Afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 10:31:30 (7960)

2004-05-12 10:31:30# 130. lþ. 113.93 fundur 553#B afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[10:31]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Klukkan 8.30 í morgun kom efh.- og viðskn. þingsins saman til fundar. Á dagskrá nefndarinnar voru þrjú eða fjögur mál og hafði formaður efh.- og viðskn. sett síðast á dagskrána það mál sem er til umræðu í þinginu. Umræða um hið umdeilda fjölmiðlamál hófst fimm mínútur yfir 10 og kom þá fulltrúi Samkeppnisstofnunar á fund nefndarinnar. Hann hafði ekki lokið við að svara spurningum nefndarmanna þegar minni hlutinn fór þess á leit við formann nefndarinnar að óskað yrði eftir því að þessum þingfundi yrði frestað til kl. 11 þannig að við gætum lokið við að ræða við fulltrúa Samkeppnisstofnunar. Því var hafnað og bar formaður nefndarinnar fram dagskrártillögu þess efnis að þingmálið yrði tekið út úr nefnd. Sú tillaga var felld. Aðeins tveir þingmenn í efh.- og viðskn. veittu tillögu formannsins stuðning.

Það er ljóst að það er orðinn bullandi ágreiningur um málið í stjórnarliðinu og ég mótmæli þeim vinnubrögðum sem voru viðhöfð í efh.- og viðskn. í morgun. Við höfum óskað eftir því að fá fulltrúa banka og fjármálafyrirtækja á fund nefndarinnar. Það er vilji til þess í nefndinni. Meiri hluti hennar vill fjalla lengur og betur um þetta mál og ég vil mótmæla þeim vinnubrögðum sem hér voru viðhöfð í morgun í efh.- og viðskn.