til þess að tryggja markmið frv. Þvert á móti virðast þau vinna gegn markmiði þess þar sem þau t.d. hindra að nýir aðilar hefji útvarps- og sjónvarpsrekstur og auki þar með fjölbreytni í fjölmiðlun hér á landi. Vakin er athygli á því að í skýrslu nefndar menntamálaráðherra sem fylgir frv. kemur fram að sjaldgæft sé í erlendri löggjöf að settar séu takmarkanir við að fyrirtækjum í óskyldum rekstri sé veitt útvarpsleyfi. Samkeppnisstofnun leggur því til að ákvæðið verði fellt brott úr frv.``

Þetta ákvæði er enn þá inni. Breytingartillögur meiri hlutans breyta því ekki. Efnislega er ég sammála umsögn Samkeppnisstofnunar. Ég tel að frv. með breytingartillögunum, sem snerta reyndar ekki þetta ákvæði sem er í a-lið 1. gr., gangi of langt, allt of langt. Ég er efnislega ósammála þessari reglu. Þetta er of mikið inngrip í markaðinn að mínu viti til að það sé réttlætanlegt. Sjálfstfl. og Framsfl., hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson sem vill ekki samkeppnislög sættir sig við þetta. Það er furðulegt.

Samkeppnisstofnun gerir sömuleiðis alvarlegar athugasemdir við ákvæði sem lýtur að banni við að fyrirtæki sem er í eigu markaðsráðandi fyrirtækja sé veitt útvarpsleyfi. Samkvæmt breytingartillögunni hefur verið gerð lítilleg breyting á þessu ákvæði sem lýtur að því að viðkomandi markaðsráðandi fyrirtæki þarf að hafa a.m.k. 2 milljarða kr. veltu og það má eiga upp að 5%. Ég tel þetta ekki mæta þeim kröfum sem gera þarf til svona íþyngjandi lagaákvæðis. Ég tel að með breytingartillögunni sé gengið of langt. Það væri reyndar gaman að fá að vita af hverju 5%, af hverju ekki 3% eða 15%? Kannski er þetta bara tala út í loftið.

Svona heldur umsögn Samkeppnisstofnunar áfram og lýsir mikilli andstöðu við flest ákvæði frv. Þetta er umsagnaraðili sem að mínu viti hefur mjög trúverðuga stöðu hvað þetta mál varðar.

Það er gaman að skoða umsögn Sigurðar Líndals prófessors sem vill nú svo til að hefur kennt allri ef ekki stærstum hluta allshn. Hann gerði góða umsögn þar sem hann færir mjög veigamikil rök fyrir því að frv. standist ekki stjórnarskrá. Hér stendur í umsögn Sigurðar Líndals, með leyfi forseta:

,,Þegar tekin er afstaða til reglna sem takmarka eiga eignarhald á fjölmiðlum verður að hafa í huga að mjög strangar takmarkanir henta illa hér á landi vegna þess hversu smár markaðurinn er og málsvæðið lítið. Allur samanburður við margfalt fjölmennari ríki um samþjöppun á fjölmiðlamarkaði er því villandi.``

Þetta segir prófessor Sigurður Líndal.

[23:45]

Síðar í þessari umsögn segir um ákvæði 1. gr., með leyfi forseta:

,,Eins og þegar hefur verið rakið fela þau í sér að mjög er þrengt að fjárhagslegu sjálfstæði fjölmiðlafyrirtækja, þar sem þeim eru sett veruleg takmörk við að afla áhættufjár. Þá vakna spurningar um það hvort slíkt reisi ekki tjáningarfrelsi skorður og kunni að fara í bága við 73. gr. stjórnarskrárinnar, einkum 3. mgr. ...``

Í þessari umsögn er einnig tekið fram að í öllum mannréttindasáttmálum sé lögð mikil áhersla á vernd tjáningarfrelsisins. Allar takmarkanir ber því að túlka þröngt og gjalda varhuga við hverju einu sem setur því skorður, þar á meðal fjárhagslegar.

Það er skemmtileg lesning að fara í gegnum þær umsagnir sem bárust. Þær voru svo að segja allar neikvæðar, nema hugsanlega frá samkeppnisaðilum Norðurljósa. Félag fréttamanna er andsnúið frumvarpinu. Starfsmannafélag Fréttar er andsnúið frumvarpinu. Starfsmenn Ríkisútvarpsins gagnrýna skamman tíma til athugunar á málinu og telja að frumvarpið veki ótal spurningar sem verði að svara áður en það verði að lögum. Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála fjallar um skamman tíma til umsagnar. Félag bókagerðarmanna telur að frumvarpið gangi of langt, Rafiðnaðarsamband Íslands sömuleiðis. BHM gerir alvarlegar athugasemdir við það, ASÍ gerir það sömuleiðis. Heimur, útgáfufélagið, telur ekki vera þörf á þessu frumvarpi og leggst gegn samþykki þess, telur það ganga of langt. Félagsvísindadeild telur það einnig ganga of langt. Verslunarráð, Árvakur, Þorbjörn Broddason o.s.frv. Nánast hver einasta umsögn er neikvæð í garð frumvarpsins.

