Afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 11:11:38 (7984)

2004-05-12 11:11:38# 130. lþ. 113.92 fundur 552#B afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps# (um fundarstjórn), EKG
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[11:11]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Hér hefur komið fram af hálfu einstakra þingmanna mjög mikill áhugi á því að menn reyndu að ná saman um störf þingsins og menn reyndu að átta sig á því hvernig hægt væri að vinna þetta mál áfram í sem mestri sátt og samlyndi. Ég tek að sjálfsögðu mjög undir það. Það er það sem hefur verið einlægur vilji stjórnarliða að reyna að gera, greiða fyrir þessu máli eins og hægt væri þannig að menn gætu tekið til við hina efnislegu umræðu alveg eins og ég hvatti mjög til í gær.

Vandinn hefur hins vegar verið sá að í hvert skipti sem menn fara að ræða saman eru einfaldlega reistar nýjar kröfur. Í nótt var mjög talað um að fara þyrfti að sjá fyrir endann á því hvernig menn ætluðu að ljúka þingstörfunum í nótt. Síðan var það tilkynnt af forsetastóli að ætlunin væri að gera það um kl. 4 sem var ekki langt frá því sem menn höfðu verið að ræða sín í millum. Þá hefði maður vænst þess að hin efnislega umræða færi af stað og stæði til kl. 4. Nei, þá var gripið til þess sama gamla að fara í umræður um fundarstjórn forseta til þess að komast hjá því að hægt væri að hefja efnislega umræðu. Þannig stóð umræðan --- til hvað? Til nákvæmlega kl. 4 þannig að búið væri að ljúka því að koma örugglega í veg fyrir að hin efnislega umræða færi fram.

Í morgun var greint frá því að sú krafa hefði komið fram á fundi efh.- og viðskn. að hún fengi tíma til kl. 11 til að ljúka störfum sínum og það hefði greitt alveg óskaplega fyrir þingstörfum. Síðan koma menn inn í þingsalinn og þá eru þeir ekkert að tala um að það hefði þurft hálftíma í viðbót til að ljúka þessum störfum. Nei, þá fara hv. þm. stjórnarandstöðunnar að tala um að það þurfi að fá tíma til kl. hálftvö, 2--3 tíma í viðbót við það sem áður hafði verið talað um, 5 mínútum fyrr handan Austurvallar. Til viðbótar er síðan sagt: A.m.k. til hálftvö, eða eins og hv. þm. Steingrímur Sigfússon sagði: Til kl. tvö.

Það virðist alveg sama hvernig þessum málum vindur fram. Það er greinilega enginn vilji til þess að hefja efnislega umræðu þó að menn tali um nauðsyn þess að málin séu rædd. Það er einfaldlega þannig að þessu frv. var vísað með öllum greiddum atkvæðum úr þessum þingsal til meðferðar í allshn. Alþingis. Allshn. sendi síðan málið til umsagnar. Þær hafa borist frá fjöldamörgum aðilum en því miður luku ekki þær tvær þingnefndir sem fengu málið til umsagnar umfjöllun sinni. Það breytti auðvitað ekki neinu um stöðu málsins í sjálfu sér. Forræði málsins var hjá allshn. Allshn. lauk vinnu sinni á grundvelli þeirra upplýsinga sem hún hafði aflað. Það liggur fyrir núna að menntmn. hefur lokið sinni vinnu. Formaður efh.- og viðskn. segir að honum sé ekkert að vanbúnaði þegar tóm gefst til að taka málið frekar fyrir í nefndinni.

Forræði málsins var hjá allshn. þangað til allshn. vísaði því inn í þingsalinn og nú erum við að ræða það á grundvelli þeirra eðlilegu skjala sem eiga að vera til grundvallar þegar við ræðum þessi mál. Okkur er ekkert að vanbúnaði að hefja hina efnislegu umræðu og ég hlýt að hvetja stjórnarandstöðuna til að láta af þessum, virðulegi forseti og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, leikaraskap.