Afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 10:54:30 (7975)

2004-05-12 10:54:30# 130. lþ. 113.92 fundur 552#B afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps# (um fundarstjórn), KLM
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[10:54]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Förum aðeins aftur yfir það sem rætt var um í gær og þá tillögu stjórnarandstæðinga til forseta að efh.- og viðskn. og menntmn. fengju að halda áfram vinnu sinni lengur en frá 8.15 til 10.30.

(Forseti (HBl): Ég vil vekja athygli hv. þingmanns á því að hann er að ræða um fundarstjórn forseta. Hann verður síðan sjálfur að meta ...)

Ég er að því, virðulegi forseti, ef ég fæ að halda áfram.

(Forseti (HBl): ... hvernig --- ekki grípa fram í --- )

Þú ert að grípa fram í fyrir mér.

(Forseti (HBl): ... hann hagar orðum sínum ef hann þekkir þingsköpin.)

Virðulegi forseti. Ég ætlaði að nefna að í gær kom fram góð tillaga sem sýnir sig nú að var fullkomlega eðlileg og hefði verið besta tillagan, að nefndirnar fengju að vinna rólega í morgun og klára sín mál. Hér hefur verið lýsing á því hvernig málin ganga fyrir sig í efh.- og viðskn. Hún þarf meiri tíma. Ef fallist hefði verið á tillögu okkar sem var gáfulegasta tillagan sem kom fram í gær um að halda áfram kl. 13.30 væri ástandið mun skaplegra.

Í morgun nefndi ég það við virðulegan forseta hvort ekki yrði fallist á að fresta þessum fundi og halda áfram kl. 13.30 þannig að efh.- og viðskn. gæti klárað sína vinnu, eða haldið a.m.k. áfram. Mér skilst að forstjóri Samkeppnisstofnunar hafi ekki eingöngu verið stoppaður í umræðunni heldur í miðju orði. Ég ber þá ósk enn fram, virðulegi forseti, að fundi verði frestað hér og nú til þess að efh.- og viðskn. geti haldið áfram störfum, rætt við þá gesti sem þar voru og haldið áfram með málið. Það hefur komið fram og þarf ekki að endurtaka að dagskrártillaga hv. formanns nefndarinnar fékk aðeins tvö atkvæði um að rífa málið út.

Hér hefur það líka verið gert, virðulegi forseti, og það er gott að rifja það upp um fundarstjórn forseta að ekki alls fyrir löngu átti að beita þessu ofbeldi og taka mál út. Þá voru ekki tveir heldur einn sem ætlaði að rífa mál út. Þá var verið að ræða um útlendingalögin. Á fundi með forseta þingsins þá og formönnum þingflokka var þessu harðlega mótmælt. Það endaði með því, virðulegi forseti, mjög skynsamleg ákvörðun hæstv. forseta þingsins, að það var slegið á puttana á formanni efh.- og viðskn. og nánast sagt: Svona gerir maður ekki, svo að vitnað sé í fræg ummæli þar sem talað var við önnur börn, þ.e. blaðburðarbörn forðum.

Ef áfram á að halda á þessum nótum í hv. efh.- og viðskn. held ég að menn hljóti að fara að athuga með að jafnvel þurfi að skipta um formann. Þá er ég ekki að tala um það með okkur stjórnarandstæðinga heldur verða stjórnarsinnar að fara að átta sig á því að það verður að koma skikkanlegri stjórn á fundi nefndarinnar.

Rétt einu sinni, virðulegi forseti, óska ég eftir því að fundi verði frestað þannig að efh.- og viðskn. geti haldið áfram störfum sínum, a.m.k. til kl. 13.30. Núna hefur 25 mínútum verið eytt í þetta sem hefði ekki gerst ef hlustað hefði verið á tillögur okkar í gær um að fundur byrjaði kl. 13.30.