Það er því hægt með góðum rökum að rökstyðja að þetta frv. er bæði óklárað, illa unnið og vanbúið fyrir utan þá efnislegu annmarka sem a.m.k. koma í veg fyrir að ég geti stutt það. Hér er einfaldlega gengið of langt á grundvallarréttindi til að hægt sé að réttlæta slíkt inngrip.

Komið hafa fram trúverðugar efasemdir um hvort frv. standist stjórnarskrá EES. Fram hafa komið trúverðugar athugasemdir um að frv. leiði til meiri fábreytni. Hvaða áhrif heldur fólk að frv. hafi á menningarstarfsemi og innlenda dagskrárgerð, ef þrengt er að einkaaðilum á þeim markaði með þessum hætti? Innlend dagskrárgerð er dýrasti kostnaðarliður einkafyrirtækja á fjölmiðlamarkaðnum. Það má ætla að þar verði fyrst skorið niður. Menningarstarfsemi hér á landi skilar meira til þjóðarbúsins en landbúnaðurinn. Hér er því um að ræða grundvallaratvinnugrein sem ber að hlúa að en ekki þrengja að henni.

Í umræðunni hefur verið kallað eftir því hverjar leiðir Samf. eru. Ég get svarað því. Leið Samf. er ekki þetta frv. Það hefur komið margoft fram. Leið Samf. er ekki breytingartillögurnar sem meiri hlutinn hefur kynnt. Samf. hefur t.d. bent á þau úrræði sem eru í samkeppnislögum. Byrjum á þeim. Í 18. gr. samkeppnislaga er úrræði sem veitir samkeppnisráði heimild til að koma í veg fyrir að markaðsráðandi staða fyrirtækja myndist. Í sömu grein er jafnframt úrræði fyrir samkeppnisyfirvöld til að koma í veg fyrir að markaðsráðandi staða eflist, að núverandi markaðsráðandi fyrirtæki auki markaðsráðandi stöðu. Það er hægt að koma í veg fyrir það. Þetta eru leiðir sem Samf. styður heils hugar. Samf. vill efla Samkeppnisstofnun. Við viljum samkeppnislög, enda eru það almennar leikreglur sem nánast allar þjóðir viðurkenna. En eins og fram kom í máli mínu fyrr í kvöld eru til þingmenn í Sjálfstfl. sem vilja ekki hafa nein samkeppnislög. En þeir vilja hafa þessi yndislegu fjölmiðlalög. Ég fæ ekki séð að það fái staðist. Augljóslega ganga fjölmiðlalögin miklu lengra en samkeppnislögin. Í huga þessara manna gengur þetta einhvern veginn saman.

Einnig mætti hugsa sér leiðir til að efla úrræði samkeppnisyfirvalda. Það má alveg skoða það. Við gerum veigamiklar breytingar á samkeppnislögum, aðallega í gegnum EES-samninginn. Við getum sýnt sjálfstæði í því.

Samf. kom með tillögu þegar við vorum að afgreiða fjárlögin fyrir jól um að auka fjármagn til Samkeppnisstofnunar um 30 millj. kr., hlægilega upphæð. Stjórnarmeirihlutinn, allir með tölu, hver einasti stjórnarþingmaður, felldi þá tillögu. Við sjáum hvaða aðstöðu Samkeppnisstofnun er búin. Hún er sjö ár að skoða tryggingafélögin. Ríkisstjórnin er ekki fær um að bregðast við réttaróvissu sem ríkir á þessu sviði, um valdmörk ríkislögreglustjóra og Samkeppnisstofnunar, vegna deilna í ríkisstjórninni. Hæstv. viðskrh. Valgerður Sverrisdóttir og hæstv. dómsmrh. Björn Bjarnason hafa rifist um þetta í allan vetur og niðurstaðan er sú að það er enn ekki búið að leysa úr þessari réttaróvissu.

Núverandi ríkisstjórn hefur engan áhuga á samkeppnislögum. Það er enginn áhugi hjá ríkisstjórninni að efla samkeppnisyfirvöld. En einhverra hluta vegna er gríðarlegur áhugi á að setja eina ströngustu löggjöf sem þekkist á fjölmiðlamarkaðinn.

