Afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 10:33:15 (7961)

2004-05-12 10:33:15# 130. lþ. 113.93 fundur 553#B afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[10:33]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ofbeldið sem notað er í þessu máli er orðið hreint með ólíkindum. Í efh.- og viðskn. var staðan þannig að fulltrúi Samkeppnisstofnunar var í miðri setningu þegar hv. formaður nefndarinnar krafðist þess að umfjöllun hennar um málið lyki. Við áttum þá eftir að fá mikilvægar upplýsingar um viðhorf Samkeppnisstofnunar til breytinga sem meiri hlutinn hefur lagt til. Athyglisverðar, segi ég, ekki síst í ljósi þess að svo virðist sem Samkeppnisstofnun telji að breytingarnar séu smávægilegar andlitslyftingar á frv. en breyti í engu þeirri skoðun stofnunarinnar að það sé í andstöðu við markmið samkeppnislaga.

Það sem mér fannst sæta mestum tíðindum var að þegar formaður efh.- og viðskn. lagði til að málið yrði tekið út úr nefndinni greiddu fimm nefndarmenn atkvæði gegn því. Einungis tveir fulltrúar Sjálfstfl. greiddu atkvæði með því að málið yrði tekið út. Annar af tveimur fulltrúum Framsfl. innti formann eftir hvað liði afgreiðslu nefndarálits og spurði hvort ekki ætti að taka það fyrir. Formaður nefndarinnar sagði að það lægi fyrir.

Það kom sem sagt í ljós að Sjálfstfl. fótumtreður Framsfl. með þeim hætti í nefndinni að formaður hennar hafði ekki einu sinni fyrir því að sýna fulltrúum Famsfl. drög að áliti.

Þetta eru ótrúleg vinnubrögð, herra forseti. Ég mótmæli því ofbeldi sem við erum látin sæta í málinu. Málið fær ekki lýðræðislega afgreiðslu á hinu háa þingi.