Afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 10:35:27 (7962)

2004-05-12 10:35:27# 130. lþ. 113.93 fundur 553#B afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps# (aths. um störf þingsins), BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[10:35]

Björgvin G. Sigurðsson:

Virðulegi forseti. Kl. 8.15 í morgun, rúmum fjórum klukkustundum eftir að þingfundum lauk í nótt, kom menntmn. þingsins saman í fyrsta sinni til að sinna því starfi sínu að útbúa álit um fjölmiðlafrumvarpið títtnefnda. Við þökkum í sjálfu sér fyrir það litla sem gert var. Fimm fulltrúar af þeim fjölda sem við óskuðum eftir voru kallaðir til og ber að harma það hve lítilsvirt álit nefndarinnar er og hve mikill skrípaleikur og sýndarmennska er í kringum vinnu nefndarinnar. Hér er 2. umr. um fjölmiðlafrumvarpið vel á veg komin.

Loksins þegar nefndin kemur saman, nánast í skjóli myrkurs eftir þingfund fram í morgunsárið, tekur hún einungis á móti örfáum fulltrúum af þeim sem við lögðum til að kæmu. Það komu t.d. engir úr hópi reyndra blaða- og fréttamanna, engir fulltrúar frá félögum innan atvinnugreina menningarinnar eða fulltrúar frá Blaðamannafélaginu og Félagi fréttamanna. Ber að harma það sérstaklega að menntmn. skuli ekki vera gefinn kostur á því að hafa aðgang að upplýsingum og viðhorfum frá þessum hópum.

Það var vissulega mjög upplýsandi að heyra viðhorf frá virtum fræðimönnum á borð við Herdísi Þorgeirsdóttur sem gaf tóninn um það hve vandvirknislega og vel nefndin hefði getað staðið að málum og hve miklu máli álit hennar hefði getað skipt fyrir 2. umr. um fjölmiðlafrv. Því er því miður ekki að heilsa og því mótmælum við kröftuglega, fulltrúar stjórnarandstöðunnar í menntmn., hvernig nefndin er fótumtroðin í þessu máli. Vinna hennar er einskis virt enda bara um sýndarmennsku og skrípaleik að ræða þegar nefndin kemur saman í rúma klukkustund þegar 2. umr. um frv. er vel á veg komin.

Þetta eru hörmuleg vinnubrögð, virðulegi forseti, og með algerum ólíkindum að stjórnarmeirihlutinn skuli bjóða okkur upp á slíkt á hinu háa Alþingi í jafnmikilvægu grundvallarmáli.