Samf. hefur einnig komið með tillögur um að efla gegnsæi á fjölmiðlamarkaðnum, gegnsæi í eignarhaldi. Það er gríðarlega mikilvægt atriði. Þetta eru leiðir til að sporna við óæskilegri samþjöppun á markaðnum, eins og það er kallað. Það er grundvallaratriði að vita hverjir eiga fjölmiðlana. Grundvallaratriði. Svo er það neytandans, okkar, að meta hvort við tökum mark á viðkomandi fjölmiðli eða ekki. Við erum lokadómarinn í þessu. Við þurfum ekki að stýra markaðnum að þessu leyti eins og frv. þessu er ætlað.

Samf. hefur einnig lagt fram tillögur um að efla ritstjórnarlegt sjálfstæði. Þetta er ekki einhver klisja sem er bara kastað fram. Þá leið nefnir Páll Þórhallsson í grein sinni, sem hér hefur verið vitnað til. Hann segir t.d. að efla þurfi sjálfstæði Ríkisútvarpsins. Þetta er grundvallaratriði, að ritstjórnirnar séu sjálfstæðar. Blaðamannafélagið hefur ítrekað ályktað um þetta og að það mætti hugsa sér einhvers konar kínamúra. Við þekkjum það af verðbréfamarkaðnum. Svo þarf að tryggja eftirlitið. Hver mundi sinna því eftirliti? Hugsanlega samkeppnisyfirvöld. Þetta eru leiðir sem Samf. hefur lagt til að verði skoðaðar. Samf. hefur ekki lagt til þær leiðir sem þetta frv. fer, langt frá því. Hv. þingmenn Sjálfstfl. segja hins vegar í ljósi þessa, ég held að enginn framsóknarmaður hafi talað hér í kvöld, að fyrst við styðjum ekki þetta frv. þá styðjum við ekki neitt. Hvernig komast þeir að þeirri niðurstöðu? Fyrir liggur tillaga Samf. á þinginu um aðrar leiðir til að bregðast við ástandinu á fjölmiðlamarkaðnum, svo sem að efla gegnsæi og ritstjórnarlegt sjálfstæði.

Síðan Samf. var stofnuð hefur ein meginkrafan innan Samf. verið uppi um að efla samkeppnisyfirvöld. Það er í hugmyndafræði jafnaðarmanna að hafa sterk samkeppnisyfirvöld sem byggist á almennum leikreglum. Hæstiréttur Bandaríkjanna kallaði samkeppnislög stjórnarskrá atvinnulífsins. Stjórnarskrá atvinnulífsins, ,,Magna Charta`` held ég að hæstirétturinn hafi kallað þetta. Menn sjá að án samkeppnisreglna ríkir frumskógalögmálið. Við erum ekki að mæla fyrir því. Við erum ekki að mæla fyrir óheftum markaði. Við höfum aldrei gert það. Við erum að tala um sanngjarnar, almennar leikreglur. Frumvarp ríkisstjórnar er það ekki, langt frá því.

Allar tillögur okkar samfylkingarmanna og jafnaðarmanna um að efla samkeppnisyfirvöld hafa verið felldar, nú síðast 30 millj. kr. aukafjárveiting til Samkeppnisstofnunar fyrir jól. Fellt. Allir þingmenn Sjálfstfl. og Framsfl. felldu það. Enda vilja sumir hv. þm. augljóslega ekki hafa samkeppnislög eins og ég hef margoft komið inn á. Þeir hafa sagt það með beinum orðum. En þeir vilja þessi lög.

Ég held ég láti þetta duga. Ég tel málið vanbúið og vanreifað. Alvarlegar athugasemdir hafa komið hér fram um efni þess. Bent hefur verið á vægari leiðir til að bregðast við þeim markaði og þeim raunveruleika sem við stöndum frammi fyrir.

Samf. vill ekki fara þessa leið. Hún vill vinna svona mál vel og gefa bæði þjóð og þingi tækifæri til að ræða aðferðirnar, leita til sérfræðinga, leita út fyrir landsteinana og fá þetta á hreint enda eru hér gríðarlegir hagsmunir í húfi og gríðarleg réttindi, stjórnarskrárvarin réttindi. Þetta er ekki út í loftið og að mínu mati ekki hefðbundin pólitísk andstaða. Hér er um að ræða grundvallarréttindi og grundvallarvinnubrögð sem við í minni hluta allshn. höfum margoft óskað eftir að meiri hlutinn samþykki en án þess að fá undirtektir.