Afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 10:57:46 (7976)

2004-05-12 10:57:46# 130. lþ. 113.92 fundur 552#B afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps# (um fundarstjórn), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[10:57]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Sem fundarstjóri þessa fundar hefur hæstv. forseti að mínu mati að nýju vakið upp ákveðna óvissu um þingsköp. Hann gerir því skóna að minni hluti nefndar, jafnvel einn maður, geti tekið mál út úr nefnd gegn vilja meiri hluta nefndarinnar, skrifað minnihlutaálit og er svo að skilja að með tilstyrk forseta þingsins sé hægt að setja slíkt mál á dagskrá þingfundar. Hér er vakin upp alvarleg óvissa um þingsköp og reyndar tel ég að þessi túlkun stríði gegn þingskapalögum.

Ég þakka hv. þm. og formanni efh.- og viðskn. Pétri H. Blöndal fyrir að varpa ljósi á hve óhönduglega ríkisstjórnarmeirihlutanum hefur tekist til um meðhöndlun á þessu umdeilda máli. Það vantar þá eina vídd í lýsingar hans. Hann talar um alla þá fundi sem boðað hefur verið til. Hann gleymir einu. Hversu langir voru þessir fundir og hvert svigrúm var gefið til vandaðrar umræðu um málin? Efh.- og viðskn. þingsins fékk erindið frá allshn. um að gefa álit á þessu umdeilda máli á föstudegi og frest til sama dags til að skila áliti. Á fyrsta fundi lögðum við á ráðin um til hvaða fulltrúa við vildum leita, til hverra, til hvaða aðila. Það voru Samtök atvinnulífsins, Verslunarráðið, Alþýðusamband Íslands, Samkeppnisstofnun og bankar og verðbréfafyrirtæki sem mér komu í hug. Allar þessar stofnanir óskuðu eftir frekari fresti, töldu að þær þyrftu a.m.k. að fá fram í miðja þessa viku til að skila áliti, allar þessar stofnanir. Síðan gerist sá fáheyrði atburður að í morgun á fundi efh.- og viðskn. eru þrjú eða fjögur mál sett á dagskrá og formaður nefndarinnar setur þetta síðast á dagskrána. Fimm mínútur yfir 10 er hafin umræða um málið. 20 mínútum síðar, gegn vilja meiri hluta nefndarinnar, leggur formaður nefndarinnar fram dagskrártillögu um að vísa málinu út úr nefnd. Hún er felld, sú tillaga er felld, og við höfðum óskað eftir því að fá frest á þessum þingfundi um hálfa klukkustund. Því var hafnað að bera fram þessa ósk okkar og ég spyr: Hvers konar vinnubrögð eru þetta í þinginu?